140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Nú man ég ekki alveg hvað stjórnarskráin segir en ég held að það megi ekki koma með fjáraukalög það sem eftir lifir árs. Það má ekki koma með nýtt fjárlagafrumvarp eftir að búið er að samþykkja þau fjárlög sem liggja fyrir. Til dæmis kemur í ljós núna að menn eru að auka mismunun í lífeyriskerfinu og það kemur alltaf betur og betur í ljós eftir því sem menn hugsa það betur og fara betur í gegnum það, a.m.k. í mínum huga, að þessi frumvörp sem við erum að samþykkja hérna auka mismunun í lífeyriskerfinu. Þetta er ekki hægt að laga, herra forseti, það er ekki hægt að laga þetta vegna þess að við erum búin að samþykkja fjárlög.

Það sem ég vildi spyrja hv. þm. Birki Jón Jónsson um varðar nýju þingsköpin. Það er greinilegt að það þarf að breyta þeim. Er þá ekki rétt að setja í þingsköp að efnahags- og viðskiptanefnd fjalli um tekjuhlið fjárlaga, fjárlaganefnd fjalli um gjaldahliðina og síðan komi þetta allt saman inn í fjárlaganefnd þegar búið er að ræða þetta kannski í tvennum umræðum og tekjuhliðina jafnvel þrisvar og þá fyrst yrðu fjárlögin samþykkt? Þetta sé ég fyrir mér því að ég held að menn hafi gert einhver mistök í þingsköpum Alþingis þegar þau voru sett. Kannski er það ekki óeðlilegt við nýja lagasetningu en þá þarf að vinda bráðan bug að því að laga það og ég held að hv. þingmaður hefði ýmislegt fram að færa í þeim efnum.