140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Það munar svona korteri eða tíu mínútum á því að ég sé að ræða á sama tíma og í gærkvöldi þannig að þetta fer kannski að verða ágætisregla, en þá var ég orðinn eitthvað þreyttur í lokin svo ég gleymdi kannski aðalatriðinu með lífeyrissjóðina. Þess vegna ákvað ég að koma aftur og ætla að fara betur ofan í það.

Þannig er mál með vexti að lífeyrissjóðakerfið á Íslandi er í rauninni þrískipt. Það er B-deild LSR, Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins, sem veitir mjög góð lífeyrisréttindi, reyndar eiga ekki allir mjög góð réttindi en ef menn eiga réttindi þar í einhverjum mæli er lífeyririnn mjög góður, og iðgjaldið þyrfti að vera mjög hátt, sennilega um 30% af launum eða eitthvað slíkt fyrir þá sem borga þar enn þá inn. Þetta er fyrsta vers, það er búið að loka þessari deild, B-deildinni, og þar inni eru 5 eða 6 þúsund manns sem greiða enn þá.

Þá er það A-deild LSR sem átti að vera sjálfbær. Hin er ekki sjálfbær, frú forseti, vegna þess að þar inni eru ógreiddar skuldbindingar upp á — ég áttaði mig ekki alveg á ársreikningunum en mér sýndist það vera um 350 milljarðar sem eru ógreitt inn í þá deild að mestu leyti frá ríkinu sem ábyrgðaraðila og launagreiðanda. Ég vil minna á að þessir 350 milljarðar eru af svipaðri stærðargráðu og Icesave, svo ég kom því að, en sá er reginmunur á að B-deildin er skuldbinding innan lands í íslenskum krónum en hitt var í erlendri mynt og sem betur fer ekki samþykkt, þ.e. þjóðin felldi það.

Svo eru almennu lífeyrissjóðirnir sem stofnaðir voru upp úr samningunum 1969 og settir í lög 1974 og 1980 en lögin um lífeyrissjóðina tóku gildi miklu seinna. Í fjölda ára, 15–20 ár, voru lífeyrissjóðirnir bara með skyldu til að greiða inn en engin ákvæði um hvernig bókhaldi, eftirliti, fjárfestingarstefnu eða neinu slíku væri háttað. Þetta var svo sett í lög og lög sett um starfsemi lífeyrissjóða. Almennu sjóðirnir eru núna með 12% iðgjald þ.e. atvinnurekendur greiða 8% og sjóðfélagar 4%. Þetta eru hin almennu réttindi. Á móti þessu er A-deildin í LSR, sem veitir svipaðan lífeyri, en þar er iðgjaldið núna 15,5%, þ.e. 11,5% frá atvinnurekanda og 4% frá launþegum, og svo B-deildin eins og ég sagði með hreinni ríkisábyrgð.

Nú vill svo til að í sérlögum um LSR stendur, með leyfi frú forseta, þ.e. 4. mgr. 13. gr.:

„Launagreiðendur greiða að lágmarki 8% af launum þeim er sjóðfélagar taka hjá þeim, samanber. 1. mgr. þessarar greinar, í iðgjald til A-deildar sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga.“ — Sem eru 4%. Og svo segir áfram: „Leiði tryggingafræðileg athugun í ljós að iðgjald sjóðfélaga til sjóðsins ásamt mótframlagi atvinnurekenda dugi ekki til greiðslu á skuldbindingum sjóðsins skal stjórn sjóðsins hækka framlag launagreiðenda í samræmi við niðurstöðu athugunarinnar.“

Ég get ekki séð, frú forseti, að neitt geti komið í veg fyrir það að stjórnin eigi að hækka þarna, að um leið og eitthvað vantar upp á eigi hún að hækka iðgjaldið sem ríkisvaldið, þ.e. ríkið, og einstaka sveitarfélög og aðrir aðilar borga inn í sjóðinn og það sé engin undankomuleið. Þetta eru sérlög og þau gilda framar almennum lögum um lífeyrissjóði. Ég hef ekki skilið hvernig stjórn sjóðsins hefur komist hjá því undanfarin ár og áratug að hækka þetta iðgjald og væri gaman að fá skýringu á því einhvern tíma í betra tómi frá hæstv. fjármálaráðherra sem skipar fjóra af átta mönnum í stjórn. Þarna hefur hlaðist upp skuldbinding upp á 47,7 milljarða á síðasta ári (Gripið fram í: Það er rétt rúmlega Icesave.) Nei, það er ekki Icesave heldur bara vextirnir af Icesave. Ég nefndi það áðan, áður en hv. þingmaður gekk í salinn, að B-deildin væri með skuldbindingu sem væri að stærðargráðu í átt við Icesave. Samt er búið að borga þar inn af ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, sem ríkti hér í 18 ár og á víst sök á öllu, hún réð víst öllu ein, 150 milljarða þannig að hún er búin að borga töluvert mikið inn í B-deildina. Það hefur ekkert verið greitt eftir að núverandi ríkisstjórn tók við. Og það sem meira er, ef þetta iðgjald yrði hækkað, sem þarf að hækka, upp í 19,5% í staðinn fyrir 15,5 þýddi það 4% af launum allra ríkisstarfsmanna sem ríkið yrði að borga og það eru um 4 milljarðar. Þetta vantar inn í fjárlagafrumvarpið sem við vorum að samþykkja um daginn. Þetta er enn einn bitinn sem vantar þar inn. Það er verið að safna skuldbindingum til framtíðar í lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna. Þetta minnir dálítið á Grikkland, það er verið að gleyma meðvitað ákveðnum hlutum. (Gripið fram í: Gríska bókhaldið.) Gríska bókhaldið, já. Mér þykir miður, og þess vegna nefndi ég í dag þegar hér var sagt í ræðu — mig minnir að það hafi verið hv. þm. Birkir Jón Jónsson — að það vantaði 20 milljarða í fjárlagafrumvarpið og þá bætti ég við 10–20 milljörðum í viðbót við það, (Gripið fram í: Hvað er það þá miklu meira?) og svo hingað og þangað smásporslur, 4 milljarðar hér o.s.frv. Þetta er ekki mjög björgulegt og mér finnst að menn eigi að horfast í augu við þær skuldbindingar sem eru og færa þær. (Gripið fram í: Að sjálfsögðu.)

Nú gerist það að í því frumvarpi sem við ræðum núna er verið að leggja álögur á lífeyrissjóðina og hvað skyldi þá gerast með þær álögur sem eru lagðar á alla lífeyrissjóði? Það er reyndar dálítið furðulegt hvað gerist með B-deildina, því að hver er eignin? Er þessi ógreidda skuldbinding talin með? Á að borga iðgjald af henni? En það skiptir í rauninni engu, peningurinn fer út og inn hjá ríkissjóði af þeim peningum. Það gerist nefnilega að B-deildin borgar í rauninni ekki það gjald því að þar er ófærð skuldbinding ríkissjóðs sem bara hækkar og ríkissjóður borgar það einhvern tíma í framtíðinni eða börnin okkar og barnabörn.

Í A-deildinni hafa menn hins vegar ekki horfst í augu við vandann þannig að þessar álögur á lífeyrissjóðina, á A-deildina, gera ekkert annað en auka þörf á hærra iðgjaldi sem stjórnin á að taka ákvörðun um að hækka á ríkissjóð. (Gripið fram í: Það er ekki gert.) Það er ekki gert, nei. Þessar álögur á lífeyrissjóðina almennt hækka skuldbindingu ríkisins.

Hvað gerist hjá almennu sjóðunum með þetta gjald og allar þessar álögur? Þar stendur ekkert nema eignin á bak við réttindin. Flestir sjóðirnir eru í slæmri stöðu eftir hrunið og eru á bráðabirgðaákvæðum um að þurfa ekki að lækka, þeir þyrftu að skerða lífeyri nú þegar. Þessar álögur þýða ekkert annað en að lífeyrir verður lækkaður hjá verkamönnum, sjómönnum, iðnaðarmönnum og verslunarmönnum. (BJJ: Í boði norrænu velferðarstjórnarinnar.) Já, svo ég segi það nú ekki. Ég ætla að vera dálítið tillitssamur svona seint á kvöldi, ég ætla ekki að vera að meiða hæstv. ríkisstjórn, nógu margir eru búnir að gera það í dag.

Þetta leiðir hugann að ýmsum öðrum gjöldum sem lífeyrissjóðirnir greiða. Ég nefni gjald til FME út af eftirliti, bráðnauðsynlegt. Það er bráðnauðsynlegt að eftirlit sé með þessum sjóðum þó að eftirlitið hafi ekki dugað langt í hruninu því að þeir töpuðu ómældu fé þrátt fyrir eftirlitið. En hvað gerist með lífeyrissjóðina með þetta gjald til FME? Opinberu sjóðirnir greiða það ekki neitt. Þeir velta því yfir á ríkissjóð, annaðhvort nú þegar með hækkun á iðgjaldi sem ég nefndi í A-deildinni eða þá að börnin okkar og barnabörn greiða það einhvern tíma í framtíðinni. Almennu sjóðirnir munu þurfa að skerða meira af þeim sökum.

Svo er gjald til umboðsmanns skuldara, líka mjög gott mál. Þar er verið að hjálpa fólki við að verða ekki gjaldþrota því að allir tapa á gjaldþrotum, líka kröfuhafar. Það er gott fyrir lífeyrissjóðina. En hver skyldi borga það? Aftur eingöngu almennu sjóðirnir. Það eru sjóðfélagar almennu sjóðanna, verkamennirnir, verslunarmennirnir og iðnaðarmennirnir sem borga þetta en opinberir starfsmenn borga það ekki. (Gripið fram í: Allt í boði norrænu velferðarstjórnarinnar.) Allt í boði jafnréttissinnaðrar norrænnar velferðarstjórnar, það er jafnrétti milli þegnanna.

Svo er hér framlag í VIRK Starfendurhæfingarsjóð, mjög gott mál því að það sparar virkilega fyrir lífeyrissjóðina, líka hjá opinberu sjóðunum en þeir borga það aldrei með nákvæmlega sömu rökum. Það eru skattgreiðendur sem borga fyrir opinberu sjóðina og það þýðir að almennu sjóðirnir, sjóðfélagar þar, borga þetta tvöfalt. Þeir borga það annars vegar með skerðingu á lífeyrisréttindum sínum og hins vegar með sköttum.

Síðan er greiðsla sem átti að fara í vaxtabæturnar sem eru í þessu frumvarpi. Það lendir bara á almennu sjóðunum. (Gripið fram í.) Fjársýsluskatturinn var sem betur fer sleginn af í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, þar sáu menn þó aumur á þessu misrétti og sögðu að fjársýsluskatturinn ætti ekki að lenda á lífeyrissjóðunum.

Frú forseti. Eins og þetta er í kerfinu í dag með þá furðulegu stöðu að opinberu sjóðirnir hafa pikkföst réttindi, og það breytir engu hvort þeir ná góðri ávöxtun eða slæmri, það breytir engu hvort lagðir eru á skattar eða ekki, það lendir allt á ríkinu og ríkið tekur það frá almenningi. Vegna þessarar stöðu held ég að við verðum að fara að hugleiða það að allar álögur á lífeyrissjóðina verði teknar í gegnum skattkerfið. Í staðinn fyrir að leggja þær á lífeyrissjóðina verði þær teknar í gegnum skattkerfið þannig að allir greiði jafnt. En það er sem sagt að koma í ljós núna að þessar álögur koma svona út.

Ég ætla að vona að ég sitji ekki aftur inni með of lítinn tíma en þetta var um álögur á lífeyrissjóði. Ég er kominn að þeirri niðurstöðu að það megi í rauninni ekki leggja krónu á lífeyrissjóðina vegna þess að það eykur misrétti á milli almennu sjóðanna og opinberu sjóðanna. Ef við berum saman A-deildina og almennu sjóðina er nauðsynlegt iðgjald í A-deildina sennilega 19,5% á móti 12% hjá almennu sjóðunum sem segir að þetta eru hlutföllin á milli verðmæta réttindanna. Opinberir starfsmenn eru með 60% verðmætari réttindi í A-deildinni svo ég tali nú ekki um ósköpin í B-deildinni, ég ætla ekki að minnast á það, ekki ógrátandi. Þessi munur vex með þessu frumvarpi og með öllu því sem ríkisstjórnin er að gera. Allt er þetta gott. Það er gott að Fjármálaeftirlitið hafi eftirlit með sjóðunum, það er gott að umboðsmaður skuldara starfi, það er gott að VIRK vinni og vaxtabæturnar eru góðar líka í vissum skilningi. Allt eru þetta góð málefni en það leiðinlega við þessa gæsku er að það eru bara verkamenn, iðnaðarmenn og verslunarmenn sem borga þetta en ekki opinberir starfsmenn.

Ég held að ég hafi nú lokið við að koma þessum punkti nokkurn veginn til skila. Þá ætla ég að snúa mér að minni þáttum. Ég gleðst að sjálfsögðu yfir því að tryggingargjald skuli lækkað um 0,91% því að það er ekkert annað en skattur á atvinnu og þá gæti verið að einhverjum dytti í hug að fara að skapa atvinnu í landinu en álögurnar eru enn mjög miklar og miklu víðar en hérna. Það eru sérstaklega álögur á fjármagn, fjármagnseigendur, ljótur þjóðflokkur, en þeir hétu einu sinni sparifjáreigendur. Það er fólk sem neitar sér um að fara í ferðalög, neitar sér um að kaupa bíla og neitar sér um að búa í stórri íbúð. Það var einu sinni dyggð en þykir núna ljótt og er kallað fjármagnseigendur, af því að þeir neita sér um þessa hluti. Norræna velferðarstjórnin hvetur alla til að eyða og bruðla með öllu sínu skattabrölti.

Svo má ég til með að nefna skatta sem mér þykir alltaf dálítið sárt um. Það eru svokallaðir nefskattar. Nefskattar hafa þann eiginleika að það borga allir þá skatta. (Gripið fram í: Eru það tóbaksskattar, neftóbak?) Já, ég ætla ekkert að ræða um það. Ég ætla að ræða um nefskatta sem allir greiða óháð tekjum og það er útvarpsgjaldið fræga og skattur í Framkvæmdasjóð aldraðra. Þetta eru ófélagslegustu skattar sem til eru vegna þess að hátekjumanninn munar ekkert um að borga 18.800 kr. sem er nýja gjaldið, það hefur hækkað um 900 kr., en lágtekjumanninn munar heilmikið um þetta og á bágt með að borga þetta. Lífeyrisþegar og aðrir eiga bágt með að borga þetta þannig að þetta eru mjög ófélagslegir skattar. Þess vegna er ég á móti þeim, ég er sennilega svo félagslega sinnaður. Það er að koma betur og betur í ljós að ef núverandi ríkisstjórn heldur áfram miklu lengur verð ég mjög félagslega sinnaður og sífellt meira eftir því sem hún starfar lengur.

Svo er það gjaldið í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er sömuleiðis því marki brennt að það á að vera 9.182 kr., en það voru einhver mistök gerð á fyrsta árinu þannig að nú er tveggja ára skammtur í hækkuninni. Það hefur því hækkað mjög myndarlega. Einhver kann að segja: 9 þús. kall, hvað er það? Það er ekki neitt, neitt. Hátekjumanninn með 800.000 kr. á mánuði munar ekkert um þetta en lágtekjumanninn í umönnunarstörfum með 200.000 kr. sem eru raunverulega til, frú forseti, það eru til slík laun, munar mikið um þessar 9 þús. kr. eða 9.182, ég ætla nú ekki að gleyma 182 kr. Þetta eru mjög ófélagslegir skattar og ég mundi leggja til að menn tækju sér tak, sérstaklega þegar menn nefna sig velferðarstjórn, og aflegðu þessa skatta. (BJJ: Er þetta jafnaðarstefna?) Þetta er jafnaðarstefna já, en þetta eru svo sem gamlir skattar og menn tóku þetta í arf en þeir ættu að taka sér tak núna og breyta þessu, hækka tryggingagjaldið eða hækka tekjuskattinn eitthvað pínulítið og afleggja þessa skatta. Svo er náttúrlega kapítuli út af fyrir sig gjaldið til RÚV. Ég horfi eiginlega aldrei á sjónvarp en samt er mér gert að borga þetta tvöfalt af því að ég er með lítið hlutafélag og af því að hlutafélagið horfir svo mikið á sjónvarp — ég hef reyndar aldrei staðið hlutafélagið að því — en það þarf að borga gjald til sjónvarpsins. Það hlustar ekki einu sinni á útvarp, þetta hlutafélag, það er enginn starfsmaður í því. En ég borga þetta gjald tvöfalt.