140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir jákvæð orð í garð þeirra breytinga sem við í meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar gerum á málinu milli umræðna þó að hv. þingmaður vilji í einhverjum efnum ganga lengra og hefur sín sjónarmið fyrir því.

Hv. þingmaður vék að því fyrirkomulagi að við afgreiddum fjárlög í síðustu viku en ráðstafanir í ríkisfjármálum í þessari viku, að það sé einkennilegt. Það þarf þó ekki að koma hv. þingmanni á óvart því að sá háttur hefur náttúrlega verið hafður á um ráðstafanir í ríkisfjármálum um langt árabil. Þau frumvörp koma ekki fram á hverju ári, þau koma aðeins fram þegar grípa þarf til mjög víðtækra aðgerða í ríkisfjármálum sem gerir að verkum að fjárlögum þarf að fylgja eftir með sérstökum bandormi sem kallaður er, sem tekur á ýmsum lagabreytingum sem leiða af miklum breytingum í ríkisfjármálunum.

Þetta var til dæmis gert í ríkisstjórnartíð Davíðs Oddssonar, árin 2000 og 2001, hygg ég, og bæði árin sá háttur hafður á að í einni vikunni voru fjárlögin afgreidd og í næstu viku á eftir ráðstafanir í ríkisfjármálum. Sömuleiðis stóðum ég og hv. þingmaður að sömu málsmeðferð, væntanlega á haustþinginu 2008, í framhaldi af hruninu þegar grípa þurfti til víðtækra ráðstafana. Með sama hætti hafa þessi mál verið tekin hin síðari tvö árin og það er auðvitað vegna þess að umræðan um ríkisfjármálin fer fram í fjárlagaumræðunni og þegar niðurstaða er fengin í hana er lokið við að afgreiða þær lagabreytingar sem af samþykkt fjárlaganna leiða. Þess vegna held ég að sá háttur sé ósköp eðlilegur, því að ef þetta mál væri afgreitt á undan færi fjárlagaumræðan í raun og veru meira og minna fram í umfjöllun um þessi mál en ekki í umfjöllun þar sem fjárlögin og ríkisfjármálin í heild sinni væru undir.

Ég tek síðan undir með hv. þingmanni að (Forseti hringir.) mikilvægt er að breytingartillögur okkar, eins víðtækar og þær eru, fái mikla umfjöllun. Sú umræða sem hefur verið í tvo daga, og verður kannski líka á morgun, um þær (Forseti hringir.) er auðvitað sannarlega góð yfirferð.