140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:02]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Áðan nefndi einn ágætur hv. þingmaður hið ágæta slagorð okkar sjálfstæðismanna stétt með stétt. Það var vel til fundið, af því að að baki þeirri hugsun er það að við höfum samfélag þar sem hver og einn fær tækifæri, óháð bakgrunni sínum, til að finna kröftum sínum viðnám og farveg, tækifæri til þess að gera það sem hver og einn getur til að búa sér og sínum góð lífskjör. Atvinnuleysi er það versta sem getur komið fyrir nokkurn mann, að taka möguleikana frá fólki til að vinna fyrir sjálft sig og sitt fólk. Það er það sem er svo vont.

Þess vegna get ég ekki litið á það sem einhvern þátt í velferð að við borgum atvinnuleysisbætur. Auðvitað á að draga það frá öllum öðrum velferðarútgjöldum. Það er ekkert sambærilegt við það eins og það hvernig við stöndum að heilbrigðisþjónustunni, öldrunarþjónustunni eða skólamálunum. Þetta er neyðarúrræði sem við höfum til að bregðast við því þegar fólk hefur ekki atvinnu.

Það sem er svo vont við þetta atvinnuleysi, herra forseti, er hversu margir hafa verið án vinnu í mörg ár. Þúsundir manna eru núna að fara inn í þriðja eða fjórða árið án atvinnu. Það eyðileggur fólk þegar missirin og árin líða án þess að það hafi atvinnu. Þá er ekki stétt með stétt, því miður, því að þá er kominn hópur þeirra sem eru atvinnulausir til langs tíma og það er búið að eyðileggja fyrir því fólki alla möguleika. Það tekur langan tíma að gera fólk í stakk búið til að fara aftur (Forseti hringir.) inn á vinnumarkaðinn. Það er þetta sem skiptir svo miklu máli. Þess vegna leggjum við svo mikla áherslu á (Forseti hringir.) það, forseti, að hér verði ráðist í fjárfestingar til að það verði tækifæri fyrir þetta fólk.