140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[21:53]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta efh.- og viðskn. (Lilja Mósesdóttir) (U):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér tekjuöflunarfrumvarp hæstv. fjármálaráðherra og í því sambandi er mikilvægt að rifja upp tilganginn með skattheimtu. Í fyrsta lagi er tekjuöflunartilgangur. Það þarf að afla tekna til að fjármagna þjónustu, það sem við köllum grunnvelferðarþjónustu sem annars væri ekki í boði vegna þess að hún er einfaldlega of dýr til þess að einstaklingar bjóði hana fram. Slík þjónusta er jafnvel of dýr þegar búið er að setja hana upp til þess að einhverjir eða margir aðilar hafi efni á því að borga fyrir hana. Það er talið réttlætanlegt að ríkið afli tekna til að fjármagna þessa grunnvelferðarþjónustu, annars væri hún ekki í boði fyrir þegnana. Í þessu tilfelli er hægt að vísa til heilbrigðisþjónustunnar sem er of dýr til að alfarið sé hægt að leggja hana á herðar einstaklingum og treysta á að þeir finni leiðir til að koma henni af stað og bjóða á því verði sem fólk getur greitt fyrir hana.

Hinn tilgangurinn með skattlagningu er tekjujöfnunarhlutverkið. Það er misjafnt, eins og fram hefur komið í umræðunni, hversu mikla áherslu stjórnmálaflokkar leggja á það hlutverk skattheimtunnar. Vinstri flokkarnir hafa tilhneigingu til að leggja áherslu á að skattkerfið sé nýtt til þess að jafna milli þeirra sem fá há laun og hinna sem fá lág laun fyrir vinnu sína. Við vitum að það getur verið þannig í markaðshagkerfi að fólk fær laun sem ekki duga fyrir framfærslu og þá er litið svo á að hægt sé að nota skattkerfið til að bæta við þessi laun þannig að fólk komist að minnsta kosti upp að lágmarksframfærsluupphæðinni.

Síðan eru auðvitað aðrir sem halda því fram að það eigi ekki að ýta undir láglaunastörf þannig að fólk geti ekki lifað af þeim. Því beri að tryggja, m.a. með skattheimtu, að slík störf verði ekki til og skattleggja slíka starfsemi út af markaði. Þetta er talið hafa verið gert að einhverju leyti í Þýskalandi þar sem áhersla hefur verið lögð á að tryggja sköpun fyrirvinnulauna en í því landi er áherslan á að sköpuð séu hálaunastörf sem fleiri en einn geta notað til að tryggja framfærslu sína. Stjórnvöld hafa markvisst ýtt undir nýsköpunarstarfsemi og rannsókna- og þróunarstarfsemi til að tryggja slíka atvinnusköpun sem gefur af sér mjög há laun.

Hér á landi hefur oft skapast sú staða að laun hafa ekki dugað til framfærslu og það hefur gerst á tímum þegar hagkerfið hefur orðið fyrir miklu áfalli. Það gerðist 2008 og við bankahrunið hvarf um fjórðungur skatttekna ríkissjóðs og það þurfti að bregðast við því til að koma í veg fyrir að vaxtakostnaður ríkissjóðs vegna hallareksturs mundi sliga komandi kynslóðir. Þegar núverandi ríkisstjórn tók við völdum í upphafi árs 2009 var því lofað að þessum halla yrði náð niður þannig að staðinn yrði vörður um grunnvelferðarþjónustuna og farin nokkurs konar blönduð leið við að ná hallanum niður. Annars vegar yrðu lagðir á hærri skattar og hins vegar skorið niður, þá fyrst og fremst á öðrum sviðum en í velferðarþjónustunni.

Þegar maður lítur á þær tekju- og aðhaldsaðgerðir sem hafa verið innleiddar á árunum 2009, 2010 og 2011 nema þær um 90 milljörðum, en niðurskurðurinn á þessum þremur árum er um 116 milljarðar. Það hefur sem sagt meira verið skorið niður en sem nemur viðbótartekjum.

Þessi mikli niðurskurður, þessir 116 milljarðar, hefur þýtt að við höfum þurft að sjá á bak velferðarþjónustu sem margir telja að sé lífsnauðsynleg þróuðu norrænu velferðarkerfi. Sem dæmi má nefna að á næsta ári þarf Landspítalinn að takast á við niðurskurð sem nemur 440 milljónum, niðurskurð sem mun þýða það að spítalinn neyðist til að leggja niður deildir og þar með skerða þjónustu við sjúklinga. Þetta er niðurskurður sem ég er mjög ósátt við og tel að hafi verið ónauðsynlegt að samþykkja í síðustu viku þegar við samþykktum fjárlög fyrir 2012. Ég tel að við hefðum átt að leita annarra leiða og ná í skattstofna sem ríkissjóður á og hefur í raun bara frestað að nýta sér. Þar er ég að vísa til skatttekna sem liggja inni í lífeyrissjóðunum.

Lífeyrissjóðirnir hér á landi eru með því stærsta sem gerist í heiminum, stærð þeirra núna er um 140% af stærð hagkerfisins og það má velta fyrir sér hvort þeir séu ekki fyrir löngu búnir að ná þeirri stærð sem þetta hagkerfi þolir. Það er áhugavert að lesa í efnahagsstefnu Sjálfstæðisflokksins sem var lögð fram sem þingsályktunartillaga í haust tilvitnun í skýrslu sem OECD birti. Í henni kemur fram, með leyfi forseta, að skattbyrði er mest á Íslandi þegar tillit hefur verið tekið til fyrirkomulags lífeyrismála.

Þegar maður sér þetta fer maður að velta fyrir sér hvort ekki sé mikilvægt á krepputímum eins og við búum við í dag að létta skattbyrðina. Það hefur reyndar verið málflutningur þingmanna Sjálfstæðisflokksins að skattbyrðin sé orðin of mikil og það megi alls ekki auka hana meira og eigi jafnvel að láta allar skattahækkanir núverandi ríkisstjórnar ganga til baka. En ég velti fyrir mér hvort við eigum ekki að nota þá niðurstöðu OECD að skattbyrðin sé mest hér, ef við tökum tillit til fyrirkomulags lífeyrismála eða þess að launafólk hér á landi borgar hluta af sínum launum inn í lífeyrissjóði, og gera tillögu um að draga úr þessum iðgjaldagreiðslum inn í lífeyrissjóðina.

Það verða örugglega margir hissa á þessari tillögu vegna þess að hér á landi hefur verið lögð afskaplega mikil áhersla á það að við þurfum að byggja upp stóra lífeyrissjóði til að ráða við öldrun þjóðarinnar, það að þjóðin verður eldri og að færri og færri einstaklingar greiði skatt til ríkisins og síðan iðgjaldagreiðslur inn í lífeyrissjóðina. En lífeyrissjóðir eru ekki bara til þess að auðvelda þjóðum að takast á við sífellt eldri þjóð, þeir eru líka leið til að ávaxta fé og geyma lífeyri þess fólks sem núna er á vinnumarkaði til þess tíma þegar það þarf að yfirgefa vinnumarkaðinn og lifa á öðrum tekjum en launatekjum sínum eða uppsöfnuðum sparnaði sem lífeyrissparnaður er í raun og veru.

Þá má ekki gleyma því að lífeyrissjóðir geta bæði tapast og rýrnað. Þeir rýrna ef ávöxtunin er ekki nægjanleg. Lífeyrissjóðirnir þurfa að fjárfesta og þessar fjárfestingar geta tapast, sérstaklega þegar efnahagslífið verður fyrir áfalli eins og við upplifðum hér á árinu 2008. Þess vegna er varasamt að vera með mjög stóra lífeyrissjóði. Þegar lífeyrissjóðirnir eru orðnir 140% af stærð hagkerfisins eiga þeir orðið erfitt með að finna arðbær fjárfestingartækifæri og hvatinn til þess að taka áhættu eykst vegna þess að þeir hafa skuldbundið sig til þess að ná ákveðinni raunávöxtun, sem er í dag um 3,5%, og henni ná þessir sjóðir ekki nema að fjárfesta í áhættusamri starfsemi. Það var einmitt það sem gerðist hér fyrir hrun, lífeyrissjóðirnir voru farnir að fjárfesta í of áhættusamri fjárfestingu sem síðan tapaðist í hruninu.

Hagfræðingar tala því um mikilvægi þess að hafa rétt jafnvægi milli sjóðsmyndunarkerfisins annars vegar og gegnumstreymiskerfisins hins vegar. Gegnumstreymiskerfið er ekki slæmt og það er jafn vel til þess fallið að takast á við öldrun þjóðarinnar og sjóðsmyndunarkerfið ef það er hægt að tryggja að raunlaun, þ.e. laun umfram verðbólgu, hækki með tímanum. Það þýðir þá að skatttekjur ríkissjóðs hækka nógu mikið til að ríkið þurfi ekki að hækka skatta á komandi kynslóðir til að fjármagna aukinn fjölda fólks sem þarf á lífeyri að halda.

Það að draga úr iðgjaldagreiðslum væri ein leið til þess að draga úr skattbyrði fólks, tvímælalaust leið sem við ættum að íhuga. Ég tek undir með Sjálfstæðisflokknum þegar hann talar um að skattbyrðin sé orðin of þung á fólkinu í landinu. (BJJ: Og framsóknarmönnum.) Og framsóknarmönnum, rétt, eins og hv. þm. Birkir Jón Jónsson nefnir. Ég hef áhyggjur af því þegar ríkisstjórnin er farin að grípa til ráða sem voru notuð hér fyrir hrun, þ.e. að hækka persónuafsláttinn minna en sem nemur verðbólgu. Persónuafslátturinn á næsta ári á að hækka um 5,8%, en það eru allar líkur á að verðbólgan verði meiri á þessu ári þannig að um verði að ræða rýrnun á persónuafslætti. Þetta var ein leið fyrrverandi stjórnvalda til að þyngja skattbyrðina og hafði jafnframt þau neikvæðu áhrif að þyngja verulega skattbyrði þeirra sem voru í lægri tekjuhópunum.

Núverandi ríkisstjórn er jafnframt að þyngja skattbyrði allra þeirra sem eru með tekjur yfir 280 þúsund á mánuði með því að láta fjárhæðarmörkin við hvert og eitt skattþrep hækka um aðeins 3,5% í stað þess að þau hækki um 8% eins og stendur í lögunum að þau eigi að gera. Með öðrum orðum er ríkisstjórnin í raun og veru að þyngja skattbyrðina með því að hækka þessi fjárhæðarmörk minna en lofað er í lögunum þannig að lægri tekjur þarf til þess að fara upp í næsta skattþrep þar sem er hærri skattprósenta.

Þetta tel ég mjög slæma þróun þegar verið er að villa skattgreiðendum sýn á það hvort skattar aukist á næsta ári, minnki eða standi í stað með því að rýra raungildi fjárhæðarmarka og persónuafsláttarins. Ég tel mikilvægt að staðið sé við ákvæði í lögum sem kveða á um að persónuafsláttur skuli hækka í samræmi við verðbólgu og fjárhæðarmörk þrepanna hækki í samræmi við launavísitölu. Síðustu tvö árin hefur kannski að vissu leyti verið réttlætanlegt að hækka bæði persónuafsláttinn og fjárhæðarmörkin ekki alveg í samræmi við verðbólgu og launavísitölu vegna þess að við vorum að kljást við mjög stóran halla á ríkissjóði og samdrátt í efnahagslífinu. Á þessu ári eða því næsta verður hallinn ekki nema um 21 milljarður og Hagstofan er búin að spá 3,7% hagvexti þannig að það er engin réttlæting fyrir því að tryggja ekki að skattbyrðin verði í versta falli óbreytt.

Hér hefur mikið verið rætt um það, herra forseti, að það þurfi að gera allt til þess að örva fjárfestingu. Margir hafa áhyggjur af því að skattpíning eða aukin skattbyrði dragi úr fjárfestingum en því er þannig farið að skattlagning hefur fyrst og fremst áhuga á hvar fyrirtækin staðsetja sig en ekki hvort fyrirtæki sem eru búin að staðsetja sig á landinu fari út í fjárfestingar sem slíkar. Það sem ég tel skipta mestu máli varðandi það að koma fjárfestingunni af stað er að við tryggjum hér áfram neikvæða raunvexti og að Seðlabanki Íslands fari ekki inn í sitt fræga vaxtahækkunarferli um leið og við afnemum gengishöftin. Seðlabankinn hækkaði vexti fyrr í haust. Ég var mjög ósátt við þá hækkun vegna þess að verðbólgan sem Seðlabankinn notaði til að réttlæta hærri stýrivexti var fyrst og fremst innflutt, m.a. frá Bretlandi sem er búið að setja peningaprentunarvélarnar á fulla verð til að rýra skuldirnar sem eru að sliga bæði fyrirtæki og einstaklinga. Verðbólga í Bretlandi er um 5% og vextir þar nálgast 0% þannig að þar eru neikvæðir raunvextir. Ég hef verið ósátt við það markmið Seðlabankans að halda verðbólgunni niðri með stýrivaxtahækkunum. Ég tel að það markmið að ná fram stöðugleika í verðlagi sé allt of þröngt. Seðlabankinn þarf að skoða aðra mælikvarða og hafa önnur markmið, t.d. að tryggja hér fulla atvinnu. Þess má geta að seðlabankar í Bandaríkjunum — þeir eru margir, það er einn seðlabanki fyrir hvert og eitt fylki, og þeir eru sjálfstæðir og setja sér sína eigin peningastefnu — eru með að minnsta kosti tvö markmið, annað er verðstöðugleiki og hitt er full atvinna. Mér finnst orðið tímabært að Seðlabanki Íslands (Gripið fram í.) fari að víkka út markmiðið með peningastefnunni og hafi ekki síður áhyggjur af atvinnustiginu. Eins og við öll vitum eru um 11 þúsund manns án atvinnu hér á landi og 6 þúsund hafa flúið land. Síðan hefur stór fjöldi fólks sem kominn er á aldur, þ.e. orðið meira en 67 ára, hætt við 67 ára aldur í stað þess að halda áfram að vinna til sjötugs, m.a. til þess að hleypa yngra fólki að eða bara vegna þess að því hefur verið sagt upp vegna skorts á verkefnum.

Ég tel að fjöldi atvinnulausra væri mun meiri ef við hefðum haft evruna. Eins og við vitum öll er það þannig að þegar maður er með sameiginlegan gjaldmiðil getur maður ekki lækkað verðgildi hans um leið og illa árar hjá manni sjálfum. Þar af leiðandi þurfa öll efnahagsáföll að koma fram í atvinnustiginu fyrst og fremst. Fyrirtæki fá ekki auknar tekjur eins og gerðist hjá okkur þegar gengi krónunnar féll hérna um 80%. Þá jukust tekjur útflutningsfyrirtækja gífurlega og þau reyndu að framleiða meira eða koma meira magni á útflutningsmarkaði okkar. Að vísu eru takmarkanir fyrir því hversu mikið sjávarútvegurinn getur aukið framleiðslu sína en aðrar greinar hafa svigrúm til þess og útflutningsframleiðslan jókst á þessu ári. Það þýðir þá að í útflutningsgreinunum skapast fleiri störf og þar er líka hægt að greiða hærri laun. Við fengum nýlega upplýsingar um að laun úti á landi hafa hækkað mun meira en á höfuðborgarsvæðinu sem skýrist meðal annars af góðu gengi útflutningsfyrirtækja eftir gengishrun krónunnar. Ef við hefðum verið í myntbandalaginu og með evruna hefði verið afar erfitt fyrir íslenskt efnahagslíf að tryggja sama fjölda af störfum eftir hrun eins og fyrir hrun. Fyrirtæki hefðu farið í gjaldþrot, ekki bara þau sem framleiða fyrir innanlandsmarkað, eins og gerðist hérna, heldur líka mörg útflutningsfyrirtæki sem væru ekki nógu samkeppnishæf erlendis og þau hefðu þurft að segja upp fólki.

Þegar fólk er að tala um að það sé betra að hafa sameiginlega mynt með öðrum Evrópuþjóðum má ekki gleyma því að íslenskt efnahagslíf er mjög sveiflukennt. Öll áföll sem verða hér hafa verið á öðrum tímum en almennt innan myntbandalagsins þannig að við hefðum ekki séð evruna veikjast þegar hér hefði orðið samdráttur heldur hefðu þvert á móti verið meiri líkur á því að hún hefði styrkst og við því átt erfiðara með að mæta þessu efnahagsáfalli öðruvísi en með auknu atvinnuleysi.

Herra forseti. Það sem þarf að gera núna, m.a. í gegnum skattkerfið, er tvennt. Í fyrsta lagi þarf að færa til baka á einhvern hátt þá miklu eignatilfærslu sem hefur átt sér stað eftir hrun og núverandi ríkisstjórn hefur lagt á auðlegðarskatt sem er einn liður í því að færa að minnsta kosti til skattgreiðenda það fjármagn sem skattgreiðendur tryggðu við fall bankanna á innstæðum og í peningamarkaðssjóðum. Þess vegna fagna ég því að það eigi að framlengja þennan auðlegðarskatt í eitt ár og tel reyndar að það sé ekki nóg að gert til að tryggja að bæði skattgreiðendur og skuldsett heimili fái til baka eitthvað af þeirri miklu eignatilfærslu sem átt hefur sér stað frá hruni. Eina leiðin til þess að þessir tveir hópar, og þá sérstaklega skuldsett heimili, búi við réttlæti í kjölfar hrunsins er að fram fari almenn leiðrétting lána. Því miður er ekki hægt að gera þessa almennu leiðréttingu lána með einu pennastriki eins og hefði verið hægt að gera hér allt árið 2009. Ef ríkisstjórnin hefði bara hlustað á Framsókn hefði hún gert það. Það þarf því að fara aðra leið en að nota pennann og strika út hluta af skuldum heimilanna. Það verður að fara leið sem fer fram hjá eignarréttinum sem meðal annars kröfuhafar hafa fengið í gegnum eignarhald sitt á nýju bönkunum.

Eina leiðin sem ég sé til þess að fara fram hjá þessum eignarrétti á nafnvirði skulda er einfaldlega að skipta um gjaldmiðil og í leiðinni nota sömu aðferð og Þjóðverjar gerðu og skipta eignum og skuldum yfir í nýja gjaldmiðilinn á mismunandi gengi.

Áður en tímanum lýkur vil ég árétta breytingartillögu sem við hv. þm. Atli Gíslason lögðum fram. Hún felur það í sér að fjárhæðarmörkin verði (Forseti hringir.) hækkuð í samræmi við launavísitölu. Þetta ætti ekki að fara út fyrir ramma fjárlaga þar sem við líka gerum tillögu um (Forseti hringir.) fjórða skattþrepið til að fjármagna þessa hækkun.