140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

Icesave og hugsanleg ráðherraskipti.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég heyri að hæstv. efnahagsráðherra á marga bandamenn í stjórnarandstöðunni og er það vel og ég er ekkert hissa á því. (PHB: En í stjórninni?) Hann hefur staðið sig mjög vel í þessu máli, eins og ég sagði áðan, en ég er ósammála hv. þingmanni, sem hér talar og leggur fram þessa fyrirspurn, um að aðrir ráðherrar hafi farið óhönduglega með málið, eins og hún orðar það. Ég held að hæstv. fjármálaráðherra hafi staðið sig einstaklega vel í þessu máli og lagt sig mjög fram um að hafa hagsmuni Íslands í fyrirrúmi í hvívetna, eins og hann á auðvitað að gera, allt frá því að hann tók við þessu erfiða máli.

Nú er málið að færast inn í dómsalina eins og við bjuggumst við ef samningurinn yrði ekki samþykktur eins og raun varð á. Þá verðum við að taka því og vinna eins vel úr því máli og við mögulega getum. Ég vil undirstrika það sem fram kom hjá hv. þingmanni að auðvitað þarf að hafa mjög breiða samstöðu í þessu máli og vinna vel að hagsmunum Íslands.

Við fengum niðurstöðuna í hendurnar í gær. Við þurfum aðeins að átta okkur á málinu og hvernig við vinnum framhaldið. Það skiptir miklu máli að vandað sé til verka. Við tökum alla sérfræðinga okkar að borðinu í þessum efnum. Ég geri ráð fyrir að við munum skoða það að fá erlenda sérfræðinga til liðs við okkur vegna þess að við ætlum að leggja allt undir til að vinna málið. En við horfum auðvitað til forsögunnar í málinu og þegar samningsbrotamál hafa farið fyrir EFTA-dómstólinn hefur utanríkisráðherra haft forræði í þeim. Það skiptir máli að við stöndum saman í þessu máli, sama hver fer með forræðið, hvort sem það verður utanríkisráðherra eða efnahagsráðherra, (Forseti hringir.) og að það sé ráðherrahópur í málinu sem mun fylgja því vel eftir. Það skiptir máli að eiga eins góða samstöðu við stjórnarandstöðuna og aðra aðila og til þarf til að við klárum þetta mál og vinnum það.