140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

samgöngumál.

[10:47]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Forsendur frá síðustu samgönguáætlun standast að sjálfsögðu ekki einfaldlega vegna þess að hér varð bankahrun. Við byggjum áætlanir okkar, fjárhagsramma samgönguáætlunar, á þeim nýju aðstæðum sem upp eru komnar. Það sem stendur hins vegar til að gera hvað varðar stórframkvæmdir eins og jarðgöng er að taka þær út úr samgönguáætlun og fjármagna þær með sérstökum hætti.

Ég hef alla tíð sagt að Norðfjarðargöng séu mjög brýn í efnahagslegu tilliti og til að bæta samgöngur á Austfjörðum. Það mundi einnig bæta og efla byggðarlög eystra. Að sama skapi þegar horft er til öryggis fólks er grundvallaratriði að fólk komist yfirleitt á milli svæða. Þar eru Vestfirðir langverst staddir þegar litið er til landsins alls. Þess vegna er samkvæmt samgönguáætlun gert ráð fyrir að verja hlutfallslega mestu fjármagni til Vestfjarða.

Hv. þingmaður beinir sjónum okkar að gangagerð sem yrðu í opinberri framkvæmd og er þá væntanlega að vísa til Vaðlaheiðarganga sem yrðu hugsuð með öðrum hætti, það er alveg rétt, við ráð fyrir því að Norðfjarðargöng verði kláruð á árinu 2018. Hvers vegna flýtum við ekki framkvæmdinni og leggjum hluta af framkvæmdarkostnaðinum í framkvæmdir nú? Það er vegna þess að það er mjög óhagkvæmt að gera það. Það er hagkvæmast og ódýrast og við förum best með féð með því að hefja verkið og ljúka því, ekki að hefja framkvæmdir sem ekki munu nýtast fyrr en göngin hafa verið opnuð. (Forseti hringir.) Það er bara hagkvæmnissjónarmið.