140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:38]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Skúla Helgasyni fyrir ágætis athugasemd. Ég starfaði á engan hátt í stjórnmálum á þeim tíma sem þingmaðurinn rifjaði hér upp þannig að ég þekki ekki nákvæmlega til þessara hluta. En aftur á móti get ég sagt hv. þingmanni eitt að ríkissjóður var á þeim tíma rekinn með gríðarlega miklum afgangi. Lykillinn að spurningunni sem fólst í athugasemd þingmannsins felst raunverulega í því sem hann sagði sjálfur: Þetta voru verkefni sem kostuðu 70–80 milljarða kr. Ég er ekki að vísa til verkefna þegar ég segi að búið sé að færa til um 8–9 milljarða af skatttekjum, færa úr framtíðinni til dagsins í dag til að stoppa upp í gat sem menn hreykja sér svo af að þeir séu að loka, nákvæmlega eins og þingmaðurinn gerði sjálfur.

Síðan er annað með þennan meinta 210 milljarða halla (Gripið fram í: 16.) 216 milljarða halla, hárrétt hjá hv. þingmanni, af honum var einskiptiskostnaður upp á 176 milljarða sem hafði ekkert með rekstur ríkissjóðs að gera heldur tap sem Seðlabanki Íslands hafði orðið fyrir vegna svokallaðra ástarbréfa en þau reginmistök höfðu verið gerð að færa þau inn í ríkissjóð og afskrifa þar. Það varð til þess að ríkissjóður hefur þurft að líða vítiskvalir á undanförnum árum tveimur, þremur árum. Þetta voru reginmistök.

En varðandi 70–80 milljarðana. Lykillinn er sá (Forseti hringir.) að þeir voru til fjármögnunar á verkefnum.