140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

195. mál
[14:34]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Hér gerir meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar tillögu um að neðri mörkin í tekjuskattinum hækki um 9,8% og verði 230 þúsund á næsta ári, þ.e. hækki meira en reiknað er með að verðlag og laun hækki á næsta ári. Það er ákaflega mikilvægt, bæði fyrir meðaltekjuhópana sem eru fyrir ofan þessi mörk og fyrir láglaunafólk og lífeyrisþega sem eru rétt undir þessum mörkum, að þessi mörk almennt fylgi launaþróun til lengri tíma þannig að skattbyrði láglauna- og meðaltekjufólks í landinu þyngist ekki frá því sem verið hefur. Persónuafslátturinn mun sömuleiðis auðvitað taka hækkunum eftir neysluvísitölu nú um áramót og því mun fólk af sömu krónutölu í tekjum greiða tæplega 3 þús. kr. minna í tekjuskatt á mánuði eftir áramót en fyrir.