140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Birkir Jón Jónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka forseta fyrir þessa leiðréttingu því að ef ég hefði komið hingað upp undir andsvari hefði ég fengið tvær mínútur til að fjalla í síðari ræðu minni um svo umfangsmikið mál sem tekjuhlið fjárlagafrumvarps fyrir árið 2012 er. Við höfum rætt mikilvægi þess að vanda til vinnubragða þegar kemur að svo mikilvægu máli sem snertir hagsmuni heimilanna, fyrirtækjanna, ríkissjóðs og sveitarfélaganna í landinu. Þess vegna vil ég þakka fyrir að við höfum fengið ágætan tíma til að fara yfir raunverulegt innihald þess frumvarps sem við ræðum hér og jafnframt það sem betur má fara í vinnubrögðum þegar kemur að jafnmikilvægum málum og hér um ræðir.

Ég nefndi það í fyrri ræðu minni að það er mjög ankannalegt að vera að ræða tekjuhlið fjárlaga, og við erum í 2. umr., þegar búið er að ljúka allri umræðu um fjárlög og afgreiða þau mál sem lög frá Alþingi. Það er eitthvað sem við verðum að laga vegna þess að að sjálfsögðu á að ræða þessi mál helst hlið við hlið. Annars vegar er um að ræða tekjuhlið fjárlaganna og hins vegar útgjaldahliðina og þessir tveir hlutir eiga óhjákvæmilega mikla samleið í umræðunni, en vonandi getum við rætt það hér.

En það er kannski eðlilegt að við ræðum mikið um skattamál og stefnu ríkisstjórnarinnar í skattamálum sem við framsóknarmenn höfum verið mjög ósáttir við. Af hverju ræðum við svo mikið um það núna og deila um það? Það er vegna þess að svo lítið samráð hefur verið haft í skattamálum hér á landi og á það hefur ríkisstjórnin því miður ekki viljað hlusta, þar á meðal þær efnahagstillögur í skattamálum sem við framsóknarmenn höfum lagt fram allt frá vormánuðum ársins 2009. Árið 2009 kviknaði ljós og var ég mjög ánægður þegar hæstv. fjármálaráðherra boðaði aukið samráð um skattamál þjóðarinnar í framtíðinni. Boðað var til eins fundar sem ég mætti á, snemma vors ársins 2009. Þar mættu fulltrúar allra þingflokka og hagsmunaaðila í samfélaginu og var ákveðið að fara í mjög viðamikið samstarf um það hvernig við mundum haga skattstefnu íslensks þjóðfélags í framtíðinni. Voru miklar væntingar og vonir bundnar við það. Það var skömmu eftir hrun og ég taldi að menn væru viljugir til að vinna saman að málum sem skipta þjóðina miklu máli. Þessir fundir urðu ekki margir, ég held að þeir hafi orðið tveir, og nú eru tvö og hálft ár liðið síðan ríkisstjórnin ræddi við okkur á þeim vettvangi í stjórnarandstöðunni og einnig við Samtök atvinnulífsins, Alþýðusambandið, eldri borgara, öryrkja og fleiri mætti nefna. Það hefur ekkert samráð átt sér stað á þessum vettvangi í tvö og hálft ár, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson kom ágætlega inn á í ræðu sinni áðan.

Það er þess vegna eðlilegt að við reynum þá að nota þennan vettvang til að tala fyrir sjónarmiðum okkar og hugsjónum þegar kemur að svo mikilvægu máli sem skattbreytingar eru og stefnunni í þeim efnum fyrst okkur er ekki hleypt að borðinu þar sem stefnan er mótuð.

Það hefur verið óumdeilt í umræðunni, þegar við horfum til þess hvernig kjör einstakra þjóðfélagshópa munu þróast, að á næsta ári munu kjör aldraðra og öryrkja, þ.e. lífeyrisþega, hækka einungis um 3,5% á meðan verðlagsspár eru á milli 5–6%. Það er ágætt að fá það fram í þeirri umræðu að lífeyrisþegar í þessu landi munu verða fyrir tekjuskerðingu að raungildi á næsta ári verði þetta frumvarp að lögum. Við höfum spurt stjórnarliða að því hvort það sé í anda hinnar norrænu velferðarstefnu, hvort það sé í anda þeirra ályktana sem Samfylkingin hefur gert á landsfundi sínum eða þá Vinstri hreyfingin – grænt framboð. Ég held að forusta þessara tveggja flokka gangi ekki alveg í takt við grasrótina, þ.e. fólkið sem mótað hefur stefnuna á þessum fundum, vegna þess að þar segir akkúrat hið andstæða, að það eigi að verja þá sem lökust hafa kjörin en það sýnir sig ekki í því frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Það finnst mér að þurfi að koma fram og það þurfum við að ræða enda hefur enginn mótmælt því að kjör öryrkja og lífeyrisþega eigi einungis að hækka um 3,5% á næsta ári á meðan verðlagsvísitala verður mun hærri að öllum líkindum.

Það hefur líka komið fram í þessari umræðu að skattleggja á almennu lífeyrissjóðina í fyrsta sinn. Sérstakir eignarskattar verða lagðir á almennu sjóðina, en til að hafa það á hreinu eru kjör og réttindi þeirra sem eru undir almennu lífeyrissjóðunum mun lakari en hjá opinberum starfsmönnum. Ég er ekki að segja að lífeyrisgreiðslur allra opinberra starfsmanna séu með þeim hætti að einhver sómi sé að því, það eru margir á lágum bótum þar. Hins vegar er ríkistrygging á þeim sjóðum, sem sagt Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, en ekki á hinum almennu sjóðum og í kjölfar hrunsins varð því miður að skerða réttindi þess fólks í almennum lífeyrissjóðum.

Þessi ríkisstjórn hefur setið marga fundi með Samtökum atvinnulífsins og Alþýðusambandi Íslands þar sem útgangspunkturinn hefur verið sá að reyna að jafna muninn á milli þess að vera aðili að opinberum lífeyrissjóði eða hinum almennu vegna þess að þeir sem eru í almennu lífeyrissjóðunum hafa dregist aftur úr hvað réttindi og kjör varðar á undanförnum árum, einkum frá hruni.

Nú leggur ríkisstjórnin, sem setið hefur á fundum með aðilum vinnumarkaðarins, það til að almennu lífeyrissjóðirnir verði skattlagðir um 1,4 milljarða á ári næstu tvö árin. Það mun óhjákvæmilega leiða til þess að skerða verður réttindi þeirra félagsmanna sem eru í almennu lífeyrissjóðunum um þá upphæð. Hér er sem sagt verið að skerða kjör fólks á almenna markaðnum akkúrat á meðan ríkisstjórnin talar fyrir því að jafna eigi muninn á milli opinberra sjóða og almennra sjóða.

Maður veltir fyrir sér hvort hugur hafi í raun fylgt máli þegar ríkisstjórnin gaf það út í aðdraganda síðustu kjarasamninga að jafna ætti kjörin en ekki breikka bilið eins og verið er að gera hér. Maður veltir því líka fyrir sér hvaða sinnaskipti hafi orðið hjá stjórnarliðum þegar kemur að þessu máli, fyrir utan það að þeir ætla að tvískatta lífeyrissjóðina sem eru í raun og veru eign fólksins í landinu. Ég hef aldrei vitað til þess að nokkurri ríkisstjórn hafi dottið það í hug að setja sérstaka eignarskatta á lífeyrissjóði landsins en það eru greinilega runnir upp nýir tímar.

Mig langar að vitna í frétt Morgunblaðsins þriðjudaginn 13. desember síðastliðinn, máli mínu til stuðnings, þar sem fyrirsögnin er: „Skattlagning þvert á gefin loforð. Mótmæla helmingi lægri kjarabótum.“ Þar segir, með leyfi virðulegs forseta:

„Þetta er alveg þvert á þann anda sem menn voru að vinna að í samningunum og gengur þvert á yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um að jafna lífeyrisréttindin,“ segir Björn Snæbjörnsson, formaður Starfsgreinasambands Íslands, um fyrirhugaða skattlagningu á hreinni eign lífeyrissjóðanna, en framkvæmdastjórn sambandsins sendi frá sér ályktun um málið í gær undir yfirskriftinni „Stjórnvöld svíkja almennt launafólk.“ — Ég endurtek: „Stjórnvöld víkja almennt launafólk.“

Það eru stór orð frá forustumanni í verkalýðshreyfingunni. Framkvæmdastjóri Alþýðusambands Íslands hefur líka látið stór orð falla sem og fjölmörg önnur samtök launafólks. Eins hafa Samtök atvinnulífsins fylgt því eftir þannig að ríkisstjórnin virðist vera nokkuð einangruð þegar kemur að þess máli. Við höfum gagnrýnt þessa skattlagningu harðlega og það er nauðsynlegt að það það komi fram vegna þess að hér er verið að stíga mjög stórt og sögulegt skref í skattlagningu á almennu lífeyrissjóðunum. Þetta er í raun í fyrsta sinn sem nokkur ríkisstjórn hefur vogað sér inn á það svið og er það mögulega til eftirbreytni í framtíðinni. Ef menn halda áfram á þeirri braut er verulega vegið að lífeyrissjóðakerfinu í landinu og þá ekki að hinu opinbera kerfi heldur að hinu almenna sem ekki hefur ríkisábyrgð á bak við sig. Við erum í raun og veru að búa til tvo þjóðfélagshópa, þ.e. ellilífeyrisþega sem hafa tekjur úr opinberum lífeyrissjóði og lífeyrisþega sem eru á framfæri lífeyrissjóðs á hinum almenna markaði.

Nóg um það, en mér finnst mikilvægt að fram komi að þetta eru sögulegar breytingar sem munu hafa þau áhrif að kjör margra lífeyrisþega munu skerðast á nýju ári verði þetta að veruleika. Þetta kemur ofan á það að bætur almannatrygginga hækka einungis um 3,5% á næsta ári og munu þannig verða lægri en spáð er að verðlagsþróunin verði á næsta ári.

Ég ræddi um vinnubrögð og mikilvægi þess að við vöndum til verka og ég hældi formanni nefndarinnar og ágætum samverkamönnum mínum í efnahags- og viðskiptanefnd fyrir að við hefðum á þessu hausti fengið meiri tíma og getað farið betur í forsendur frumvarps um ráðstafanir í ríkisfjármálum þannig að betri bragur væri á því. Fyrri frumvörp hæstv. fjármálaráðherra síðustu tvö árin komu í þingið um mánaðamótin nóvember/desember og við fengum 10–12 daga til að afgreiða til að afgreiða mjög viðamiklar breytingar á skattkerfinu, en eins og fram hefur komið í umræðunni eru þær orðnar 142 frá því að hæstv. fjármálaráðherra, Steingrímur J. Sigfússon, tók við. Þessar breytingar á skattkerfinu hafa oft verið mjög vanhugsaðar og illa ígrundaðar og hefur það dregið úr löngun fjárfesta til að koma að íslensku atvinnulífi vegna þess að umhverfið er svo óstöðugt eins og fjöldi breytinganna ber vott um.

Mig langar að ræða áfram vinnubrögðin því að þegar afgreiða átti málið til 2. umr. síðastliðinn mánudag voru okkur í efnahags- og viðskiptanefnd kynntar breytingar meiri hlutans sem við áttum að samþykkja fyrir 2. umr. málsins. Þar var lætt inn máli sem heitir Breyting á lögum um stjórn fiskveiða, og er gríðarlega umfangsmikið mál sem snertir undirstöðuatvinnugrein landsins. Á öllum þeim fundum sem við höfðum haldið í haust var hvergi búið að fjalla um málið. Það hafði fallið einhvers staðar á milli skips og bryggju og hafði ekki fengið neina efnislega meðhöndlun í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins. Við fórum fram á að það mál yrði ekki tekið út á þessum fundi og höfðum svo sem ágæt rök með okkur í þeim efnum, þ.e. að við afgreiddum ekki breytingartillögur óséðar án þess að hafa rætt við hagsmunaaðila í sjávarútvegi, þá bæði starfsfólks og sjávarútvegsfyrirtækja til þess að við gætum áttað okkur á hvað þarna væri á ferðinni. Formaður nefndarinnar ákvað að taka málið út og senda til 2. umr.

Við höfum reynt að liðka fyrir þingstörfum og notað kvöldmatarhléið til að fjalla um þetta mál og sjá hvað þar er á ferðinni. Ljóst er að um stórkostlega breytingu er að ræða á grundvallaratriði er snertir sjávarútvegsstefnu okkar. Það er einfaldlega ekki hægt að bjóða okkur, atvinnugreininni eða hinum dreifðu byggðum upp á að við vinnum með þessum hætti. Komið hefur í ljós að það er stefna Steingríms J. Sigfússonar, hæstv. fjármálaráðherra, að ná í fjármuni sem legið hafa í svokölluðum AVS-sjóði, sem stendur fyrir aukið virði sjávarafurða og er undir hatti hæstv. sjávarútvegsráðherra. Það varðar svokallaðan skötuselskvóta eða leigu á honum. Um er að ræða upphæð upp á 190 millj. kr., að ég held, sem hæstv. fjármálaráðherra vill að fari úr sjávarútvegsráðuneytinu, sem er undir þessum sjóð, í ríkissjóð Steingríms J. Sigfússonar, og það á að gera með mjög skömmum fyrirvara.

Þessi skötuselskvóti og leigan á honum voru mjög umdeild á sínum tíma og hvað sem manni þótti um þá aðgerð var röksemdafærsla hæstv. ráðherra Jóns Bjarnasonar sú að þeir fjármunir sem kæmu af leigu á skötuselskvótanum ættu að renna til atvinnuuppbyggingar í sjávarbyggðum landsins, til nýsköpunarverkefna, og að horfa ætti sérstaklega til byggðarlaga sem glímt hafa við fækkandi störf í sjávarútvegi á umliðnum árum, eðlilega, m.a. út af hagræðingaraðgerðum og hvernig uppbyggingu kerfisins. Verja átti þó nokkrum peningum í að byggja upp nýsköpunar- og atvinnuverkefni í hinum dreifðu byggðum.

Nú á að reyna að klára þetta mál með þeim hætti að breyta eðli þess þannig að þeir fjármunir sem renna áttu til atvinnuuppbyggingar á landsbyggðinni eiga að fara ómerktir í ríkissjóð til Steingríms J. Sigfússonar. Ef það er ekki enn eitt dæmið um það vantraust sem hæstv. fjármálaráðherra sýnir hæstv. sjávarútvegsráðherra í störfum hans, þ.e. að ætla að taka það úr sjávarútvegsráðuneytinu og færa það yfir í fjármálaráðuneytið þá veit ég ekki hvað það er. Þetta er enn ein staðfestingin á því að hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra nýtur ekki trausts formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Að ætla að reyna að ná þessu máli í gegn með þessum hætti á örfáum mínútum, grundvallarmáli sem snertir undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, eru einfaldlega vinnubrögð sem mér finnast ekki sæmandi hér. Það er eitthvað sem við eigum eftir að ræða allverulega á milli 2. og 3. umr.

Eins og ég sagði áðan hefur stjórnarandstaðan reynt að liðka fyrir þingstörfum og við höfum rætt þessi mál í hliðarsölum þingsins á meðan á þessari umræðu stendur. Það verður því ekki sagt að við viljum ekki ná málum fram á þingi og reyna að halda þeirri áætlun sem upphaflega var gert ráð fyrir, en ef menn ætla að ráðast í einhverjar breytingar sem við höfum ekki sannfæringu fyrir að séu réttmætar og án þess að ræða við helstu hagsmunaaðila sem þessi mál snertir er það ekki gott mál. Hér er um að ræða mörg byggðarlög á landsbyggðinni, rekstrarumhverfi sjávarútvegsins og hvernig við ætlum að haga þessum málum til framtíðar. Það er einfaldlega ekki hægt að afgreiða slík mál á fimm mínútum. Við höfum líka rætt um auknar gjaldtökur, til dæmis varðandi kolefnisskattinn og álögur á fljótandi bensín sem mundu meðal annars bitna harkalega á innanlandsflugi í landinu.

Þegar við flettum samgönguáætlun kom fram merkileg frétt um að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að hækka lendingargjöld, sem bitna mun mjög harkalega á innanlandsfluginu. Ef það bitnar ekki á rekstri innanlandsflugsins fer það væntanlega út í fargjöldin sem eru þó mjög há fyrir. Ég tek fréttina upp úr Morgunblaðinu þar sem ég gleymdi samgönguáætluninni á öðrum stað í húsinu, en þar stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Stefnt er að hækkun lendingargjalda og farþegagjalda á Reykjavíkurflugvelli til jafns við gjöld á Keflavíkurflugvelli. Þetta á að leiða til 250 milljóna kr. árlegrar tekjuaukningar að því er fram kemur í samgönguáætlun til næstu fjögurra ára sem innanríkisráðherra kynnti í dag.“

Síðar kemur fram í sömu frétt:

„Er við það miðað að hækkunin komi til framkvæmda í tveimur jafnstórum áföngum á árunum 2012 og 2013.“

Mér finnst að við þurfum að setja þetta í samhengi við auknar álögur og aukna skatta sem innanlandsflugið þarf að bera, verði frumvarpið að veruleika. Ég tel að við þurfum að leggja allar þessar breytur saman og kanna hvort við kippum grundvellinum undan innanlandsflugi í landinu, alla vega á sumum stöðum, ef þessi stefnumörkun fer fram óbreytt. Það verður að ræða betur vegna þess að innanlandsflugið er okkur mjög mikilvægt og skiptir landsbyggðina miklu máli og ekki síður höfuðborgarsvæðið. Mig minnir að tölur hafi sýnt að um 1.000 manns á suðvesturhorni landsins hafi lifibrauð sitt af því sem tengist Vatnsmýrinni og flugvellinum þar.

Ég vil að lokum segja að það frumvarp sem við ræðum hér er ekki norrænt velferðarfrumvarp. Frumvarpið mun því miður áfram auka álögur á heimilin og fyrirtækin í landinu, ekki með jafnstórkostlegum hætti og síðustu tvö frumvörp sem við höfum rætt sem tengjast tekjuhlið fjárlaga. Ég tek þó sérstaklega fram að með þessum málflutningi er ég ekki að halda því fram að við getum snúið lífskjörum þjóðarinnar aftur til ársins 2007, að við getum sagt hókus pókus og allir hafi það eins og á hápunkti velmegunarinnar og eins ríkisfyrirtækin, að allar ríkisstofnanir geti haft það eins og þegar ástandið var hvað best. Þó að það hafi verið sýndarveruleiki teljum við framsóknarmenn of hart fram gengið í álögum á heimili og fyrirtæki með því að hækka gjöld og skatta.

Eitt lítið dæmi: Það á að hækka álögur á bensín að ég held um 3,5 kr. og ef virðisaukaskatti er bætt ofan á það eru það orðnar rúmar 4 kr. Það er svo sem ekki stórkostlegt en verðið á dísilolíu í dag er rúmar 240 kr., á bensíni um 227 kr. og það enn dýrara í hinum dreifðu byggðum. Þar er bensínið dýrara en á suðvesturhorni landsins og í stærstu þéttbýliskjörnum. Ef við horfum á þróunina bara á þessu ári hefur verð á dísilolíu hækkað um 13% og verð á bensíni um 7% og 4 kr. ofan á þessa þróun leiðir það af sér að það sligar mörg fyrirtæki og heimili, ekki hvað síst í hinum dreifðu byggðum landsins. Einhvern tíma hljótum við að koma að þeim skurðpunkti að nóg sé að gert hvað varðar hækkanir á gjöldum.

Við framsóknarmenn teljum líka að ómarkvissar aðgerðir í skattamálum hafi leitt það af sér að fjárfesting í atvinnulífinu sé mun minni en hún gæti verið í dag. Það þarf markvissar aðgerðir þar sem við hvetjum til fjárfestingar og erum með mjög skýr skilaboð um að öll fjárfesting sé velkomin hér á landi, það mun skila sér í stórauknum fjölda starfa. Í því sambandi getum við talað um orkuiðnað. Við eigum orkuauðlindir, fallvötn sem falla til sjávar á hverjum einasta degi. Þar eru ónýtt tækifæri sem við gætum fyrir nokkru síðan verið byrjuð að nýta en rammaáætlunin er ekki einu sinni komin fram í þinginu og óvíst er hvenær hún verður afgreidd.

Við horfum líka til undirstöðuatvinnugreinar landsbyggðarinnar og landsins alls, sjávarútvegsins sem glímt hefur við óþolandi óvissu á undangengnum tveimur árum þar sem hringlandaháttur í breytingum á starfsumhverfi sjávarútvegsins hefur verið þannig að forsvarsmenn sjávarútvegsfyrirtækja hafa haldið aftur af sér varðandi fjárfestingar í skipum, húsnæði og tækjum. Auknar fjárfestingar á því sviði hefðu leitt það af sér að tugir milljarða hefðu verið fjárfestir í þessari undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar og þá hefðu margar aðrar atvinnugreinar fengið fjölmörg tækifæri til að vinna með útgerðinni að uppbyggingu sjávarútvegsins hér á landi. En þar hefur allt verið í frosti á undanförnum rúmum tveimur árum. Það er þróun sem við getum ekki búið við. Henni verðum við að breyta. Við getum ekki horft upp á fólksflóttann áfram. Á síðustu þremur árum hefur okkur Íslendingum fækkað um 6.000 manns sem flutt hafa lögheimili sitt úr landi. Hundruð eða þúsundir Íslendinga fara til Noregs í stórum stíl, vinna þar í einn, tvo eða þrjá mánuði, koma síðan heim til Íslands og eru hér í einhvern tíma og það gerir fólk ekki að gamni sínu. Heimilisfaðirinn eða móðirin getur einfaldlega ekki framfleytt fjölskyldu sinni vegna þess að hér er annaðhvort ekki atvinnu að fá eða kjörin eru einfaldlega miklu betri annars staðar. Eins og ég sagði hafa um 6 þúsund manns farið úr landi, um 13 þúsund manns eru án atvinnu, hundruð manna hafa farið í frekara nám, sem er fagnaðarefni út af fyrir sig. Þær tölur segja okkur að við höfum tapað yfir 20 þúsund störfum á undangengnum þremur árum. Auðvitað hefðum við mátt vænta þess að tapa einhverju í kjölfar hrunsins, ég er ekki að segja það, en við ættum nú að hafa náð miklu betri viðspyrnu en raunin er í dag.

Fjárfesting í íslensku samfélagi er 13% í dag, hún hefur verið að meðaltali 21% síðustu áratugi. Það vantar 8 prósentustig upp á að það sé meðaltalsfjárfesting á Íslandi í dag sem skapar varanlegan hagvöxt. Ef við reiknum með að landsframleiðslan sé ríflega 1.800 milljarðar þýða 8 prósentustig 140 milljarða vöntun á fjárfestingu í samfélagi okkar miðað við meðalár. Af þessum 140 milljörðum hefði ríkissjóður fengið tekjuskatt og virðisaukaskatt, sveitarfélögin hefðu fengið útsvar, heimilin hefðu fengið hærri tekjur og fyrirtækin líka. Það segir okkur að við værum þar af leiðandi í allt öðrum málum í dag. Við þyrftum ekki að standa í þessum blóðuga niðurskurði hringinn í kringum landið á mjög viðkvæmum stofnunum eins og heilbrigðisstofnanirnar eru. Við þyrftum kannski ekki að hafa tryggingagjaldið á atvinnulífið eins hátt og raunin er í dag. Það jákvæða er að það lækkar þó aðeins með þessu frumvarpi og við getum verið mjög ánægð með að það horfir þó til framfara þar.

En heildarniðurstaðan er sú að við framsóknarmenn höfum verið ósammála því hvernig þessi ríkisstjórn hefur rekið atvinnu- og efnahagsstefnu sína. Við höfum talað fyrir því að ekki þurfi að ganga eins hart fram í niðurskurði á velferðarkerfinu, það þurfi ekki að hækka skatta og álögur á heimili og fyrirtæki í landinu svona mikið vegna þess að þriðja leiðin er til sem er aukin atvinnu- og verðmætasköpun í landinu og leiðir það af sér að atvinnulausum fækkar. Við erum að borga yfir 20 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur í dag. Ég hef tekið eftir því að stjórnarliðar hafa komið upp og sagt að á seinni tímum hafi ekki nokkur ríkisstjórn eytt eins háum fjármunum sem hlutfalli af landsframleiðslu í velferð og þessi ríkisstjórn, en þá er velferð skilgreind þannig og ég átta mig alveg á því, að við greiðum atvinnuleysisbætur. Ég mæli ekki gegn því. En 20 og eitthvað milljarðar voru settir í Atvinnuleysistryggingasjóð sem framlög til velferðarmála.

Segjum sem svo að atvinnuleysi færi úr 7% upp í 15% og menn þyrftu að setja 40 milljarða í Atvinnuleysistryggingasjóð. Þá værum við að tala um stórkostlegustu velferðarstjórn sögunnar, sú er nálgunin. Við megum ekki nálgast hlutina með þeim hætti. Við þurfum að fara að snúa þessari þróun við. Þar höfum við framsóknarmenn vissulega lagt fram róttækar hugmyndir þegar kemur að efnahagsmálum, skuldamálum heimila og fyrirtækja, og við höfum lagt fram mjög ítarlegar hugmyndir í atvinnumálum þjóðarinnar. Stundum þarf hugrekki til að takast á við erfið mál. Við vissum það þegar við lögðum fram flata leiðréttingu eða leiðréttingu á stökkbreyttum höfuðstól skuldugra heimila á sínum tíma að það mál yrði trúlega slegið út af borðinu og það var því miður gert þá. Ég held að flestir séu komnir á þá skoðun í dag að það hefði verið skynsamlegt að fara í almennar leiðréttingar á stökkbreyttum höfuðstól skuldugra heimila og jafnvel fyrirtækja vegna þess að við vorum í stakk búin til þess þá vegna þess að við höfðum eignarhald á bönkunum áður en skilið var á milli gömlu og nýju bankanna, þá höfðum við tækifæri til þess.

Formaður Framsóknarflokksins hefur komið fram með hugmyndir um að auka greiðsluvilja fólks, að fólk fái tímabundinn skattfslátt gegn því að greiða af þessum stökkbreyttu lánum. Sú hugmynd er allra góðra gjalda verð, ég vona að hún verði skoðuð í efnahags- og viðskiptanefnd þingsins því að við þurfum að þora að hugsa nýjar hugmyndir þegar kemur að erfiðum málum. Það er það sem við í Framsóknarflokknum höfum lagt áherslu á og munum gera áfram, en ef þessari stefnu verður haldið hef ég ekki trú á því að við byggjum upp varanlegan hagvöxt til lengri tíma litið vegna þess að stöðug aukning á einkaneyslu án þess að fjárfesting, sem er nú í sögulegu lágmarki, eigi sér stað í atvinnulífinu er í raun ekki sjálfbært kerfi heldur lántaka inn í framtíðina.

Ég vonast til þess að það fari að verða breytingar á stjórnarstefnunni varðandi efnahags- og atvinnumálin. Það eru þau mál sem brenna á þjóðinni í dag, það eru þau mál sem við þurfum að taka og setja á oddinn og fara að ná einhverjum árangri. Síðustu tæp þrjú ár hafa mörg tækifæri farið forgörðum og því verðum við að breyta. Við verðum að fara að snúa vörn í sókn.