140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[22:37]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst hv. þm. Lilja Mósesdóttir alla jafna vera málefnaleg og leggja margt gott til málanna. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég skil ekki alveg hvað hv. þingmaður er að fara þegar hún talar um lífeyrissjóðsmálin. Almenna reglan er sú að gegnumstreymissjóðir sem hún talar fyrir hafa leitt af sér gríðarlegan vanda. Þetta er bara mjög einfalt, það sem gerist meðal annars þegar velmegun eykst er að barneignum fækkar. Þetta þekkja allir sem eitthvað hafa skoðað málin og eru þekkt vísindi. Þekktasta dæmið er kannski gamla Evrópa sem svo er kölluð þar sem barneignum fækkar mjög. Þar er gegnumstreymiskerfi sem í rauninni er eins og snjóhengja sem menn vita ekki hvernig þeir eiga að taka við. Þar verða svo fáir til að halda uppi bæði þeim sem eldri eru og líka þeim yngri því að maður heldur jú uppi fleiri börnum en manns eigin í gegnum skattana.

Ég skil þess vegna ekki alveg af hverju hv. þingmaður talar fyrir gegnumstreymiskerfi af því að það felur í sér gríðarlegan vanda, nema frjáls sparnaður sé þeim mun meiri hjá fólki og það vantar svolítið upp á það hjá okkur Íslendingum að minnsta kosti að ástunda frjálsan sparnað, hann er varla til staðar. (Gripið fram í.) Það væri gott að fá rökin fyrir gegnumstreymiskerfi því að ég veit ekki til þess að nokkurs staðar sé talað fyrir slíkum kerfum.

Af því að hv. þingmaður er mikill aðdáandi eignarskattsins, sem er eins og eignarnámsskattur, auðlindaskattur, finnst henni þá ekki eðlilegt að sú eign sem er fyrir utan aðrar og er gríðarlega mikil, lífeyrisréttindin, sé reiknuð inn í skattinn? Að ekki aðeins þeir sem höfðu ekki tækifæri til að taka þátt í lífeyrissjóðakerfinu og eiga lífeyrissjóð fyrir utan það greiði skattinn heldur líka þeir sem eiga þessi gríðarlegu lífeyrissjóðsréttindi, sem eru um 2 þúsund milljarðar í það heila?