140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[16:52]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að svara hv. þingmanni því sem hann endaði á. Það er nefnilega það sem ég tel að við þurfum að breyta í umræðunum á þinginu alveg sama hvar við stöndum í flokki, við megum ekki alltaf trúa því alveg einlægt að við höfum alltaf rétt fyrir okkur. Við lendum því miður allt of oft í því að hugsa að okkar lausn sé sú eina rétta. Eins og hv. þingmaður bendir réttilega á og ég hef komið nokkrum sinnum inn á í mínum ræðum er nefnilega svo mikill mannauður í öllum flokkum á Alþingi, alveg sama hver það er, (Gripið fram í: Mismunandi.) alveg sama hver hann er. Það er mikill mannauður í öllum flokkum og stjórnmálahreyfingum. Við eigum að reyna að nýta hann saman. Mér finnst okkur hafa tekist það í hv. fjárlaganefnd, þar höfum við náð að vinna að hlutunum, þ.e. skilgreina þennan faglega þátt sem er okkar hlutverk, fylgjast með framkvæmd fjárlaga og öllu því sem við erum að vinna að og viljum taka úr pólitískum átökum. Það er gríðarlega mikilvægt að við gerum það.

Ég minni á orð hv. þm. Lilju Mósesdóttur þegar þingflokkur Sjálfstæðisflokksins kom með hugmynd sem átti rætur sínar að rekja til hv. þm. Péturs Blöndals um að skatta séreignarsparnaðinn. Að sögn hv. þm. Lilju Mósesdóttur sló hæstv. fjármálaráðherra hana út af borðinu, efnislega bara af því að hún kom annars staðar frá. Í mörgum sveitarstjórnum um allt land, það skiptir engu máli hvort vinstri menn eða hægri eru í forustu, vinnur sveitarstjórnarfólkið með kraftana og nýtir einmitt þann mannauð sem er í öllum stjórnmálahreyfingum.