140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er stuttur tími til andsvara þegar verið er að ræða mjög mikilvæg mál. Ég vil þá nota tímann til að spyrja hv. þingmann hvort hann geti ekki, í ljósi þess að við erum að fylla út tekjuramma fjárlaga sem hafa nú þegar verið samþykkt, stutt tillögu okkar hv. þm. Atla Gíslasonar um að hér verði tekið upp fjórða skattþrepið og lagt aukalega á á tekjur sem eru 1.200 þúsund á mánuði og þar yfir. Það er skattur sem mun afla ríkissjóði 530 milljóna. Þá væri hægt að nota þá peninga til að fjármagna hækkun fjárhæðarmarka annarra þrepa þannig að við þyngdum ekki skattbyrðina á því fólki sem er í láglaunahópum og millitekjuhópum. Sú aðgerð að hækka fjárhæðarmörkin upp um 8% en ekki 3,5% kostar um það bil 590 milljónir. (Forseti hringir.) Það er hægt að fjármagna þetta innan ramma fjárlaga.