140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[13:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er kannski ekki alveg sammála hv. þm. Pétri Blöndal um að lífeyrissjóðirnir séu ein stærsta eign heimilanna í landinu því að þetta er lögþvingaður sparnaður. (Gripið fram í.) Til dæmis var séreignarsjóðskerfið byggt þannig upp að séreignarsparnaður hvers manns gengur í erfðir, alveg snilldarkerfi. Auðvitað væri framtíðarmúsíkin í lífeyrissparnaðarmálum á Íslandi sú að hver hefði sinn reikning í stað þess að allir borgi í þessa almennu hít þar sem fólk fær ekki þegar upp er staðið nema 54 eða 56% af launum sínum úr lífeyrissjóðunum, sem er fáránlega lítil upphæð. Eins og staðan er núna fara 12% af launum fólks í þennan lögbundna sparnað sem fólk vildi kannski eyða í annars konar sparnað, húsnæði eða aðra verðmæta eign. (Forseti hringir.) Seint verðum við, ég og hv. þingmaður, algjörlega sammála í lífeyrissjóðsmálum en þetta þarf að ræða.