140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:37]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við höfum vitanlega margbent á og reynt að benda ríkisstjórninni á að lausnin á tekjuskorti sé að auka atvinnu, spýta í fjárfestingar og breyta hlutum á þann veg að það verði til hvati fyrir atvinnulífið og heimilin til að fjárfesta. En í þessu tekjuöflunarfrumvarpi sjáum við tilhneigingu til að gera þetta þveröfugt og auka alla mögulega skatta frá því sem verið hefur. Bent hefur verið á það að frá því að þessi ríkisstjórn tók við hefur sköttum verið breytt 142 sinnum. Maður veltir fyrir sér hvort einhver utan veggja fjármálaráðuneytisins geti í raun haldið utan um allar þessar skattbreytingar. Þetta er kannski atvinnuskapandi fyrir skattasérfræðinga eða slíka aðila.

Það sem maður hefur vitanlega áhyggjur af, frú forseti, er að þessi stefna ríkisstjórnarinnar muni á endanum leiða til þess að fólksflutningarnir sem við höfum heyrt af, og hæstv. forsætisráðherra virðist ekki átta sig alveg á að sé raunveruleiki, muni einfaldlega vaxa. Svo virðist vera að á þessu ári hafi flust burt um það bil sá fjöldi sem samsvarar því að allir íbúar Akraness og nágrennis hafi flust úr landi. Ef svo er veltir maður því fyrir sér hversu lengi við getum búið við þær aðstæður. Verðum við ekki að auka atvinnu — breyta skattkerfinu þannig að það sé hvati fyrir fyrirtækin að búa til störf svo að fólkið sem hefur flutt burt vilji koma heim? Verður ekki að skapa atvinnu þannig að boltinn fari að rúlla upp á við í hagkerfi okkar en ekki niður á við, eins og manni virðist planið vera hjá þessari ólukkans ríkisstjórn?