140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Honum hefur verið treyst af sínum flokki til að vera formaður fjárlaganefndar og jafnframt er hann núna í efnahags- og viðskiptanefnd í umboði síns flokks og þekkir því þessa málavexti alla.

Ég ætla að spyrja hv. þingmann um hvað þessi umræða snúist eiginlega. Getur Alþingi breytt einhverjum upphæðum í tekjuhluta fjárlaganna þegar búið er að samþykkja fjárlög? Mér finnst eins og við séum að hreyfa okkur í spennitreyju. Við getum breytt fjársýsluskattinum úr því að vera skattur á laun bankastarfsmanna, minnkað það hlutfall og aukið í staðinn skatta á hagnað bankastofnana, þ.e. við getum eiginlega bara breytt innan þess ramma sem fjárlögin gefa. Ég spyr hv. þingmann sem hefur setið í báðum þessum nefndum, fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, efnahags- og skattanefnd þar áður, hvernig hann sjái að við getum leyst þetta. Mér finnst dálítið skrýtið að ræða þessi mál núna eftir að fjárlögin hafa verið samþykkt. Hefði ekki verið eðlilegra að þetta mættist allt í einum punkti, tekjuhliðin, gjaldahliðin, niðurskurðurinn og skattahækkanir hjá þessari ríkisstjórn? Hjá öðrum ríkisstjórnum yrði væntanlega ekki skattahækkun. Þetta gæti mæst í einum punkti og svo þegar menn hafa farið í gegnum alla umræðuna um skattahliðina, niðurskurðarhliðina og gjaldahliðina yrðu fjárlögin samþykkt.