140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:12]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf):

Virðulegur forseti. Segja má að grófari útlínur að samkomulagi um afgreiðslu mála í efnahags- og viðskiptanefnd liggi fyrir ef samkomulag næst um aðra þætti í þingstörfunum. Það lýtur að hluta til að því máli sem hér er fyrir en samkomulag er um að eðlilegt sé að sá skattur sem ætlunin er að lögfesta verði endurskoðaður að ári með aðkomu fulltrúa allra þingflokka og með hliðsjón af þeim víðtæku breytingum sem eru að verða á skattumhverfi fjármálafyrirtækja í Evrópu og þeim þrengingum sem eru á heimsmörkuðum. Það er eðlilegt að við fylgjumst vel með og aðlögum okkur að því og tökum tillit til þess í því skattumhverfi sem við búum fjármálafyrirtækjum í landinu.

Þær breytingartillögur sem meiri hlutinn í efnahags- og viðskiptanefnd leggur til við fjársýsluskattinn að öðru leyti felast fyrst og fremst í því að draga úr þeirri skattlagningu sem fyrirhuguð var á laun, á störf, í fjármálakerfinu og flytja hana í staðinn yfir á mikinn hagnað og hlífa með því bæði störfunum og um leið minni fjármálafyrirtækjum sem þurfa að búa við góð skilyrði til að samkeppni megi eflast í fjármálageiranum.

Upphafleg tillaga frumvarpsins laut að því að 10,5% af launum í fjármálafyrirtækjum yrðu greidd í sérstakan launaskatt, fjársýsluskatt, með sambærilegum hætti og gert er í Danmörku en þangað höfum við eins og kunnugt er í gegnum tíðina sótt mörg fordæmin í skattamálum. Röksemdin fyrir þessari skattlagningu eins og hún er útfærð í Danmörku og þegar hún kom hér fram er að eðlilegt sé að fjármálakerfið greiði í sameiginlega sjóði vegna þeirrar undanþágu sem fjármálakerfið hefur frá virðisaukaskatti.

Við fjármögnum mestalla velferð í landinu með innheimtu virðisaukaskatts sem er meginuppistaðan í tekjuöflunarkerfi ríkissjóðs. Það er athyglisvert og umræðuefni í sjálfu sér, og ætti að vera það hér og ekki bara hér heldur í heiminum öllum, hvernig á því stendur að jafnöflug atvinnugrein og á löngum tímabilum ört vaxandi atvinnugrein og fjármálageirinn er skuli yfir höfuð vera undanþeginn virðisaukaskatti. Kannski væri einfaldast að fjármálageirinn greiddi virðisaukaskatt eins og allar aðrar atvinnugreinar í landinu. Það sjónarmið er uppi í því efni að það kæmi þá út í verðlagningu til neytenda en þau rök eiga við í öllum öðrum atvinnugreinum líka. Auðvitað kemur virðisaukaskattur á matvörur út í verði á matvörum og virðisaukaskattur á allri þeirri þjónustu sem heimilin í landinu þurfa á að halda kemur auðvitað á endanum út í verðinu og því skyldi það ekki gilda um fjármálaþjónustu eins og alla aðra þjónustu?

Við breytum auðvitað ekki ein þessu fyrirkomulagi sem er alþjóðlegt, bæði um vátryggingarnar og fjármálafyrirtækin. Þess vegna hefur verið sótt í þá dönsku fyrirmynd að þar sem fjármálakerfið nýtur sérstakrar ívilnunar í skattamálum, borgar ekki af virðisaukanum sem verður til í þeirri atvinnugrein eins og allar aðrar atvinnugreinar í landinu þurfa að gera, sé eðlilegt að það borgi eitthvert annað gjald í sameiginlega sjóði þess í stað. Tillagan var um að greidd yrðu 10,5% af launum í fjármálafyrirtækjum enda mundu launin þar að vissu leyti endurspegla þann virðisauka sem yrði til á hverjum stað því að hann væri nátengdur bæði fjölda starfsmanna og launakostnaði yfir höfuð.

Þessi útfærsla mætti mikilli andstöðu hjá Samtökum fjármálafyrirtækja sem lögðu á það áherslu í umfjöllun fyrir nefndinni að á næsta ári yrði mikið af föstum gjöldum lögð á greinina og eins yrðu sum þeirra í hámarki á næsta ári, til að mynda greiðslur þeirra vegna kostnaðar við Fjármálaeftirlitið sem sannarlega verða í hámarki á næsta ári og munu síðan fara lækkandi eftir það vegna þess að þar er verið að ljúka því að vinna úr hruninu. Kostnaður vegna umboðsmanns skuldara við úrvinnslu skuldamála verður sömuleiðis í hámarki á næsta ári. Þá er verið auka inngreiðslur í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og þar er um verulegar fjárhæðir að ræða. Fjármálafyrirtækin lögðu því áherslu á að réttara væri að horfa á hagnað og þá einkum hagnað hinna stærri fyrirtækja vegna þess að mikilvægt væri líka að gæta að því að leggja ekki of mikið á smærri fjármálafyrirtæki vegna samkeppnissjónarmiða í greininni.

Starfsfólk fjármálafyrirtækja lagðist líka öndvert gegn þessari útfærslu skattheimtunnar vegna þess að hún mundi stuðla að uppsögnum í fjármálafyrirtækjum og fækka þar störfum af því að skatturinn legðist á launin.

Kannski fyrst og fremst til að mæta þessum sjónarmiðum var niðurstaða meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar að helminga tæplega þann skatt sem leggst á laun í fjármálafyrirtækjum úr 10,5% niður í 5,45%. Teljum við að með því sé þessum sjónarmiðum að verulegu leyti mætt og að rúmlega 5% skattur á laun eigi ekki einn og sér að verða tilefni til umfangsmikilla uppsagna svo að dæmi sé tekið.

Við bætist að það sætti talsverðri gagnrýni að til stóð að leggja fjársýsluskattinn á lífeyrissjóðina. Það hefði þá verið varanlegur skattur sem lífeyrissjóðirnir í landinu þyrftu að greiða sem væri óeðlilegt því að þeir eru undanþegnir skattskyldu. Sömuleiðis má auðvitað segja að þó að sjóðirnir séu undanþegnir virðisaukaskatti selja þeir ekki þjónustu þannig að það tekjutap sem ríkissjóður verður fyrir vegna virðisaukaskattsundanþágu lífeyrissjóðanna er með allt öðrum hætti en fjármálafyrirtækjanna almennt því að þeir selja ekki neina þjónustu sem mundi skila virðisaukaskatti eða tekjum sem ástæða væri til að þeir greiddu önnur gjöld af. Þess vegna leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að lífeyrissjóðirnir sæti ekki þessari skattskyldu og endurspeglast það í breytingartillögum okkar hér við 2. umr.

Það tekjutap sem af þessum breytingum verður nemur þá helmingi þeirrar fjárhæðar sem ætlað var að innheimta í skatt með þessum hætti, en það voru 4,5 milljarðar sem minnka þá að sama skapi niður í 2,25 milljarða. Þess í stað leggur meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar til að lagður verði sérstakur 6% skattur á hagnað fjármálafyrirtækja umfram 1 milljarð kr. Gert er ráð fyrir að sá skattur verði fyrir fram greiddur á næsta ári og muni skila 2,25 milljörðum í ríkissjóð og að álagning á árinu eftir muni, ef svo fer fram sem horfir, væntanlega skila svipaðri fjárhæð á því ári og þar með inn á rekstrargrunninn. Þessi skattur leiðir í aðalatriðum ekki til neinna breytinga fyrir ríkissjóð á greiðslugrunni en á honum höfum við m.a. byggt samstarf okkar við AGS í efnahagsmálum. Hann hefur hins vegar neikvæð áhrif á rekstrargrunninn því að þótt tekjurnar komi í kassann á næsta ári má ekki bókfæra þær á rekstrargrunni fyrr en á árinu 2013 og því lækka tekjur á fjárlögum eftir rekstrargrunni um samsvarandi fjárhæð, 2,25 milljarða. En í ljósi þeirra miklu hagsmuna sem undir eru við þessa breytingu og mikilvægis þess að koma til móts við sjónarmið bæði fólksins og fyrirtækjanna í greininni til að skapa sem víðtækasta sátt um þessa tekjuöflun leggur meiri hluti nefndarinnar þetta eigi að síður til.