140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[18:38]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held hér mína aðra ræðu um frumvarp um ráðstafanir í ríkisfjármálum. Í fyrri ræðu minni náði ég ekki að fara yfir öll þau atriði sem ég hefði viljað fara yfir, auk þess sem ég fjallaði ekki á neinn hátt um þær breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar hefur gert við frumvarpið.

Ef við víkjum fyrst að lækkun tryggingagjalds og hækkun almenna tryggingagjaldsins þá lækkar tryggingagjaldið samkvæmt frumvarpinu í heild að meðtöldu gjaldi í Ábyrgðarsjóð launa um 0,86%. Þar af lækkar atvinnutryggingagjaldið um 1,36%. Það er í takt við minnkandi atvinnuleysi sem spáð var í forsendu fjárlagafrumvarpsins í júlí. Almenna tryggingagjaldið hækkar hins vegar um 0,45%. Það stafar m.a. af hækkun framlags í Fæðingarorlofssjóð um 0,2% og almennri hækkun um 0,25% til að mæta auknum lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar ríkisins. Þá er áformað að hækka framlag til Ábyrgðarsjóðs launa um 0,05% tímabundið til að mæta þar uppsöfnuðum halla.

Þessar breytingar eru allar í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá því í maí í vor í tengslum við gerð kjarasamninga. Það sem vakti sérstaklega athygli mína í þessari talnasúpu allri er að ekki voru gerðar breytingar á frumvarpinu fyrir 2. umr. þrátt fyrir að Hagstofan spái nú meira atvinnuleysi árið 2012 en hún gerði í júlí. Þá var spáð 6% atvinnuleysi en núna í nóvemberspánni var spáð 6,4% atvinnuleysi, sem þýðir að þarna myndast væntanlega gat í atvinnuleysisbótasjóðum sem ekki virðist vera gert ráð fyrir í frumvarpinu. Í heild er áætlað að tekjur ríkissjóðs minnki um 6,5 milljarða á næsta ári vegna lækkunar tryggingagjalds.

Margar smávægilegar breytingar er vert að minnast á. Ein af þeim er hlutdeild Staðalráðs í tryggingagjaldi og vekur nokkra athygli hvernig staðið var að því. Í breytingartillögum meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar fyrir 2. umr. er hlutdeild Staðalráðs í tryggingagjaldi felld brott. Staðalráð hefur haft þennan tekjustofn frá 1996 þegar gert var sérstakt samkomulag milli ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðarins um málið. Nú er þessu hins vegar breytt fyrirvaralaust milli 1. og 2. umr. og án nokkurs samráðs við aðila samkomulagsins. Samkvæmt fjárlögum er framlag til ráðsins óbreytt að krónutölu milli ára.

Þá hafa verið gerðar nokkrar breytingar á tekjuviðmiðunarmörkum milli skattþrepa. Þannig var í upphaflega frumvarpinu lagt til að fjárhæðarmörk tekjuskattsstofns hækkuðu um 3,5% í stað þess að taka breytingum í upphafi árs í réttu hlutfalli við hækkun launavísitölu undanfarna 12 mánuði. Í október hafði launavísitalan hækkað um 8,9% á 12 mánuðum, líklega verður hækkunin rúm 9% núna í desember. Í þessari breytingu felst hækkun tekjuskatts einstaklinga sem fjármálaráðuneytið áætlar að nemi 400 millj. kr. miðað við 7% hækkun launavísitölunnar, en ef miðað er við 9% hækkun eins og gert er ráð fyrir að vísitalan muni hækka miðað við desembermánuð er skattahækkunin um 570 millj. kr. Meiri hluti nefndarinnar breytti þessum mörkum í tillögu sinni fyrir 2. umr. þannig að neðsta þrepið hækkaði um ríflega það sem áætlað er að launavísitalan muni hækka, eða um 9,84%, miðþrepið um 0,68% og efsta þrepið um 3,5% eins og áður.

Það er gleðilegt að í frumvarpinu skuli vera gerð tillaga um að afdráttarskattur aðila með takmarkaða skattskyldu á Íslandi skuli lækka úr 18–20% í 10%, jafnframt er þar yfirlýsing um að fyrirkomulaginu verði breytt til samræmis við það sem gerist í norrænum rétti og þá verði einkum horft til Danmerkur. Þetta er gleðilegt. Strax og afdráttarskatturinn var innleiddur bentum við sjálfstæðismenn á að fara ætti þessa leið og er því gleðilegt að menn hafi snúið frá villu síns vegar.

Auðlegðarskatturinn. Í frumvarpinu er áformað eða var áformað að framlengja gildistíma auðlegðarskattsins til ársins 2015, en í breytingartillögu meiri hlutans er lagt til að hann verði framlengdur um eitt ár í stað tveggja eins og var í upphaflegu frumvarpi. Jafnframt er tekið upp nýtt þrep sem er 2% af skattstofni yfir 150 millj. kr. hjá einstaklingum og 200 hjá hjónum. Það vekur nokkra athygli að hjón eru með 200 milljónir en einstaklingur 150. Hvatinn verður sá að tveir einstaklingar búa frekar saman en gifta sig því að þá fá þeir 300 millj. kr. frádrátt. Þetta gæti hugsanlega hvatt til hjónaskilnaða eins og það getur latt sambýlisfólk frá því að gifta sig til að geta nýtt sér þessa gloppu. Það er ekki alveg á hreinu af hverju hjón búa við lægra þrep en tveir einstaklingar.

Þá er sú breyting gerð á skattstofni auðlegðarskatts að hann er ekki lagður á í tvennu lagi. Sú breyting er gerð í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá því í maí, en þar segir að fjármálaráðherra muni leggja fyrir Alþingi á vorþingi tillögur um lagabreytingar. Það er gleðilegt að vorið sé komið hjá fjármálaráðherra og við sjáum nú þessar breytingar.

Álagning fjármagnstekjuskatts á fjármagnstekjur sem ekki ná að bera arð umfram verðbólgu er tvímælalaust eignaupptaka. Það varð einmitt reyndin þegar þýskir dómstólar fyrir þó nokkrum árum komust að raun um það í dómsmáli að eignarskattar fælu í sér eignaupptöku og væru þar af leiðandi brot á réttindum einstaklingsins sem tryggður var í þýsku stjórnarskránni sem er sambærileg þeirri íslensku að því leytinu til að hún segir að eignarréttur njóti friðhelgi.

Til að taka dæmi getum við gert ráð fyrir 5% verðbólgu eins og núna, þá háttar þannig til að allar fjármagnstekjur sem eru innan við 5% af stofni eru ígildi eignaupptöku. Auðlegðarskattur er í eðli sínu mjög hátt viðbótarskattþrep í fjármagnstekjuskatti. Ef við tökum t.d. 1 millj. kr. eign umfram 150 millj. kr. mörkin hjá einstaklingi sem ber 5% ávöxtun þá verður raunávöxtunin engin vegna þess að verðbólgan var 5%, eins og ég nefndi áðan, fjármagnstekjuskattur rýrir eignina um 1% og auðlegðarskattur um 2% þannig að eignin rýrnar samtals um 3%, hæstv. innanríkisráðherra. Auðlegðarskatturinn er í þessu tilfelli ígildi 40% fjármagnstekjuskatts. Til að nokkur raunávöxtun fáist á eignina þarf ávöxtun að nema 8,75%. Allt fyrir innan þá ávöxtun er eignaupptaka og þar af leiðandi er verið að skerða réttindi einstaklingsins sem kveðið er á um í stjórnarskrá að njóti friðhelgi eignarréttar. (Innanrrh.: Bitnar á lítilmagnanum.)

Stjórnarskráin er til þess að verja réttindi borgaranna, sama hvort þeir eiga peninga eða ekki, hæstv. innanríkisráðherra.

Hækkun auðlegðarskattsins og framlenging hvetur efnameiri einstaklinga til að flytjast búferlum eigi þeir þess kost og þannig víkja þeir sér undan skattinum. Þar með greiða þeir ekki heldur aðra skatta hér á landi. Þá er þessi eignarskattur þeim annmarka háður, eins og ekknaskatturinn var, að einstaklingar sem ekki eru með tekjur geta lent í erfiðleikum með að greiða skattinn.

Það má kannski virða það við efnahags- og viðskiptanefnd að fyrir 2. umr. var gerð sú breyting á skattinum að framlengja hann um eitt ár í stað tveggja, sem er vel.

Virðulegi forseti. Hvað er í gangi með klukkuna?

(Forseti (UBK): Þar sem hv. þingmaður er framsögumaður minni hluta nefndarálits hefur hann lengri tíma en aðrir hv. þingmenn. Þess vegna var bætt við tímann þar sem láðst hafði að gera það áður en hv. þingmaður steig í stól.)

Takk fyrir, virðulegur forseti, það kemur sér ágætlega.

Þá kemur að kolefnisgjaldi. Skoðum kolefnisgjald sem verður lagt á bensín eða réttara sagt fljótandi eldsneytisgjafa. Ef við tölum fyrst um kolefnisgjald sem hækkar bensín- og dísilverð þá er í greinargerð rætt um að verið sé að færa gjaldið úr 75% af verði losunarheimilda á Evrópumarkaði upp í 100%. Þegar lögin voru upphaflega sett árið 2009 var verðið 13 evrur á hvert tonn af koltvísýringi. Gjaldið var reiknað út frá því og var þá um það bil 50% af þessu reiknaða verði. Frá því lögin voru sett hefur hins vegar verð á losunarheimildum á markaði í Evrópu lækkað úr 13 evrum á tonnið í 10 evrur. Forsendurnar fyrir hækkuninni sem menn gefa sér, að farið sé úr 75% af gjaldinu í Evrópu í 100%, standast því ekki. Ef þetta verður að lögum má gera ráð fyrir að mengunargjald eða kolefnisgjald verði 30% hærra hér á landi en í Evrópusambandinu.

Þá víkur að kolefnisgjaldi á flugsamgöngur. Það er óeðlilegt að flugsamgöngur innan lands þurfi á árinu 2012 og framvegis bæði að greiða kolefnisgjald á eldsneyti og falla undir viðskiptakerfi Evrópusambandsins, hið svokallaða ETS-kerfi sem er viðskiptakerfi með mengunarkvóta á lofttegundir sem eru taldar leiða til gróðurhúsaáhrifa.

Samkvæmt lögunum (Gripið fram í: Já.) er kolefnisgjald nú lagt á allt fljótandi eldsneyti en ekki innheimt á millilandaflugi vegna þess að alþjóðasamningar heimila það ekki. Hins vegar er gjaldið greitt vegna innanlandsflugs þrátt fyrir að fjármálaráðuneytið hafi fallið frá innheimtu gjalds á millilandaflug. Ekki hefur verið lagt til að lögunum verði breytt til samræmis þannig að innanlands- og millilandaflug njóti sömu meðferða.

Í byrjun árs eða á næsta ári er ljóst að allar flugsamgöngur falla undir ETS-kerfið eða viðskiptakerfið með mengunarkvóta. Unnið hefur verið að undirbúningi þess. Þar sem þarf að koma upp skýrslu- og vottunarkerfum og öðru má búast við að töluverður kostnaður fylgi þessu fyrir fyrirtækin, auk þess sem þau þurfa að kaupa sér heimildir á markaði, til að mynda á uppboðum, enda verður ekki úthlutað endurgjaldslaust öllum heimildum sem félögin þurfa á að halda. Áætlað er að stærsta flugfélagið í innanlandsflugi þurfi að kaupa sér losunarheimildir fyrir í kringum 20 millj. kr. Þessar 20 milljónir fara beint út í verðlag á (Gripið fram í: Já.) farmiðum innan lands. Við vitum alveg hvaða afleiðingar það hefur fyrir innanlandsflug.

Íslenska ríkið mun fá sinn skerf af tekjum af sölu útstreymisheimilda af því íslenska ríkið eða Ísland er aðili að ETS-kerfinu. Búast má við því að hann geti orðið töluverður þegar fram í sækir, ekki síst ef við horfum til þess að hlutfallslega er Ísland með umfangsmikinn flugrekstur. Í þeim nýju reglum sem taka gildi á næsta ári er ekki gert upp á milli innanlandsflugs og millilandaflugs.

Það virðist vera skynsamlegt að breyta lögum um kolefnisgjald þannig að innheimta þess á flugvélaeldsneyti falli niður frá áramótum þegar ETS-kerfið gengur í gildi. Svo er þó ekki heldur verður það hækkað. Gert er ráð fyrir að áðurnefnt stærsta flugfélag í innanlandsflugi þurfi að greiða 50 milljónir í kolefnisgjöld á næsta ári. Þetta flugfélag mun því greiða 50 milljónir í kolefnisgjöld og 20 milljónir í mengunarkvóta; samtals mun kostnaður þess vegna mengunar verða 70 milljónir. Það mun fara beint í farmiðaverðið. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti hyggst gera hlé á þingfundi kl. 19 vegna fundar m.a. í efnahags- og viðskiptanefnd. Forseti biður hv. þingmann um að finna hentugan stað í ræðu sinni til að gera hlé og býður forseti hv. þingmanni að taka svo aftur til máls að loknu hléi.)

Virðulegi forseti. Það er mjög óþægilegt að slíta í sundur ræðu. Ég hef talað í rúmlega 20 mínútur og á eftir nokkrar setningar. Ég mun bara ljúka ræðu minni kl. 19 og panta í framhaldinu að fara aftur á mælendaskrá síðar í kvöld.

Eins og ég segi er umhverfisgildi þess að leggja á sérstakan kolefnisskatt á eldsneyti til innanlandsflugs áreiðanlega mjög lítið og tekjurnar sem ríkissjóður tapar á því að fella gjaldið niður óverulegar.

Það er óþarfi að taka fram eins og ég hef bent á að mengunargjöld upp á 70 millj. kr., sem eru bæði ETS-kvótinn og kolefnisgjaldið, munu leiða til þess að rekstrarstaða innanlandsflugs versnar mjög mikið. (Gripið fram í.) Eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson veit bitnar það fyrst og fremst á landsbyggðinni þegar verð á innanlandsflugi hækkar. (Gripið fram í.)