140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:22]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er gott dæmi um skatt sem maður hefur á tilfinningunni að gengið hafi verið frá á hlaupum. Komið hefur rækilega fram, af því að hv. þingmaður vísar í fordæmið frá Danmörku, í umfjöllun nefndarinnar að embættismenn Fjármálaeftirlitsins telja að þar sé um ákveðinn misskilning að ræða. Ég held að embættismaðurinn hafi orðað það svo að hann ætlaði ekki að treysta þeirri handbók aftur sem hann komst yfir þegar verið var að semja þennan skatt. Síðan hefur verið reynt á hlaupum að bjarga því sem bjargað varð eftir umfjöllun nefndarinnar án þess að menn hafi nokkuð skoðað afleiðingar þessa skatts. Þó er alveg ljóst að þetta mun þýða að fólki verður sagt upp störfum og þá sérstaklega konum, það hefur komið rækilega fram hjá umsagnaraðilum.

Það er líka annað. Með þessu frumvarpi eru störf flutt til útlanda. Það er alveg ljóst að erlendir aðilar standa betur að vígi en innlendir í samkeppni á fjármálamarkaði. Skýrasta dæmið en þó alls ekki það eina varðar viðbótarlífeyrissparnað. Það er augljóst að innlendir aðilar munu standa sig miklu verr í samkeppni við erlenda eftir að við höfum lagt þann skatt á.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það trufli hann ekkert að ganga frá málinu núna vitandi hver staðan er í atvinnumálum okkar Íslendinga og að það muni augljóslega leiða til þess að störf færast frá Íslandi til útlanda.