140. löggjafarþing — 36. fundur,  14. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[23:45]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. En er ekki hv. þingmaður sammála mér um að núna liggi alveg sérstaklega mikið á? Auðvitað vitum við að það liggur á, þegar horft er á ástandið hér. Það er ekki gott að búa lengi við mikið atvinnuleysi og óleyst skuldamál og allt það sem sem við höfum rætt undanfarin ár. Er þetta ekki sérstaklega brýnt núna? Nú stöndum við frammi fyrir þeirri hættu að mjög djúp eða að minnsta kosti langvarandi og erfið kreppa í útlöndum, í viðskiptalöndum okkar, muni draga úr tækifærum okkar á næstu árum til að nýta þá möguleika sem eru fyrir hendi. Þurfum við ekki að nýta þau tækifæri einmitt núna vegna þess að við stöndum frammi fyrir þeirri hættu að erfiðara verði að nýta þau á næstu árum? Setur það ekki sérstaklega mikla ábyrgð á herðar ríkisstjórnar sem bregst ekki við, rétt eins og bóndi sem gerir engar ráðstafanir þegar harður vetur er að ganga í garð? Má ekki segja að ríkisstjórnin hafi það miklar upplýsingar um í hvað stefni að mjög óábyrgt væri að nýta ekki öll þau tækifæri sem bjóðast við þessar aðstæður og nýta þau strax?