140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda þessa fyrirspurn. Það var lengi rætt um þetta nýyrði, auðlegðarskatt, þegar það kom hér inn í tíð þessarar vinstri ríkisstjórnar, sem er náttúrlega bara nýtt heiti á hinum gamla eignarskatti sem Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur gátu sem betur fer afmáð á sínum tíma.

Það sem er kannski alvarlegast við þennan auðlegðarskatt er að hann leggst á eignir, eins og þingmaðurinn fór yfir, og eignir hjá tekjulausu fólki. Það er ekki nóg með að verið sé að skattleggja það sem er löngu uppgreitt og er orðið eign, húseign sem dæmi, heldur situr í þeirri húseign kannski tekjulaust fólk, annaðhvort ellilífeyrisþegar eða atvinnulaust fólk, og hefur ekkert ráðrúm til að borga þennan skatt. Það finnst mér alvarlegi hluturinn, auk þess að kalla má þetta tvísköttun því að fólk er vissulega búið að borga skatta af þessum eignum oft og tíðum ef við lítum til dæmis á fasteignir og annað slíkt.

Hv. þingmaður kom inn á lífeyrisréttindin, það er kannski ekki óeðlilegt að ekki sé lagður auðlegðarskattur á uppsöfnuð lífeyrisréttindi því að fram að þessu hefur það verið svo að skatturinn er greiddur þegar úttaka lífeyrissparnaðar hefst, þá kemur skatturinn á það. Ég rökstyð þetta til dæmis með þeirri tilvísun í tvísköttun í þeirri leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara með þessi 2% í séreignarsparnaði. Tvísköttun má aldrei eiga sér stað.

Í sama formi og ég rökstyð það með lífeyrissjóðsgreiðslurnar, að ekki megi vera tvísköttun á þeim, er ég jafnframt að segja að ég telji að auðlegðarskatturinn sé tvísköttun sem megi ekki eiga sér stað. (Forseti hringir.) Þess vegna er ég mjög andsnúin þessum auðlegðarskatti því að það er löngu búið að rukka inn þann skatt (Forseti hringir.) sem liggur að baki þessum eignum.