140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Til að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu í landinu er frumforsendan að fjármálum ríkissjóðs sé komið í lag þannig að hann verði lánshæfur og geti fjármagnað aðrar stofnanir samfélagsins. Þetta frumvarp þjónar því markmiði.

Hvað varðar samkeppnisstöðu til dæmis séreignarsjóðanna vegna þessa máls gerir sú breyting meiri hlutans, þ.e. skattlagning á hagnað umfram 1 milljarð, auðvitað að verkum að hér er fyrst og fremst um að ræða að menn greiði 5,45% skatt vegna virðisaukaskattsundanþágu sinnar. Ég tel að í samkeppnislöndum okkar megi víða finna umtalsvert hærri launatengdan kostnað en hér er að finna og að þetta skref eigi út af fyrir sig ekki að ríða baggamuninn um hvort störf verði í einhverjum mæli til hér eða erlendis og svara ég því spurningu hv. þingmanns neitandi.

Ég vil hins vegar nota tækifærið og spyrja hv. þingmann hvort honum fyndist ekki langeðlilegast að fjármálafyrirtækin skiluðu virðisaukaskatti, ekki bara hér heldur um heim allan, eins og aðrar atvinnugreinar. Sér hann einhver rök fyrir því að fjármálafyrirtæki, sem yfirleitt eru í ágætum efnum, séu sérstaklega undanþegin þessu eins og þau séu atvinnugrein sem ekki hafi neinn virðisauka eða geti borið þá skatta sem aðrar atvinnugreinar bera?