140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

um fundarstjórn.

[11:08]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Af því að hv. þm. Mörður Árnason nefnir þetta einstaka mál held ég að rétt sé að það komi fram að stjórnarmeirihlutinn er hvað eftir annað búinn að ganga þannig frá samkomulagi við hv. flutningsmenn að þetta mál verði tekið fyrir og afgreitt og niðurstaða komi í það. Ég held að ekkert mál hafi jafnoft verið samið um að yrði klárað og gengið til atkvæða um en þetta ágæta mál. Ég velti fyrir mér hvað vaki fyrir hv. þingmanni með þeim orðum sem hér komu fram, hvort það sé virkilega svo að enn og aftur verði allt gert sem í valdi hv. ríkisstjórnarmeirihluta stendur til að koma í veg fyrir að greidd verði atkvæði um þetta mál.