140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:33]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Helgi Hjörvar) (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna. Það er um leið ástæða til að segja frá því að á fundum efnahags- og viðskiptanefndar og við umfjöllun um þetta mál kom raunar úr ranni fjármálafyrirtækjanna sú hugmynd að eðlilegt væri að leggja mat á þann kostnað sem hlotist hefði af áföllunum í fjármálakerfinu og um leið mat á því hvaða viðbótarkostnað bankakerfið hefur tekið á sig í framhaldinu. Ef löggjafinn vísaði til þess kostnaðar sem af þeim hefði hlotist lægi fyrir mat á kostnaðinum og menn gætu síðan skoðað hverju fjármálakerfið væri að skila til baka. Ég held að það sé út af fyrir sig ágæt hugmynd.