140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:07]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til laga um ráðstafanir í ríkisfjármálum sem gengur yfirleitt undir nafninu bandormur en hjá þessari kommúnistaríkisstjórn eru þetta kyrkislöngur en ekki bandormar.

Ég vil blanda mér aðeins í umræðuna sem var í andsvörum rétt áðan þar sem menn ræddu um atvinnuleysið og það böl sem því fylgir. Enginn deilir svo sem um það en þegar við tölum atvinnuleysi, hvað það er í raun mikið og hvort það minnki nógu hratt og svo framvegis, verð ég að viðurkenna að við tölum oft um hlutina án þess að vita nákvæmlega hvernig þeir eru. Ekki held ég því fram að ég viti frekar en einhverjir þingmenn stjórnarliðsins hvernig þeir eru.

Við höfum farið í aðgerðir sem snúa að því að fólk geti farið að mennta sig, það fær heimildir til að taka námslán úr Lánasjóði íslenskra námsmanna, sem er mjög skynsamlegt og eru engar pólitískar deilur um það. En ég átta mig hins vegar ekki á því og hef ekki fengið svör við því hvernig málin horfa við varðandi atvinnuleysi ef fólk er skráð í nám, það er þá ekki atvinnulaust en slíkt hefur áhrif á atvinnuleysisstigið í prósentum talið.

Það kom fram á fundi í hv. fjárlaganefnd (Gripið fram í.) hjá fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga að þegar fólk á ekki rétt á atvinnuleysisbótum einhverra hluta vegna, það er ekki búið að ávinna sér rétt eða hvernig sem það er, er mjög á reiki hvernig það er reiknað inn í heildartöluna, þar gæti verið um að ræða allt að 1.200–1.800 manns. Þegar við ræðum um atvinnuleysistölurnar finnst mér oft ekki að við séum með heildaryfirsýn yfir málið og við eigum að gera kröfu um að kafað verði ofan í það. Eins og ég sagði áðan eru engar deilur um að þau úrræði þar sem fólki er gert kleift að mennta sig frekar en að vera á atvinnuleysisbótum, eru mjög skynsamleg en eigi að síður þurfum við að átta okkur á þessum staðreyndum.

Áður en ég ræði kyrkislöngur þessarar kommúnistaríkisstjórnar, eins og ég hef nefnt bandorminn, vil ég segja að ég fagna því að búið sé að frelsa hv. þingmann og frænda minn Ásmund Einar Daðason úr ríkisstjórnarliðinu, þó ekki nema í Framsóknarflokkinn, sem er þó skref í rétta átt því að auðvitað var hv. þingmaður aldrei kommúnisti, hann hélt bara að hann væri það. Mér finnst vanta dýpri umræðu á þingi þegar við ræðum skattahvata í kerfinu, þ.e. hvaða áhrif það hefur á niðurstöðu ríkissjóðs að vera með skattalega hvata inni í kerfinu. Við erum til að mynda búin að fjalla um og mæla fyrir frumvarpi um endurgreiðslur í kvikmyndagerð sem þarf að mínu mati að breyta í þá veru að þar séu skattalegir hvatar en ekki endurgreiðslur vegna þess að þá er búið að taka fjárstjórnarvaldið af Alþingi.

Ég ætla ekki að leggja efnislegt mat á það og hef ekki haft forsendur til þess að vita hvort það sé í raun það sem fram kemur í því frumvarpi, það kemur eflaust fram í þeim nefndarálitum og meðförum hv. atvinnuveganefndar þegar það kemur í þingið, ég á þó ekki sæti í þeirri nefnd. Þar telja menn það vera hagnað fyrir ríkissjóð að endurgreiða allt að 85% af kostnaði með styrkjum úr Kvikmyndasjóði, erlendum framlögum og þar fram eftir götunum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því og hef engar forsendur til að segja að það standist ekki. En ég velti fyrir mér: Ef skattalegir hvatar og endurgreiðsla á slíkum hlutum virka á þennan atvinnuveg, af hverju virka þeir bara á sumar atvinnugreinar en ekki aðrar þó að það séu ekki sambærilegar atvinnugreinar að öllu leyti? Ég kalla eftir svörum við því frá hv. stjórnarliðum,

Allir eru sammála um að það verkefni sem ríkisstjórnin fór í, sem heitir Allir vinna, þ.e. þegar virðisaukaskattur af vinnu sem unnin er á byggingarstað er endurgreiddur vegna stöðu þeirrar atvinnugreinar, sé mjög skynsamleg framkvæmd. Hún er fín og virkar vel. Það er vegna þess að með því er hvatt til þess að fara í fjárfestingar og framkvæmdir, það eru engar deilur um það. Það er vel heppnað átak hjá ríkisstjórninni. En eigi að síður virðist það ekki gilda um aðra atvinnuvegi hjá hæstv. ríkisstjórn. Er það vegna viðhorfa hennar til viðkomandi atvinnugreina? Ég veit það ekki. Gæti hugsanlega verið að það mundi villa mönnum sýn ef þeir horfðu mismunandi á viðkomandi atvinnugreinar?

Svo ég klári að fara yfir endurgreiðslur í kvikmyndagerð tel ég mjög mikilvægt og í raun og veru skyldu þingsins að breyta því með þeim hætti að slíkt verði fært inn í skattalega hvata í stað þess að hafa endurgreiðslur. Ef við gerum það ekki getum við ekki haft neina stjórn á ríkisfjármálum, þá erum við búin að færa ákvarðanir um útgjöld úr ríkissjóði frá Alþingi og út í bæ, þá ræðst viðkomandi fjárlagaliður af því hvað farið verður í mörg verkefni. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að menn taki efnislega umræðu um málið og færi það í þennan farveg því að það kemur mjög skýrt fram í skýrslu fjárlaganefndar um skýrslu ríkisreiknings 2009, um svokallaðar markaðar tekjur, að við verðum að ná tökum á þessu. Þær gegnumstreymistekjur sem eru í mörkuðum tekjum eru orðnar 100 milljarðar. Í mörgum tilfellum þarf í raun ekki að eyða miklum tíma í að ræða fjárlög íslenska ríkisins. Það væri nær að taka meiri og dýpri umræðu og ræða lokafjárlög viðkomandi fjárlagagárs af því að þar koma fram allt aðrar upplýsingar en eru í fjárlögum. Það eru engar pólitískar deilur um það. Þetta fjallar eingöngu um fagleg vinnubrögð. Öll hv. fjárlaganefnd er sammála um þá málsmeðferð til að ná þeim aga sem við þurfum og þeirri yfirsýn sem þingið verður að hafa í fjármálum og fjárútlátum ríkisins til að koma málunum í réttan farveg. Það eru allir sammála um það. Þess vegna er mikilvægt að þegar búið er að leggja fram einhverjar niðurstöður, einhverja áætlun eða skýrslu sem allir eru sammála um þvert á flokka að farið sé að vinna eftir henni en ekki alltaf í þveröfuga átt. Ég lít þannig á að þegar menn fagna samstöðu um fagleg vinnubrögð í hv. fjárlaganefnd en aðrir fara svo í þveröfuga átt sé í raun og veru verið að segja við okkur í hv. fjárlaganefnd: Hættið að vinna saman og farið af þeirri braut sem þið eruð á, við ætlum að halda áfram sömu vitleysunni og verið hefur í gegnum áratugina.

Ég ætla að fara aðeins yfir aðferðafræðina. Eins og ég hef oft sagt í þessum stóli er þessi niðurskurður og skattahækkanir algjör eiturblanda. Það er eiturblanda sem veldur samdrætti í hagvextinum í þessu árferði, það er mikið atvinnuleysi. Hv. stjórnarþingmenn hafa hins vegar haldið því fram að fara verði blandaða leið til að ná niður hallanum á ríkissjóði. Það er ekki hægt að neita því, það væri sjálfsblekking og ekki réttlátt að viðurkenna það ekki að auðvitað hefur hallinn á ríkissjóði minnkað, það sýna allar tölur. En svo koma einstaka hv. þingmenn, sérstaklega hæstv. ráðherra sem ber sér á brjóst og segir: Þetta er ég nú búinn að gera, það var svakalega erfitt. En hvað hefur í raun og veru verið gert? Það hefur verið seilst í vasa skattborgaranna þannig að ef þakka á einhverjum fyrir árangurinn er það íslensku þjóðinni sem borgar skattana. Það er bara þannig. En þegar menn skoða hverjar afleiðingarnar eru blasa þær við okkur. Við sjáum alveg hverjar þær eru. Menn fara alveg út á ystu nöf í skattlagningu á einstaklinga og fyrirtæki. Ég ætla engum það að fara lengra en hann telur að hægt sé að gera þótt umdeilanlegt sé hvar mörkin liggja. Ég tel að menn séu komnir allt of langt á þeirri vegferð.

Við sjáum það hverjar afleiðingarnar eru. Þær eru að fólk fer úr landi. Fólk fær ekki atvinnu því að ef skattpíningin er of mikil verður engin fjárfesting, fyrir utan alla óvissuna, sem ég mun koma inn á seinna í ræðu minni, sem fylgir þessari stefnu eða stefnuleysi og rugli í hæstv. ríkisstjórn. Þá minnka ráðstöfunartekjurnar eðlilega og maður smyr ekki hagkerfið til að búa til störfin og atvinnuna. Ef maður fer út í fjárfestingar í dag, á þessu ári eða næsta ári eru það störfin inn í framtíðina, það deilir enginn um það. Það þarf að vera þannig, við verðum að horfast í augu við það.

Við hv. þingmenn fáum senda pósta með einstaka dæmum um dapurlega stöðu fólks, um fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu, þá aðallega fjölskyldur, þar sem fólk lýsir því hvernig það reynir að framfleyta sér þegar ráðstöfunartekjurnar minnka. Það kemur reyndar innspýting vegna kjarasamninga út af sérstökum vaxtaniðurgreiðslum og endurgreiðslum hjá Landsbankanum sem býr til ákveðinn hagvöxt sem er að mínu mati ekki æskilegt að byggja á til framtíðar. Ég held að allir séu sammála um það, þó að stjórnarliðar vilji gera heldur meira úr honum en stjórnarandstæðingar, að ekki er skynsamlegt að byggja á því til framtíðar að knýja fram hagvöxt á einkaneyslu. Það verður náttúrlega að vera fjárfesting og atvinnusköpun til að skapa þann hagvöxt sem við viljum fá.

Ég horfði á sjónvarpsfréttirnar í gær á hæstv. forsætisráðherra sem talaði um að hér væri bara allt í himnalagi, það gengi bara allt mjög vel, það væri bjart fram undan og hefði verið það í langan tíma, ríkisstjórnin hefði tekið við erfiðu búi en þetta væri allt á blússandi ferð. (Fjmrh.: Hún kemst af.) Væntanlega hefur hæstv. forsætisráðherra næg laun til að hún komist vel af, já. En síðan kom næsta frétt á eftir: Fimm manna fjölskylda að gefast upp á ástandinu og flytja til Noregs, búin að leggja mikið á sig, gera allt sem hún getur til að framfleyta sér og sínum, það bara tekst ekki. Ég held að það væri mjög æskilegt að hv. stjórnarliðar færu aðeins yfir stöðuna með hæstv. forsætisráðherra, hvernig staðan er í raun og veru, og hættu að taka þátt í þessari kúgun með hæstv. forsætisráðherra. Það blasir auðvitað við öllum og það á að blasa við hv. þingmönnum hvað er að gerast.

Ég vil koma inn á einstaka skatta, ekki þó alla, sem lagðir hafa verið á. Það er náttúrlega með ólíkindum hversu oft búið er að breyta skattinum, ég held að menn séu búnir að týna tölunni á því. Hv. þm. Pétur Blöndal hefur verið að reyna að telja það saman og er nú talnaglöggur maður. Ég held að hann eigi oft erfitt með henda reiður á öllum þeim breytingum og hækkunum á sköttum sem átt hafa sér stað. Nýjustu tölur herma að nú séu þær komnar upp undir 160 eða 170, ég hef annars enga tölu á því. Það sjá allir hvað búið er að auka flækjustigið. Það kom nokkuð fram í ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar í gær sem ég hef haft töluverðar áhyggjur af og fjallað hefur verið um í fjárlaganefnd, það er hversu mikið af sköttunum er ógreitt, það er komið á annað hundrað milljarða. Það var reyndar varað við því við skattkerfisbreytingarnar að þegar menn hækkuðu skatta svona mikið mundi það ekki skila sér, og það hefur gengið eftir. Það er nokkuð sem við eigum eftir að sjá betur þegar fram líða stundir.

Mig langar aðeins að koma inn á þá breytingu að færa séreignarsparnaðinn úr 4% í 2%, þ.e. að lækka hann um helming. Það hefur verið vandamál hjá okkur Íslendingum að við höfum ekki sparað nógu mikið og ekki sýnt nógu mikla ráðdeild. Á sama tíma greiðum við út úr séreignarlífeyrissjóðunum 25 milljarða, það stefnir í met á þessu ári. Á næsta ári er reiknað með 12–13 milljörðum, sú tala fór dálítið hækkandi eftir því sem leið á afgreiðslu fjárlaga. Þetta tvennt er gert á sama tíma. Ég held að það sé ekki skynsamlegt, virðulegi forseti. Það kemur líka fram, og er það sem lífeyrissjóðirnir hafa bent á, að það mun auka lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar inn í framtíðina. Menn hafa miklar áhyggjur af því. En við erum alltaf stödd í núinu og hugsum ekki nógu mikið um hvað gerist í framtíðinni.

Mig langar að rifja upp eitt í ljósi þess sem gerist með því að við minnkum sparnaðinn. Við greiðum út séreignarsparnaðinn og það er dálítið varhugavert ef það er rétt sem heyrst hefur, sem ég ætla ekki að fullyrða um, að þegar fólk leitar lausna hjá viðkomandi bankastofnunum sé gerð krafa um að eigi það séreignarlífeyrissparnað muni það þurfa að leysa hann út til að bankarnir geti örugglega sogað hann inn í það skuldagreiðsluferli sem fólk er í. Það er nokkuð sem við þyrftum að skoða sérstaklega.

Það virðist vera að hæstv. ríkisstjórn finnist um að gera að henda nógu miklu inn í framtíðina eins og enginn sé morgundagurinn. Ég minni á eitt sem gleymist stundum þó að ég gleymi því ekki, ríkisstjórnin gerði samning um stóriðjuna í árslok 2009 um að greiða fyrir fram 1.200 millj. kr. á ári í skatt 2010, 2011 og 2012. Síðan átti að byrja að greiða hann til baka árið 2013. Það vill nefnilega þannig til að þá verður þessu kjörtímabili hæstv. ríkisstjórnar lokið í síðasta lagi, vonandi þó fyrr. Menn eru alltaf einhvern veginn að ýta vandanum á undan sér og vilja ekki taka á honum eins og þarf að gera.

Hækka á kolefnisskattana og eldsneytið eina ferðina enn og vil ég benda hv. þingmönnum á að við erum búin að fara í þá vegferð áður og það hefur sýnt sig að eftir því sem það hækkar meira dregur úr umferð. Það gefur augaleið. Tekjurnar sem áætlaðar eru af þessu, sem við fylgjumst með í hv. fjárlaganefnd, skila sér ekki, þær eru miklu minni vegna þess að það dregur úr umferð.

Ég bendi sérstaklega á það að þetta kemur mjög harkalega niður á mörgum íbúum á landsbyggðinni, sérstaklega fólki sem býr í nágrenni við stærstu kaupstaðina, fólk sem þarf að keyra í vinnuna. Það kostar mjög mikið og bitnar miklu harðar á því fólki en hinu sem býr í þéttbýli þótt það vinni úti á landi því að það hefur oft aðgang að almenningssamgöngum sem eru því miður ekki alls staðar. Þær eru á stærstu stöðunum þannig að þetta bitnar mjög harkalega á landsbyggðinni. En enn og aftur á að fara þessa leið og það bitnar líka á landsbyggðinni að því leyti að aðföngin og samkeppnisaðstaða fyrirtækjanna og íbúanna á landsbyggðinni verða með allt öðrum hætti en þar sem styttra er að ferðast á milli heimilis og vinnu og menn geta notað almenningssamgöngur.

Mig langar aðeins að koma inn á skattana á lífeyrissjóðina. Nú á að fara í sérstakar vaxtabætur sem eiga að ná 1.400 millj. kr. sem teknar eru af lífeyrissjóðunum. Það er auðvitað mjög stórt skref sem stigið er þar ef menn ætla að skattleggja lífeyrissjóðina. Það hefur enginn talað fyrir því hingað til. En hvernig virkar það í raun og veru? Það virkar með þeim hætti að allir sjóðirnir þurfa að greiða en þá þarf að skoða hversu stór hluti af því er í opinberu sjóðunum. Þegar maður tekjufærir skatt inn í fjárlög ríkisins af lífeyrissjóðunum, sem er skattur hjá opinberu sjóðunum, myndast í raun meiri halli en er á honum í dag. Núna hangir yfir okkur í kringum 400 milljarða skuldbreyting í B-deildinni, það er eitt af þeim verkefnum sem stjórnvöld í gegnum tíðina hafa ekki tekið á. Við erum að fara sömu leið með A-deildina. Þegar A-deildin var stofnuð 1997 sögðu stjórnvöld: Nú skulum við fara að horfast í augu við vandann, stofnum A-deildina og hún á að vera sjálfbær, lokum B-deildinni. Síðan hefur það gerst að hallinn þar er orðinn 51 milljarður. Ég hef mjög miklar áhyggjur af því að við séum að setja allt of miklar byrðar á okkur inn í framtíðina. Hv. stjórnarliðar hafa sagt að vaxtabæturnar fari til þess fólks sem greiðir í lífeyrissjóðina. Það eru ákveðin rök í því máli en við megum ekki gleyma því að það er líka fullt af fólki sem eru leigjendur sem greiða í lífeyrissjóðina, í raun og veru í almennu lífeyrissjóðina, og þá er það bara skerðing á réttindum. Það er mjög mikilvægt, virðulegi forseti, að menn fari yfir þessi mál til að átta sig á stöðunni.

Mig langar aðeins að nefna eitt atriði sem ég gat einnig um í sambandi við fjárlögin, að komin var tekjuaukning á ríkissjóð og tekjuliðina upp á 591 millj. kr. Þegar menn fóru að skoða af hverju það var var það vegna þess að af hálfu ríkissjóðs stendur til að breyta útgáfu skuldabréfa ríkisbréfanna meira yfir í að vera verðtryggð bréf, þá færist hluti vaxtanna á höfuðstólinn. Það býr samt til tekjur hjá ríkissjóði upp á 591 millj. kr. Það breytir í sjálfu sér ekki stöðu ríkissjóðs nema að því leyti til að menn færa hlutina til, eins og rétt er að gera. En við verðum að passa okkur á því að gera það þannig að við séum meðvituð um stöðuna eins og hún er nákvæmlega. Af hverju segi ég það? Vegna þess að við vorum að samþykkja fjárlög fyrir stuttu sem eru með innbyggðum halla. Það vita allir af hallanum. Hann er sagður vera 21 milljarður og er talað um hann þannig en hann er í raun og veru einhvers staðar á bilinu 14–30 milljarðar til viðbótar. (PHB: Meira.) Meira, kallar hv. þm. Pétur Blöndal, ég átta mig ekki alveg á hversu mikið en hallinn er alla vega 14–30 millj. kr. í viðbót.

Ef við endum með 40–50 milljarða halla um næstu áramót, ef við komum ekki fjárfestingunni og atvinnuvegunum í gang, sem við gerum þó vonandi, veit ég ekki hvernig við eigum að ná tökum á hallanum á ríkissjóði og af því hef ég verulegar áhyggjur. (PHB: Stækka kökuna.) Já, við erum sammála um það, hv. þingmaður, að stækka kökuna en þá þurfum við að breyta um stefnu miðað við það sem núverandi ríkisstjórn er að gera. Stefna núverandi ríkisstjórnar snýst í raun og veru um að hún geti setið áfram að völdum, hún snýst ekkert um annað. Ríkisstjórnin er löngu dauð, það sjá það allir nema hún.

Þegar ég tala um að menn eigi að fara að gera eitthvað í atvinnumálunum nefni ég sérstaklega það sem gert hefur verið í sambandi við sjávarútveginn, að halda honum í óvissu í þrjú ár. Menn boða breytingar, sett er á sáttanefnd og það kemur eitthvað út úr því, það fer náttúrlega allt upp í loft og í eintóma vitleysu. Svo lagði hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fram eitt vitlausasta þingskjal sögunnar síðastliðið vor með þeim afleiðingum að allt hefði farið fjandans til hefði það gengið eftir. Svo skipaði hæstv. ráðherra einhvern starfshóp sem ég ætla ekki að hafa neinar skoðanir á og þegar kom í ljós að sá hópur starfaði ekki í sátt við hæstv. ríkisstjórn eða oddvita hennar voru sjávarútvegsmálin tekin af hæstv. sjávarútvegsráðherra í grundvallaratriðum og sett til hæstv. velferðarráðherra og hæstv. menntamálaráðherra. Það sjá náttúrlega allir hvers konar endemisvitleysa og þvæla það er, það er algerlega stjórnlaust rugl, eins og hæstv. velferðarráðherra hafi ekki nóg á sinni könnu og hæstv. menntamálaráðherra. (Gripið fram í.) Nei, þá var sú ákvörðun tekin að færa málaflokkinn yfir til þessara tveggja ráðherra. En vegna stöðu ríkisstjórnarinnar geta þeir ekki skipt út ráðherrum. Þetta fjallar raunverulega um að tryggja hæstv. ríkisstjórn eins atkvæðis meiri hluta. Þetta er afleiðing af efnahagsstefnunni, hv. þingmaður. (Gripið fram í.) Þegar menn ætla að (Gripið fram í: Er erfitt að hlusta á þetta?) búa til störf, (Gripið fram í.) skapa atvinnu, eiga menn líka að gera það og hætta þessari skattpíningarstefnu. Það er það sem þarf að gera. Þess vegna nefni ég sjávarútveginn. Hvaða tækifærum höfum við sleppt þar? Gríðarlega mörgum. Við hefðum svo sannarlega getað veitt miklu meira en við höfum gert hér undanfarin tvö til þrjú ár í það minnsta, miklu meira, til þess að skapa störf, skapa tekjur. Það skilur ekki nokkur einasti maður af hverju það er ekki gert og sérstaklega ekki þeir sem vit hafa og þekkingu á þessum málum og starfa við atvinnugreinina. Við þurfum að búa til útflutningsverðmæti, búa til tekjur, búa til störf og taka fólk af atvinnuleysisskrá. Ég minni á að þegar menn veiða meira í sjávarútveginum, í þeirri undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, þá er í raun hægt að segja að áhrifin inn í landsframleiðsluna séu þreföld vegna þess að þar er öll fjárfestingin og markaðirnir fyrir hendi og það þarf bara að taka ákvörðun um að veiða meira og framleiða meira, skapa störf. Maður þarf ekki að fara í neina fjárfestingu eða annað. Það er alveg hreint með ólíkindum að þetta sé gert eins og raun ber vitni.

Hver ætlar að halda því fram að það sé einhver glóra í því að taka öll völd af hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra varðandi breytingar á stjórn fiskveiða? Það er stærsta málið og mikilvægasta málið hjá hæstv. ríkisstjórn, eins og hæstv. forsætisráðherra orðaði það í haust, en hún lét hæstv. velferðarráðherra og hæstv. menntamálaráðherra hafa verkefni hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, eins og þau hafi ekki nóg á sinni könnu.

Það er eitt sem ég vil koma inn á, ég hef verulegar áhyggjur af sveitarfélögunum. Við ræddum einmitt atvinnuleysið áðan og hvað væri að gerast í atvinnumálum og í því sambandi hef ég verulega miklar áhyggjur af stöðu sveitarfélaganna í landinu. Það liggur nú fyrir og er búið að samþykkja það í fjárlögunum að um 1,5 milljarðar færist yfir á sveitarfélögin vegna þeirra aðgerða að fella út þriggja mánaða greiðslur í Atvinnuleysistryggingasjóði, það þýðir 1,5 milljarða kostnað á sveitarfélögin. Það er líka mjög slæmt að þau úrræði sem sveitarfélögin hafa fyrir það fólk sem lendir í því að verða atvinnulaust eru langt frá því að vera eins góð og úrræðin hjá Vinnumálastofnun. Það er mjög slæmt að það fólk sem búið er að vera atvinnulaust lengi þurfi að fara úr þessum farvegi bara til að hægt sé að færa kostnaðinn yfir á sveitarfélögin, það er mjög slæmt. Ég hef líka áhyggjur af því vegna þess að staða sveitarfélaganna er þannig að þetta getur haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir mörg þeirra og mun hafa það.

Ég minni líka á að sveitarfélögin greiða fullt tryggingagjald þó að þau séu annað stjórnsýslustigið, eins og stundum er sagt, og hinn opinberi aðilinn þegar talað er um skuldir hins opinbera. Þá ætla menn að samræma og hagræða, sem er auðvitað ekkert vit, það er engin skynsemi í því ef allir eiga að fara í framkvæmdir á sama tíma að gera það með þessum hætti. Það eru þá fjármál hins opinbera gagnvart sveitarfélögunum og ég hef miklar áhyggjur af því vegna stöðu sveitarfélaganna plús það að búið er að skerða mjög framlag í jöfnunarsjóð og taka stóran hluta af því til að bjarga einu sveitarfélagi. Ég hef verulegar áhyggjur af því að menn horfist ekki í augu við vandann sem þar er fyrir hendi.

Mig langar aðeins að koma inn á mál sem ég ætla ekki að finna neinn sökudólg í nema þá alla hv. þingmenn, en það snertir breytingar á þingsköpum. Þingsköpunum var breytt á handahlaupum í haust, eins og við munum, og voru þar gerð ákveðin mistök að mínu mati sem snúa að því að tekjuhlið fjárlaganna er munaðarlaus hvað það varðar að í þingsköpunum á hv. fjárlaganefnd að gefa hv. efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um tekjuhlið fjárlaganna. Ég held reyndar að það séu nánast allir sammála því að það gangi ekki svona. Það er ekki vinnandi vegur að gera það með þessum hætti enda gaf hv. fjárlaganefnd ekkert álit á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins til hv. efnahags- og viðskiptanefndar vegna þess að vinnan og greiningin á þeirri vinnu fór fram í efnahags- og viðskiptanefnd. Menn koma sér ekki að því að breyta því en það er samt mjög mikilvægt að gera það vegna þess að þetta gengur ekki eins og það var við síðustu fjárlagagerð. Það er allt öðruvísi núna en við þær fyrri fjárlagagerðir sem ég hef tekið þátt í og hefur, að mér er sagt, verið vani í gegnum tíðina að efnahags- og viðskiptanefnd, áður efnahags- og skattanefnd, fari yfir tekjuhlið fjárlaganna og skili síðan fjárlaganefnd umsögn um hana vegna þess að ekki er hægt að vera með tekjuhliðina í einni nefnd og gjaldahliðina í annarri, þá getur maður ekki fylgst með framkvæmd fjárlaganna. Það er nokkuð sem við verðum að breyta sem fyrst til að við lendum ekki í þessari vitleysu áfram eins og verið hefur og við þurfum ekki að deila um með hvernig við gerum það, það vantar bara að einhver taki forustu í því máli og kippi þessu í liðinn til að við getum unnið með faglegum hætti.

Ég vil líka segja að það er mjög mikilvægt fyrir þá nefnd sem er að störfum núna um endurskoðun þingskapanna að fara mjög vel yfir hvernig og hvort mál skarast. Ég þekki best til hvernig mál skarast á milli efnahags- og viðskiptanefndar og hv. fjárlaganefndar. Í efnahags- og viðskiptanefnd eru mál sem varða fjárhagslegar skuldbindingar og fjárútlát ríkissjóðs. Þau voru ekki í hv. fjárlaganefnd. Það er nokkuð sem við verðum að fara í gegnum. Það er ekki pólitískt deilumál, það fjallar um að vinna hlutina þannig að eitthvert vit sé í þeim.

Virðulegi forseti. Ég ætla að enda á því að fara yfir það sem ég byrjaði á að tala um, hina eitruðu blöndu niðurskurðar og skattahækkana. Núverandi hæstv. ríkisstjórn hefur haft marga frasa í gegnum tíðina, alla vega eftir að ég kom inn á þing. Það eru búin til einhvers konar stikkorð sem er ekkert annað en lýðskrum og vitleysa að mínu mati og eitt þeirra orða er kynjuð fjárlagagerð eða kynjuð hagstjórn. Í þann málaflokk eru settir tugir milljóna, í embættismannakerfið, í aðalskrifstofur ráðuneytanna. Göfugt markmið, (JónG: Mikilvægt mál.) mjög mikilvægt mál. (Gripið fram í.) Síðan fara verkin að tala, hæstv. ríkisstjórn fer í niðurskurð á heilbrigðisstofnunum vítt og breitt um landið og alls staðar og nánast eingöngu er konum sagt upp. (PHB: Það er kynjuð hagstjórn.) Það er kynjuð hagstjórn. Það er frasi sem ekkert innihald er fyrir. Það getur verið að menn hafi þetta göfuga markmið að vinna hlutina með öðrum hætti inn í framtíðina, en á sama tíma og menn setja stórar upphæðir í mál eins og þessi til að hræra upp í aðalskrifstofum ráðuneytanna reka þeir konurnar út af sjúkrastofnununum. Það er í besta falli lýðskrum að tala um kynjaða hagstjórn.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að menn vandi vinnubrögðin því að raunkostnaðurinn lækkar kannski ekki neitt. Menn fara í niðurskurð eins og á sjúkrastofnununum og reka kannski einhverja tugi kvenna sem fara beint á atvinnuleysisbætur því að það eru engin störf í heilbrigðiskerfinu fyrir þetta fólk, því miður, alls staðar er verið að fækka. Konurnar eru reknar út af heilbrigðisstofnunum fara á atvinnuleysisbætur og um leið er gerð aðför að mörgum samfélögum, sem er algerlega óþolandi og ólíðandi. Þá er verið að senda ákveðin skilaboð inn í samfélagið. Við, hv. þingmenn og væntanlega hæstv. ráðherrar líka, höfum fengið póstsendingar frá íbúum víðs vegar af landinu með lýsingum á aðstæðum þeirra. Þar er í raun og veru verið að flytja fólkið hreppaflutningum. Það sparar engan kostnað, það sparar ekki neitt hjá ríkinu. Það er einungis verið að senda neikvæð skilaboð inn í samfélögin og fólki sagt að koma sér í burtu. Enn eina ferðina er farin sú leið að gera það þannig. Þegar skoðaður er sparnaðurinn af þessu í heild sinni fyrir ríkið er hann í raun enginn vegna þess að menn færa til kostnaðinn til á milli sjúkrastofnana eða frá viðkomandi stofnun yfir í sjúkratryggingar og þar fram eftir götunum. Þær eru síðan með innbyggðan halla eins og til dæmis á fjárlögum fyrir næsta ár. Vitað var og bent á það margsinnis í lok árs 2010 að það væri innbyggður halli í sjúkratryggingum upp á um 1,5 milljarða. Það var samt samþykkt og hver varð raunin? Raunin varð sú að innbyggður halli var tæplega 1,5 milljarðar í fjáraukalögunum.

Ég hvet hv. stjórnarliða til að skoða þetta. Það er mjög dapurlegt að þegar fólk er búið að koma sér fyrir úti í hinum dreifðu byggðum með fjölskyldu sína sé verið að flytja það hreppaflutningum, það er andstyggilegt að gera það. Þetta er akkúrat fólkið sem ruddi brautina fyrir okkur sem lifum í vellystingum alla vega miðað við þau kjör sem þetta fólk hefur búið við. Þetta eru skilaboðin, þetta er þakklætið, þetta eru breiðu bökin sem leitað er að.

Virðulegi forseti. Ég vona svo sannarlega að á árinu 2012 muni gerast eitthvað í þá veru að hér verði fjárfest, að hér verði sköpuð einhver atvinna. Ég held að tvennt þurfi að gerast: Annaðhvort verði skipt um ríkisstjórn, sem er að sjálfsögðu mikið betri kostur en sú kommúnistastjórn sem núna er, eða að ríkisstjórnin snúi af þeirri braut sem hún er á. Einstakir hv. þingmenn í Samfylkingunni hafa talað fyrir því að menn fari hægar í skattlagninguna og skattpíninguna, þeir hafa sett niður fótinn í einstaka málum, eins og til að mynda í kolefnisskattinum sem dreginn var til baka. En áður en þeir verða alveg örmagna við að berjast fyrir slíkum málum tel ég mjög mikilvægt að snúið verði við til að við getum gefið þjóðinni og íbúum þessa lands einhverja von og trú á framtíðina í staðinn fyrir að hér verði allt áfram í kyrrstöðu og stöðnun.