140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:32]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum heyrt af mikilli framkvæmdagleði hjá ríkisstjórn Íslands, að minnsta kosti í orði. Við höfum heyrt ríkisstjórnina státa sig af framkvæmdum, meðal annars sé verið að stækka og breyta álverinu í Straumsvík, Ísal sé að stækka, og það sé 60–70 milljarða kr. framkvæmd. Á það hefur hins vegar verið bent að þeir aurar fara líklega allir úr landi því verktakinn er austurrískur. Það eru einhverjir launaskattar og slíkt sem verða eftir á Íslandi.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti frætt okkur um hvort ríkisstjórnin sé með þessa upphæð, 60–70 milljarða, sem væntanlega fer að mestu leyti úr landi og er líklega eðlilegt ef um er að ræða útboð, inni í áætlunum sínum. Ég hef áhyggjur af því vegna þess að við höfum séð að áætlanir ríkisstjórnarinnar hafa ekki staðist hingað til. Ég ætlast ekki til að hv. þingmaður viti þetta nákvæmlega en hann gæti kannski velt því fyrir sér hvort hætta sé á að ríkisstjórnin sé að leika þann leik.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort sú kenning sem virðist vera ofan á hjá þessari ríkisstjórn, að aukin skattheimta leiði til hagvaxtar, standist. Hvort það standist að með því að rukka fleiri, sem gerir að verkum að fyrirtæki geta illa bætt við sig fólki og þá fjölgar væntanlega fólki á atvinnuleysisbótum, skapist óskaplega mikill hagvöxtur sem muni leiða landið út úr þeim þrengingum sem það er í í dag. Ég hef áhyggjur af því að ef þetta sjónarmið ríkisstjórnarinnar nær að skjóta rótum fari fólk að trúa því að hærri skattar muni leiða þjóðina á endanum út úr krísunni.