140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[12:09]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á þeim breytingum sem hafa orðið á frumvarpinu í meðförum efnahags- og viðskiptanefndar. Við höfum minnkað vægi launaskattshlutans frá því sem var í upphaflegum hugmyndum fjármálaráðherra. Í upphafi var gert ráð fyrir að 10% viðmið yrði sett á laun sem greidd eru í fjármálakerfinu. Það hlutfall hefur verið lækkað í rétt rúm 5% en helmingurinn af þeim áætluðu tekjum sem þessi skattlagning á að færa í ríkissjóð eða 4,5 milljarðar, á að koma af ofurhagnaði, sem við getum kallað sem svo, innan fjármálakerfisins. Viðmiðunartalan er allur hagnaður sem myndast umfram einn milljarð.

Í fyrsta lagi vil ég nýta það tækifæri sem ég hef hér í andsvari til að fagna þessum breytingum enda styð ég þær. Ég vil líka velta því upp við þingmanninn hvort ganga eigi lengra í því viðmiði sem notað er, hvort sem það verði gert að þessu sinni eða í framtíðinni þegar við íhugum og förum í heildarendurskoðun á skattlagningu á fjármálakerfinu. Nefndin leggur til að farið verði yfir það heildrænt hvers konar skattlagning eigi að gilda á starfsemi fjármálafyrirtækja og hvaða viðmið eigi að gilda. Ég tel að við eigum frekar að horfa til þess hagnaður sem er að myndast í bankakerfinu í dag heldur en þá tölu sem miðast við launin sem greidd eru í fjármálakerfinu. Ég tel að sá ofurhagnaður sem myndast sé betra viðmið. Þess vegna fagna ég þeim breytingum sem nefndin leggur til og tel að það viðmið eigi að liggja til grundvallar þegar við skoðum skattlagningu á fjármálafyrirtæki til frambúðar.