140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:21]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var þannig að skömmu eftir hrun komu fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til okkar og færðu okkur þær góðu fréttir að í þeim rúmlega 130 efnahagskrísum sem þeir hefðu fengist við í gegnum tíðina kæmust ríki aftur í vöxt eftir svona tvö ár að meðaltali. Það voru okkar væntingar og þess vegna fórum við í tveggja ára prógramm með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Við áttum að vera komin í vöxt á árinu 2010. Því miður þurfti að framlengja prógammið með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum um heilt ár vegna þess að tafir urðu á ýmsum þáttum áætlunarinnar.

Það sem hefur tafist hvað mest er vöntun á nýrri fjárfestingu. Ég hef talað fyrir því að ekkert eitt skipti okkur meira máli en að laða fram nýja fjárfestingu, hún skili okkur mestu í efnahagsbata þegar hún tekur við sér að nýju. Er það svo þegar heildarsparnaðarstaðan í landinu er tekin með í reikninginn að það sé ekki áhyggjuefni á hvaða grunni hagvöxturinn á líðandi ári er reistur? Ég held ég verði að vera ósammála hv. þingmanni um þetta vegna þess að það liggur fyrir að það eru ekki neinir smáaurar sem hafa verið teknir út úr séreignarsparnaðarkerfinu. Sama hver heildarstaða kerfisins er í dag samanborið við fyrra ár til dæmis þá verður ekki fram hjá því horft að á einu ári voru teknir út 25 milljarðar í séreignarsparnaði. Það drífur einkaneysluna áfram. Við hljótum að geta verið sammála um að það sem við viljum sjá drífa einkaneysluna áfram er ekki að fólk taki út sparnað, sama hvernig heildarstaða sparnaðar í landinu stendur, heldur að raunaukning launa sem standi á bak við það sé sjálfbær, að kaupmáttur sé að vaxa, að við séum að auka afköstin í atvinnustarfseminni í landinu, auka framleiðnina og auka verðmætasköpunina. Við þurfum á því að halda. (Forseti hringir.) Það mun skila okkur árangri til langs tíma.