140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:46]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Ég er hingað komin til að ræða við hann um skattatillögur Sjálfstæðisflokksins, næststærsta flokksins á þingi. Ég sé engar breytingartillögur við skattafrumvarp hæstv. fjármálaráðherra og óska því eftir að fá tillögur frá hv. þingmanni um það hvernig eigi að koma til móts við kröfur Sjálfstæðisflokksins, m.a. í þingsályktunartillögu hans sem kölluð hefur verið plan D, um að draga úr skattheimtu til að örva fjárfestingu í hagkerfinu og þar með hagvöxt.

Síðan vil ég líka fá að vita nákvæmlega hvernig eigi að fjármagna þessar skattalækkanir sem eru lagðar til í plani D. Þar er talað um að afnema eigi allar þær skattahækkanir sem hafa verið lögleiddar frá hruni. Þetta eru skattahækkanir sem afla núna ríkissjóði um 90 milljarða, en halli ríkissjóðs er enn þá 21 milljarður. Ég á mjög erfitt með að trúa því, hæstv. forseti, að það eitt að lækka skatta örvi skatttekjur ríkissjóðs um 110 milljarða. Öfugt við margar þjóðir erum við að kljást við bankahrun, ekki bara samdrátt. Rannsóknir sýna að skatttekjur ríkissjóðs dragast mjög mikið saman eftir bankahrun og eru afar lengi að taka við sér eftir slíkt hrun. Meðal annars hafa verið tillögur frá (Forseti hringir.) AGS um að fara hægt í skattalækkanir.