140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:11]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að fara í andsvar við hv. þingmann því að í andsvari eru menn náttúrlega ósammála viðkomandi en það vantar svolítið upp á það hjá okkur í þessari umræðu.

Ég man eftir því sem gerðist árið 1997. Ég hygg að menn hafi þá verið að leiðrétta það sem þeir töldu vera ranglæti en gengu þannig fram að þeir bjuggu til annað. Lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna voru almennt reiknuð af grunnlaunum og eimir eftir af því hjá sumum. Grunnlaun voru mjög lág og voru afar fáir opinberir starfsmenn ef nokkrir á grunnlaunum. Í ýmsum opinberum stéttum voru launin byggð upp á vaktaálagi, fastri yfirvinnu og öðru slíku sem ekki voru reiknuð eða borguð lífeyrisiðgjöld af. Ég hygg að það hafi verið réttlætismál þegar menn reyndu að leiðrétta þetta en þeir reiknuðu dæmið ekki til enda og áttuðu sig því ekki á að þarna kom ný skekkja sem varð þá á kostnað fólks í almennu lífeyrissjóðunum.

Við erum ekkert að jafna þennan mismun núna, við erum að auka mismuninn með eignarskattinum sem átti að vera tímabundinn í tvö ár eða hvað það nú var og er verið að framlengja og mun verða um ómunatíð ef þessi vinstri stjórn verður við völd. Það liggur alveg fyrir, maður heyrir það á tóninum hjá hv. þingmönnum vinstri stjórnarinnar að þeir hafa engan áhuga á að hætta við þetta. Með því að taka ekki lífeyrisréttindin með er bara verið að mismuna fólki og leggja enn meiri áherslu á mismuninn þó að við getum sagt að það sé annar flötur á þessu máli.

Síðan er stóra vandamálið, hvar lífeyrissjóðirnir geta fjárfest í núverandi umhverfi, (Forseti hringir.) og ýmislegt annað sem væri áhugavert að ræða en ég næ ekki í þessu tveggja mínútna andsvari.