140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti Við greiðum atkvæði um I. kafla frumvarpsins sem fjallar um tryggingagjaldið og það gefur okkur tilefni til að velta vöngum yfir stöðu atvinnumálanna. Vissulega er það sá málaflokkur þar sem er kannski mest þörf fyrir samhenta vinnu okkar í þinginu á komandi ári, en rétt er að vekja athygli á því að okkur hefur miðað talsvert áfram frá bankahruni. Atvinnuleysið er komið úr 9% niður í 7% og það gefur okkur færi á því að færa núna tryggingagjaldið niður. Það hefur þær afleiðingar að það er hægt að færa 8 milljarða kr. frá ríkissjóði og yfir til fyrirtækjanna í atvinnulífinu aftur. Það munar um minna og gefur okkur byr í seglin í því verkefni sem fram undan er, að ná atvinnuleysinu enn frekar niður. Það þarf að gera með auknum fjárfestingum og með samstilltri stjórn efnahagsmála hér eftir sem hingað til.