140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[12:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Ég get upplýst þetta með þýska stjórnlagadómstólinn, hann komst að þeirri niðurstöðu að eignarskattar meiddu eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, þ.e. að eignin væri varin í stjórnarskrá og þess vegna mætti ekki leggja á hann eignarskatt.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um lífeyrissjóðina. Mér fannst ræða hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur mjög góð nema þegar kom að lífeyrissjóðunum. Þar fannst mér örla á hefðbundnum fordómum gagnvart lífeyrissjóðum sem er mjög algengt. Það helgast af því, held ég, að fólk áttar sig ekki á því að það á sjálft lífeyrissjóðina, þ.e. fjölskyldurnar í landinu. Enginn annar á réttindi í lífeyrissjóðnum. Ef menn ætla að gæta hagsmuna heimilanna eiga menn að gæta hagsmuna lífeyrissjóðanna.

Það vill svo til að eignir lífeyrissjóðirnir eru núll, þ.e. eignir standast á við skuldbindingar, það er engin eign í lífeyrissjóði. Verðmæti allra réttinda er nákvæmlega sama og eignin. Þess vegna gerist það og er kannski ekki mjög víða þekkt að lífeyrir hjá lífeyrissjóðunum er verðtryggður. Almennu lífeyrissjóðirnir greiða verðtryggðan lífeyri, A-deild LSR sömuleiðis, og B-deildin gerir gott betur, hún borgar lífeyri miðað við hækkun launa og er ógreidd, gífurlegar skuldbindingar sem nálgast Icesave svo ég komi því að, frú forseti.

Þegar lífeyrissjóðirnir fá verðbætur eru þeir ekki að fá eitthvað sem þeir reiknuðu ekki með, heldur eru þeir að fá nákvæmlega það sem þeir reiknuðu með til að geta greitt verðtryggðan lífeyri, af því að lífeyririnn hækkar í sömu hlutföllum og verðtryggingin og allar skuldbindingar með. Það gerist því ekkert hjá lífeyrissjóðunum þegar þeir fá verðbætur á sín skuldabréf.