140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[15:57]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir það að við eigum að fara varlega í að draga ályktanir af stuttum tímabilum, enda gerði ég það alls ekki í máli mínu. Ég dró þvert á móti fram að það væri skýr þróun ef við horfum yfir þá þrjá ársfjórðunga sem við höfum tölur yfir á þessu ári. Þar birtist okkur mjög skýrt viðsnúningur upp á ríflega 3 þús. störf í plús. Það er allt önnur mynd en var hér fyrr á árum. Þótt það sé sannarlega rétt að héðan hafi fólk flutt ef við horfum á undanfarin þrjú ár er staðreyndin sú að undanfarið, sérstaklega á þessu ári, er að birtast okkur allt önnur og betri mynd af stöðu mála, sérstaklega varðandi hagvöxtinn en líka varðandi atvinnuástandið, en var hér uppi á fyrri hluta kjörtímabilsins.

Hv. þingmaður nefndi nefndina um græna hagkerfið og því langar mig að spyrja í lokin varðandi erlendu fjárfestingarnar hvort hann sé ekki sammála mér um að hér væri góður grundvöllur í þinginu til að ná þverpólitískri (Forseti hringir.) samstöðu um sérstakt átak til að fara í fjárfestingar í einmitt grænu (Forseti hringir.) hagkerfi.