140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[20:26]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er að sjálfsögðu skylda stjórnvalda hverju sinni að skila ríkissjóði í jafnvægi. Það þarf að vera raunhæft á hverjum tíma hvernig hægt er að ná fram því markmiði. Í ríkisstjórnartíð Sjálfstæðisflokksins fram til ársins 2009 var að jafnaði lögð gríðarlega mikil áhersla á að greiða jafnframt niður skuldir. Lág skuldastaða íslenska ríkisins var ein meginforsenda þess að við höfðum burði til að takast jafnmyndarlega á við þá kreppu sem hér hefur verið við að fást og raun ber vitni.

Varðandi úttekt á sparnaðinum þá held ég að ég hafi sagt allt sem ég þarf að segja um það. Það er einfaldlega þannig að úttekt á séreignarsparnaði ásamt með vaxtaendurgreiðslum til dæmis í Landsbankanum jafnhliða skuldaleiðréttingu og kauphækkunum í tengslum við kjarasamninga í vor, hefur allt lagst til við að auka tímabundið ráðstöfunartekjur heimilanna sem skila sér í aukinni einkaneyslu. Þannig er það. Það er meðal annars ástæðan fyrir því að enda þótt hagvöxtur hafi mælst þetta hár á þessu ári er ekki gert ráð fyrir að það verði áframhald á því á næsta ári, heldur eru hagvaxtarspár fyrir næsta ár algerlega óviðunandi.

Ég held að við séum reyndar þegar öllu er á botninn hvolft líka sammála um að við þurfum á fjárfestingu að halda. Það hefur verið markmið ríkisstjórnarinnar frá upphafi að stórauka hana. Það var markmiðið með stöðugleikasáttmálanum árið 2009 og hún hefði átt að vera hátt í 200 milljörðum meiri á líðandi ári en hún er.

Varðandi þær breytingar á frumvarpinu sem eru til lækkunar á gjöldum þá get ég að sjálfsögðu með glöðu geði sagt að ég tek þeim fagnandi, og öllu (Forseti hringir.) sem er til bóta. Ég er samt þeirrar skoðunar að það eigi ekki að hækka þessa skatta.