140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[11:34]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta efh.- og viðskn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að fara aðeins yfir og svara því sem hér hefur komið fram í máli hv. framsögumanns og formanns hv. efnahags- og viðskiptanefndar og lesa upp hvað Samtök starfsmanna í fjármálastarfsemi og bankastarfsemi segja um fullyrðingar um skattlagningu á fjármálafyrirtæki. Í umsögn Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja segir, virðulegi forseti:

„Skattur á launakostnað fjármálafyrirtækja: Sá skattur sem nú er rætt um að leggja á launakostnað fjármálafyrirtækja er í raun skattur á vinnuafl sem ekki á neina sök á bankahruninu, en ekki á starfsemi fjármálafyrirtækja og hefur því engin stýrandi áhrif á starfsemi þeirra önnur en þau að hvetja til fækkunar starfsmanna og bjaga launaþróun. Í Danmörku var þessi skattur innleiddur 1988 og þar má finna skýr dæmi um áhrif af skattlagningu sem þessari. Hlutfall starfsmanna í fjármálageiranum í Danmörku lækkaði um 20% frá árinu 1991–2001. Þess má geta að nú þegar greiða íslenskir bankar tryggingagjald, sem er ekkert annað en launaskattur, en það gera danskir bankar ekki. […]

Skattur á launagreiðslur fjármálafyrirtækja er óstöðug tekjulind fyrir ríkissjóð þar sem hvati fyrirtækjanna er talsverður til að fækka starfsmönnum og draga úr launagreiðslum til að minnka skattbyrði. Þetta getur leitt af sér eins konar vítahring þar sem ítrekað þarf að hækka skatta til að viðhalda tekjustofninum.

Skattur á launagreiðslur til starfsmanna getur leitt til hærri útgjalda samfélagsins vegna aukins fjölda atvinnulausra sem missa störf í greininni sem og í afleiddum störfum.“

Einnig kom umsögn frá Samtökum fjárfesta þar sem farið var yfir þær röksemdir að þetta komi í stað virðisaukaskattsgreiðslna. Í umsögn Samtaka fjárfesta segir, með leyfi forseta:

„Sú forsenda stenst ekki þar sem öll aðkeypt þjónusta fjármálafyrirtækja er með virðisaukaskatti sem dregst ekki frá sem innskattur þegar fjármálafyrirtækið selur þjónustu. Álagning af þessu tagi kemur í veg fyrir að fjármálafyrirtæki verði sett á markað því fjármálafyrirtæki verða ekki aðlaðandi kostur fyrir hugsanlega fjárfesta, hvort heldur innlenda eða erlenda.“

Virðulegi forseti. Við verðum auðvitað að tala um þessa hluti eins og þeir eru. Það sem þetta frumvarp gerir er að það færir störf til útlanda. Það umbunar stærri aðilunum á kostnað hinna minni og ljóst er að þetta mun koma mjög hart niður á minni fjármálafyrirtækjum, sérstaklega sparisjóðum. Það var ekkert verið að skafa af hlutunum í umfjöllun nefndarinnar af þeim aðilum sem þar voru og töluðu fyrir hönd lífeyrissjóðanna. Þeir töldu að það frumvarp sem lagt var upp með í byrjun mundi ríða sparisjóðunum að fullu. Og þó svo að þessi útfærsla sé væntanlega skárri fyrir sparisjóðina þýðir það ekki að það muni ekki hafa áhrif. Það er alveg ljóst, virðulegi forseti, að þetta mun leiða til þess að fólki verður sagt upp og þá sérstaklega konum á landsbyggðinni.

Við fórum yfir þetta, virðulegi forseti, og tókum nokkra þætti sem við töldum að vert væri að vekja athygli á í nefndaráliti frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar. Í fyrsta lagi minntumst við á að ekki hefur verið metið nægjanlega hver áhrif af samþykkt frumvarpsins muni verða á starfsumhverfi fjármálafyrirtækjanna. Ég held að nægjanlega sé afskaplega hógvært orð í þessu samhengi vegna þess að það hefur ekki verið metið og ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að við erum að fara yfir þessar stóru skattkerfisbreytingar á síðustu dögum þingsins. Og jafnvel þó að við gætum komist að þeirri niðurstöðu við þessar skattkerfisbreytingar og aðrar að þær hafi mjög skaðleg áhrif, það má færa full rök fyrir því, þá eru hendur okkar algerlega bundnar. Í það minnsta er það túlkun hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans að sökum þess að búið er að ganga frá útgjaldahluta fjárlaganna sé ekkert annað að gera en að klára tekjuhlutann með einhverjum hætti. Og þótt eitthvað kæmi fram í umfjöllun nefndarinnar sem gerði það að verkum að jafnvel hv. stjórnarþingmenn hefðu áhyggjur af gangi mála, þá hafa þeir ekki sveigjanleika til að breyta því. Þetta er bara verklag ríkisstjórnarmeirihlutans.

Í öðru lagi liggur alveg fyrir að þetta mun fækka störfum í fjármálageiranum. Það liggur fyrir og hefur margoft komið fram. Nú veit ég ekki hvort það var ætlunin. En almenna reglan er sú, og er það tiltölulega einfalt orsakasamhengi, að ef verið er að setja skatt á laun og hann er í prósentum — til að borga þann skatt þurfa náttúrlega að vera greidd út laun. Við uppsagnir fá færri laun og þar af leiðandi mun það hafa áhrif á þá skattprósentu sem kemur til ríkisins.

Í þriðja lagi hefur það margoft komið fram hjá umsagnaraðilum að þeir sem munu missa störfin eru konur, sérstaklega á landsbyggðinni. Vegna þess að launaskattur sem þessi mun leiða af sér fækkun útibúa og útibúin eru fyrst og fremst kvennavinnustaðir.

Í fjórða lagi er erlendum aðilum hyglað á kostnað innlendra. Við erum í samkeppni við erlenda aðila á fjármálamarkaði á mörgum sviðum, sem mun væntanlega aukast í náinni framtíð, en er þó mjög áberandi í viðbótarlífeyrissparnaðarmálum, en það er í rauninni kannski eini sparnaður okkar Íslendinga, almennings, þ.e. viðbótarlífeyrissparnaðurinn, þá segir það sig sjálft að því meira sem innlendir aðilar eru skattlagðir, þeim mun erfiðara verður fyrir þá að keppa við erlenda aðila.

Í fimmta lagi er gengið nærri sparisjóðunum og öðrum smærri fjármálafyrirtækjum. Þetta eru ekki einu ótekjutengdu álögurnar og gjöldin á fjármálafyrirtæki. Það er sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, gjald í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta, ég ræði það aðeins betur á eftir, kostnaður við rekstur Fjármálaeftirlitsins og umboðsmanns skuldara, tímabundið álag til að standa undir sérstökum vaxtaniðurgreiðslum og tryggingagjald. Þetta hefur allt aukist verulega á undanförnum árum. Þetta eru ekki einu ótekjutengdu gjöldin, því fer víðs fjarri. Þvert á móti hafa þau aukist verulega og það segir sig bara sjálft að ótekjutengdu gjöldin eru tekin einhvers staðar, þau eru tekin meðal annars í vaxtamuni, þar sem þar er helsti tekjustofn viðkomandi fjármálafyrirtækja þá eru þau tekin þar. Það minnkar svigrúm fyrirtækjanna til skuldaniðurfellingar og það leiðir til uppsagna þegar um beina skatta á launatekjur er að ræða.

Ég hef vakið athygli á því að kostnaður við embætti umboðsmanns skuldara verður núna, eftir að við höfum gengið frá tekjuáætlun og gjöldum til umboðsmanns skuldara, sem er fjármagnað af fjármálafyrirtækjum að langstærstum hluta, 2,5 milljarðar. Kostnaðurinn við það embætti samsvarar því að við hefðum deilt honum á skuldaniðurfellingar á 500 fjölskyldur, þ.e. 5 milljónir á hverja fjölskyldu.

Ég held að þegar við erum komin á þennan stað, virðulegi forseti, og rekstrarkostnaður umboðsmanns skuldara er fyrst og fremst til hinnar ágætu stéttar lögfræðinga, sé rétt að setjast niður og hugsa: Er ekki hægt að gera þetta með einfaldara móti? Eru þeir fjármunir sem fara í þennan kostnað virkilega að koma heimilunum til góða? Er þetta fyrst og fremst að fara í milliliði, en eftir sitja heimilin með sárt ennið? Við höfum frekar farið flóknari leiðir en einfaldar þegar kemur að skuldamálum heimilanna og jafnvel skuldamálum fyrirtækjanna. Menn hafa ekki horfst í augu við eða tekið ákvarðanir um þætti sem nauðsynlegt er að gera og kostnaður eykst með hverju árinu og það kemur niður á öllum með einhverju móti.

Í sjötta lagi er stórum aðilum hyglað á kostnað hinna minni sem gerir nýsköpun á þessu sviði mjög erfiða. Þrátt fyrir allt hafa lítil fjármálafyrirtæki sprottið upp, þau eru ekki mörg, þau eru ekki stór, en það er þó vísir að slíkum fyrirtækjum. Það verður mjög erfitt og snúið fyrir þau, og hefur alltaf verið, að keppa við stóru viðskiptabankana þrjá. En það segir sig sjálft að því fleiri ótekjutengdu gjöldin sem sett eru á slíka starfsemi, því minni líkur eru á að starfsemin lifi af, ég tala nú ekki um að þau nái að blómstra. Það verður auðvitað til þess, að því gefnu að Íslendingar muni enn lifa í nútímasamfélagi og nýta sér fjármálaþjónustu, að hún verður annaðhvort hjá þessum stóru íslensku aðilum eða hjá erlendum aðilum. Svo einfalt er það.

Í sjöunda lagi gæti frumvarpið truflað verulega starfsemi þeirra sem eru með blandaða starfsemi og reka sig á vaxtamuninn, eins og viðskiptabankarnir. Algengt er að smærri aðilar á fjármálamarkaði byggi reksturinn á ráðgjafarstarfsemi sem er nú þegar virðisaukaskattsskyld. Viðbótarskattinn sem lagður er til með frumvarpinu ætti því eingöngu að leggja á þann hluta fjármálastarfsemi sem ekki er virðisaukaskattsskyld. Stóra einstaka málið er það að við höfum ekki, og það tengist nú fyrsta atriðinu, metið hvaða áhrif þetta hefur á starfsumhverfi fjármálafyrirtækja og höfum faktískt ekki tæmt þann þátt málsins.

Í áttunda lagi er þeim aðilum sem ekki eru eftirlitsskyldir hyglað á kostnað þeirra sem eru eftirlitsskyldir. Gjöld til Fjármálaeftirlitsins hafa hækkað stórlega. Fjármálaeftirlitið er núna í þeirri stöðu að þrátt fyrir að íslenska bankakerfið sé um 3% af danska bankakerfinu þá er íslenska Fjármálaeftirlitið 47%, ef við tökum bara veltutölu, af stærð danska fjármálaeftirlitsins. Þeir sem greiða fyrir þetta eru fjármálafyrirtækin. Það eru auðvitað gríðarlega há gjöld sem fyrirtækin greiða til þessa eftirlits og miklu hærri en gengur og gerist í öðrum löndum. Það sem þetta frumvarp mun gera er að menn munu útvista þessum verkefnum annað og til þeirra aðila sem eru ekki eftirlitsskyldir. Þeir aðilar sem munu fá verkefni í kjölfar þessa eru erlendu aðilarnir og þeir sem eru ekki eftirlitsskyldir því að í bankastarfsemi geta menn sett ýmsa starfsemi — þeir geta haft hana innan húss, þeir geta haft hana annars staðar og ef hún er annars staðar þá er viðkomandi starfsemi ekki eftirlitsskyld af hálfu Fjármálaeftirlitsins.

Í níunda lagi samrýmist frumvarpið ekki áformum sem uppi eru um skattlagningu fjármálageirans á alþjóðavettvangi. Þá hefur 1. minni hluti bent rækilega á að frumvarpið byggist á allt öðrum forsendum en hliðstæð skattlagning í Danmörku.

Ég vísaði í það, virðulegi forseti, að prýðisembættismaður hjá fjármálaráðuneytinu, og fólk þar er auðvitað eðli málsins samkvæmt að gera sitt besta, orðaði það þannig að hún mundi ekki treysta aftur þeirri handbók sem hún hefði fengið til viðmiðunar þegar þau hjá fjármálaráðuneytinu voru að semja frumvarpið. Stóra einstaka málið er að þegar menn eru að vinna að málum með þessum hraða — ef þetta væri nú eina málið sem hv. efnahags- og viðskiptanefnd væri með þá væri svo sem hægt að ganga frá þessu og svara helstu spurningum og kannski langflestum á þeim tíma sem nefndin hefur haft, en við erum með röð af stórum málum sem hafa komið mjög gölluð til hv. efnahags- og viðskiptanefndar. Það eru allir meðvitaðir um og þess vegna höfum við reynt að sníða mestu agnúana af. En því fer víðs fjarri að við séum að skoða þessi mál eins og ætti að skoða þar sem menn vilja vanda sig og vinna faglega.

Í tíunda lagi er með tillögum meiri hlutans lagt til að inngreiðslur í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta verði lækkaðar um 1,2 milljarða. Hér er um athyglisverða hluti að ræða vegna þess að Tryggingarsjóður innstæðueigenda, sem kallaður er TIF alla jafna, er sá sjóður sem á að grípa til ef fjármálastofnun fellur. Þetta er innstæðutryggingakerfi sem við höfum þurft að taka upp út af því að við erum aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu. Þetta er eitthvað sem við Íslendingar þekkjum ekki af góðu einu, heldur þvert á móti. Við þekkjum þetta af biturri reynslu. Í grófum dráttum er þetta þannig eftir því sem ég best veit, þetta er fyrirmynd frá Bandaríkjunum, að það er gríðarlega mikill fjöldi af innstæðustofnunum eða fjármálafyrirtækjum sem taka við innstæðum. Hugmynd þeirra var, sem þeir framkvæmdu, að setja upp tryggingakerfi þannig að þegar er mikið af stofnunum sem allar greiða inn í einn sjóð þá gengur það alveg upp. Við skulum segja að um sé að ræða þúsund stofnanir, ef ein og ein fellur þá eru til fjármunir í viðkomandi innstæðutryggingarsjóð til að greiða út fyrir viðkomandi fjármálastofnun. Þetta heitir tryggingarsjóður. Þetta er bara eins og tryggingakerfi, alveg eins og þegar við tryggjum bílana okkar þá eru þúsundir og tugþúsundir sem greiða iðgjöld og þó að tjón verði hjá hundruðum eða jafnvel þúsundum manna þá hafa þeir með iðgjöldunum greitt upp í sjóð sem getur síðan bætt tjónið. Nákvæmlega sama hugsun er uppi með íslenska tryggingarsjóðinn, ef undanskilið er að Evrópusambandið útfærir þetta þannig með tilskipun sinni, sem við innleiddum eftir að við gengum inn í EES, að viðkomandi ríki þyrfti að setja upp sjóð sinn í sínu landi. Það gæti hugsanlega gengið upp í praktíkinni í landi eins og Þýskalandi þar sem 80 milljónir manna búa. Þar eru í það minnsta hundruð fjármálafyrirtækja sem taka á móti innstæðum. En á Íslandi erum við með fjármálafyrirtæki sem eiga yfir 90% af innstæðunum, og þau eru þrjú. Það er ekki tryggingakerfi sem getur gengið upp með því að þrír aðilar borgi sambærilegt iðgjald og gert er ráð fyrir í stóru tryggingakerfi, sem er eðli málsins samkvæmt lágt, sem dekkar þá ef eitthvað kemur upp hjá þessum þremur viðskiptabönkum. Með öðrum orðum, þetta tryggingakerfi gengur ekki upp í rauninni og gekk auðvitað alls ekki upp þegar menn voru að koma upp bankastarfsemi á milli landa, en menn sáu það kannski ekki alveg fyrir þegar þetta innstæðutryggingakerfi var sett upp á sínum tíma.

Icesave-málið allt saman er komið til vegna gallaðrar tilskipunar Evrópusambandsins. Við ræddum það mál í gær. Við sjáum ekki enn fyrir endann á því öllu saman. En hvað sem því líður erum við með Tryggingarsjóð innstæðueigenda og sú leið var farin, virðulegi forseti, að hækka iðgjaldið verulega inn í sjóðinn einfaldlega vegna þess að hann er tómur eftir bankahrunið. Það hafa verið rök hv. þingmanna í meiri hlutanum að mjög mikilvægt væri að greiða mikið í þann sjóð svo að eitthvað væri til staðar ef eitthvert íslenskt fjármálafyrirtæki mundi falla.

Virðulegi forseti. Það er allt satt og rétt að meðan við höfum þetta kerfi eins og það er verða að vera til peningar einhvers staðar ef eitthvert fjármálafyrirtæki mundi falla. Þessi sjóður mun seint eða kannski aldrei geta tekið á einu eða neinu nema hugsanlega litlu fjármálafyrirtækjunum, en þeim fer fækkandi. Þetta frumvarp gengur út á það að fækka litlum fjármálafyrirtækjum. Og þegar menn hafa áhyggjur af því að þessi skattlagning muni koma illa niður á fjármálafyrirtækjunum þá ákveða þeir að spara inngreiðsluna í Tryggingarsjóð innstæðueigenda. Þetta er tryggingarsjóður, þetta er tryggingarfé ef eitthvað kemur upp á og tjón verður. Menn viðurkenna augljósa galla við frumvarpið með því að fara þessa leið. Menn viðurkenna að þessi gjöld á fjármálafyrirtækjunum eru of há, þau ganga ekki upp, og þá ætla menn að spara með því að taka þá áhættu að ekkert komi upp í fjármálafyrirtækinu á næstu árum eða áratugum og vilja spara greiðslur inn í Tryggingarsjóð innstæðueigenda.

Það gæti verið að við eða börnin okkar lentum seinna í vandræðum út af þessum gjörningum, því að ekki er ólíklegt að þetta muni halda áfram. Við höfum tekið umræðu um smærri fjármálafyrirtækin, sérstaklega sparisjóðina, á þinginu. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. ríkisstjórn hafa komið með mjög skýr skilaboð í orði og vilja halda sparisjóðakerfinu. Við höfum að vísu kallað eftir því alveg frá því að ríkisstjórnin tók við hvers konar rekstrarumhverfi menn ætli að útbúa sparisjóðunum og hvernig ríkisstjórnin sér framtíð sparisjóðanna fyrir sér. Lítið hefur verið um svör en hins vegar mikið um allra handa yfirlýsingar þar sem hv. stjórnarandstæðingar hafa svo sannarlega fengið að heyra það, og bara með því að velta þessum spurningum upp væru menn að tala gegn sparisjóðunum og jafnvel hinum dreifðu byggðum.

Virðulegi forseti. Hver er niðurstaðan? Sparisjóðunum hefur fækkað jafnt og þétt, og þetta frumvarp sérstaklega gæti riðið þeim að fullu ef marka má umsagnir. Vissulega má segja að þetta skatthlutfall launaskattsins hafi verið lækkað, fór úr 10,5% í 5,45%, en ef fjármálafyrirtæki skilar hagnaði þá er þetta í rauninni eins og 6,71% skattur vegna þess að fjársýsluskatturinn er ekki dreginn frá kostnaði líkt og gildir um tryggingargjaldið. Þarna er um að ræða enn eitt flækjustigið í skattamálum. Þetta er alveg þvert á framkvæmdina í Danmörku, af því að vísað hefur verið til þess að menn séu að taka upp danskt fyrirkomulag. Það er ekki einu sinni rétt að menn séu að taka upp danskt fyrirkomulag. Ofan á allt eru menn að flækja skattkerfið og kannski er það til þess að fela það að í mörgum tilfellum er þessi skattur ekki 5,45% heldur 6,71%. Hann hefur ekki lækkað úr 10,5% í 5,45%, því að þar sem hagnaður er á fyrirtækjum hefur hann lækkað úr 10,5 í 6,71%.

Virðulegi forseti. Vegna stefnuleysis í málefnum sparisjóðanna eru menn á hlaupum til að reyna að bjarga ríkisfjármálum fyrir horn. Vegna stefnuleysis í efnahagsmálum hafa sparisjóðir landsins orðið virkilega illa úti. Allar þær yfirlýsingar sem hafa komið frá stjórnarliðum um sparisjóðina og framtíð þeirra hljóma afskaplega ótrúverðugar þegar menn skoða afleiðingarnar og reyndina. Ég get algerlega tekið undir það að mjög mikilvægt er að ná endum saman í ríkisfjármálum og get algerlega tekið undir að það er afskaplega mikilvægt að greiða niður skuldir.

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp er birtingarmynd vítahrings efnahagsstefnu eða efnahagsstefnuleysis ríkisstjórnarinnar. Hún kemur fram í því að menn hafa verið að kæfa atvinnustarfsemi, vegna þess að menn hafa ekki skilning á mikilvægi efnahagslífsins og mikilvægi þess að koma hjólum atvinnulífsins af stað og því eru menn alltaf að elta skottið á sér. Menn gera það með því að setja aukna skatta á það efnahagslíf sem er þó til staðar, sem kæfir það smátt og smátt. Við fengum að heyra það, virðulegi forseti, mjög skýrt frá þeim sem sendu umsagnir að þetta mundi kæfa ákveðna tegund fjármálastarfsemi. Þetta kemur illa niður á innlendri starfsemi gagnvart samkeppni við erlenda aðila, þetta kemur illa við smærri fjármálafyrirtækin í samkeppni við stærri og þá sérstaklega sparisjóðina. Eðli málsins samkvæmt mun þetta leiða það af sér að þegar menn setja mikið af ótekjutengdum gjöldum á fjármálafyrirtækin kemur það líka niður á almenningi í landinu. Það kemur meðal annars niður á almenningi ef gengið er fram gagnvart allri atvinnustarfsemi, hvort sem það er fjármálastarfsemi eða annað, með slíkri skattlagningu að störfum fækkar og færri verða til þess að greiða skatta. Fólk flytur jafnvel úr landi eins og við þekkjum. Það mun þýða að minni tekjur verða í ríkiskassanum. Ef menn halda alltaf áfram að minnka kökuna verður sú sneið sem fer í ríkiskassann alltaf minni og það skiptir ekki máli þó að menn stækki hana hlutfallslega, hún minnkar samt sem áður.

Virðulegi forseti. Lokaorð hjá okkur hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni hljóma svo, með leyfi forseta, í þessu nefndaráliti:

„Fyrsti minni hluti bendir á að hreinn launaskattur af því tagi sem felst í frumvarpinu leiðir til aukins launakostnaðar og rekstrarkostnaðar, fækkunar starfa, fátíðari nýráðninga og samdráttar í rekstri þeirra fyrirtækja sem um er að ræða, auk innbyggðs hvata til útvistunar verkefna og færslu starfa út fyrir landsteinana. Frumvarpið þýðir einnig að þrátt fyrir að fyrirtæki sé rekið með tapi þurfi það að bera þennan aukna kostnað.“

Þetta er það sem liggur fyrir. Við verðum að rjúfa þann vítahring sem íslenskt efnahagslíf er í út af efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Við verðum að koma hjólunum af stað. Frumvarp þetta fer þvert á þau markmið. Hér hefur verið bent á að fjölga þurfi störfum, það þarf að auka sparnað og fjárfestingu, en þetta frumvarp hjálpar ekki til að ná þeim markmiðum, þvert á móti, það vinnur gegn öllum þeim markmiðum.