140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Við skulum skoða þetta vel. Við eigum auðvitað alltaf að hafa skattumhverfið til skoðunar. Það hefur því orðið að samkomulagi að við förum sérstaklega yfir þessa hlið næsta árið, líka vegna þeirra breytinga sem eru að verða í Evrópu með tillögum um nýja skatta á fjármálafyrirtæki þar sem kunna að verða innleiddir og væri þá eðlilegt að við skoðuðum hvaða skatta við tækjum upp.

Ég vil síðan nefna vegna þeirra föstu gjalda sem fjármálakerfið ber að við komum einnig nokkuð til móts við það með því að lækka nokkuð inngreiðslur þeirra í Tryggingarsjóð innstæðueigenda á komandi ári frá því sem ætlað var, þ.e. á annan milljarð króna. Ég tel að með þeim breytingum höfum við mætt að mestu þeim málefnalegu sjónarmiðum sem komu fram við umfjöllun nefndarinnar.

Ég legg þó áherslu á að eitt af mikilvægustu verkefnum okkar er að leita leiða til að auka ekki álögur á almenning, venjulegt fólk, og fyrirtæki í landinu heldur leita sérstakra úrræða til þeirrar tekjuöflunar sem við þurfum á að halda. Það verður ekki fram hjá því litið að skattalegur hagnaður fjármálafyrirtækjanna, að vísu án sérstakra gjaldfærslna, gæti á yfirstandandi ári orðið allt að 40 milljarðar kr. Ég tel atvinnugreinina því ekki þannig stadda að hún geti ekki borið auknar álögur eða að minnsta kosti eitthvað sem kæmi í stað virðisaukaskattsundanþágunnar sem hún nýtur umfram aðrar atvinnugreinar.