140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

samgöngumál.

[10:45]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar að ræða við hæstv. innanríkisráðherra um samgöngumál, samgönguáætlun og sérstaklega jarðgangagerð sem ekki verður gert ítarlega á svo stuttum tíma.

Samgöngumál skipta okkur Íslendinga, sem búum í dreifbýlu og stóru landi, mjög miklu máli og þess vegna skiptir mjög miklu máli að við höfum áætlun um það hvernig við ætlum að bæta samgöngur í landinu. Samgönguáætlunin er byggð á þarfagreiningu þar sem tekið er tillit til öryggis, styttingu leiða og byggðasjónarmiða. Þess vegna kemur það mér svolítið á óvart þegar fram kemur ný samgönguáætlun að málunum sé snúið á haus og forgangsröðun breytt. Þannig var t.d. gert ráð fyrir 1,5 milljörðum í Norðfjarðargöng á þessu ári og því næsta vegna þess að talin var þörf á þeirri samgöngubót, en allt í einu eru bara 50 millj. á þessu ári til þeirra framkvæmda og síðan ekki söguna meir.

Mig langar einnig til að ræða það og vil fá skýringu á því hvað hefur breyst í þarfagreiningu, öryggi, styttingu leiða og byggðasjónarmiðum, sérstaklega hvað þetta verkefni varðar.

Ég geri mér grein fyrir því að jarðgöng eru afar dýrar framkvæmdir og ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að nauðsynlegt sé að hafa sérstakan sjóð eða með sérstaka jarðgangaáætlun og eyrnamerkt fjármagn til þess. Mig langar til að fá að heyra frá hæstv. ráðherra hvort hann sé ekki sammála mér í því og hvort hann muni ekki berjast með mér fyrir því að þegar efnahagsleg staða okkar lagast munum við gera jarðgöng fyrir austan. Við þurfum að hafa sérstaka peninga til þess og það strax á þessu ári.

Þá langar mig einnig til að spyrja hæstv. ráðherra hvaða jarðgöng hann telur eðlilegast að farið verði í næst í opinberri framkvæmd. Ég vil fá að vita hvort þær forsendur sem voru í samgönguáætlun síðast standist ekki örugglega. Ég mun síðan að koma inn á önnur mál í seinni ræðu minni.