140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

Icesave og hugsanleg ráðherraskipti.

[10:58]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Sama hvernig stjórnarandstæðingar knýja á um svör við því hvort og þá hvernig uppstokkun verði í ríkisstjórninni, þá fá þeir engin svör úr þessum ræðustóli við því. Það verður fyrst og fremst ráðin niðurstaða um það innan Samfylkingarinnar og innan Vinstri grænna hvernig breytingar verða gerðar á ríkisstjórn. Við ræðum við félaga okkar í hvorum flokki fyrir sig. Ég vona einlæglega að hv. þingmaður hafi skilning á því. Ég spyr: Ef hún stæði í mínum sporum, mundi hún gefa mér alveg skýr og glögg svör við því hvaða breytingar hún ætlaði að fara í ef það væru áformin í þeirri ríkisstjórn sem hún veitti forstöðu? Nei, að sjálfsögðu ekki.

Mér finnst ósanngjarnt hvernig vegið er að fjármálaráðherra sem staðið hefur sig mjög vel í þessu máli, alveg sama hvað þingmenn segja og hvað þeir brosa þá hefur hann staðið sig vel. Hvað sem menn segja um þessa fyrstu samninga voru þar þó lögð drög að þeirri aðferð sem við höfum (Forseti hringir.) notað með góðum árangri um að eignir búsins ættu að ganga upp í forgangskröfur. Það er það sem hefur skilað okkur þessari góðu niðurstöðu fyrst og fremst. Ég neita því (Forseti hringir.) að hægt sé að halda því fram að fjármálaráðherra hafi ekki staðið sig vel og hafi reynt að hafa eins mikið samráð innan lands og utan þess eins og hægt væri í þessu máli.