140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:35]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að gera athugasemd við eitt atriði í ágætri ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar. Hann talaði um ákvarðanir sem gera að verkum að minna verður til skiptanna fyrir þá ríkisstjórn sem mun sitja í landinu eftir þingkosningarnar 2013 og taldi að tölur þess efnis gætu verið af stærðargráðunni 8–9 milljarðar kr. Þá rifjaðist upp fyrir mér að ég hélt einmitt bókhald af þessu tagi á árunum 2006–2007, þá fylgdist ég með þeim ákvörðunum sem þáverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók á lokametrunum á því kjörtímabili sem þá stóð yfir.

Það verður að segjast eins og er að mann sundlaði eiginlega þegar maður fór yfir samtöluna af þeim fjölmörgu ákvörðunum sem voru teknar á síðustu mánuðum fyrir kosningar. Þetta var tímabilið frá nóvember 2006 og fram að kosningum sem voru haldnar um vorið 2007. Niðurstaðan var sú að þegar allt var talið kostuðu ýmsar ákvarðanir um hin og þessi verkefni ríkissjóð á milli 70 og 80 milljarða kr. Mér finnst þetta sýna betur en nokkuð annað þau vinnubrögð og það viðhorf til ríkisfjármálanna sem einkenndi þetta tímabil sem átti mjög stóran þátt í því að við vorum afar illa sett þegar kom að stöðu ríkisfjármálanna eftir hrun, nánar tiltekið var fjárlagahallinn 216 milljarða kr. sem nú hefur þó tekist að ná niður í innan við 50 milljarða og (Forseti hringir.) stefnir í enn þá lægri fjárhæðir á næsta ári.