140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:28]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég mundi gjarnan vilja hafa lengri tíma enda kom hv. þingmaður víða við. Hann talaði í ræðu sinni um að ríkisstjórnin seildist í vasa vondu kallanna. Við höfum haft það að meginmarkmiði í nálgun okkar við það vandamál sem við stöndum frammi fyrir í ríkisrekstrinum að sækja fjármunina þar sem þeir eru, en hlífa þeim sem í verstri stöðu eru. Það birtist til dæmis í nálgun okkar í tekjuskatti einstaklinga. Það birtist í nálgun okkar við úrbætur á almannatryggingakerfinu, örorkubótum og lífeyrissjóðakerfinu. Þannig nálgumst við verkefnið. Við segjum: Við skulum hlífa þeim sem eru í verstri stöðu. Við skulum reyna að sækja fjármunina, sem við þurfum að gera til að ná árangri í ríkisfjármálum, til þeirra sem eiga fjármuni, til þeirra sem eru aflögufærir, inn í sameiginlega sjóði, til þess að standa undir velferðarkerfinu, menntakerfinu, heilbrigðisstofnunum úti á landi og í Reykjavík. Ef við sækjum ekki fjármunina þurfum við að skera meira niður. Þann línudans höfum við reynt að stíga í því erfiða verkefni sem við stóðum frammi fyrir, þ.e. að ná tökum (Forseti hringir.) á ríkisfjármálunum.