140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[15:40]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vissulega voru þetta verkefni. Þetta voru ákvarðanir sem þáverandi ríkisstjórn tók þegar umboð hennar var að renna út, ákvarðanir sem bundu hendur þeirrar ríkisstjórnar sem tók við að loknum kosningum, drógu úr svigrúmi hennar um 70–80 milljarða, og munar sannarlega um minna. Um þetta snýst málið og það siðferði sem liggur þar að baki.

Við hv. þingmaður erum algjörlega sammála um að það voru reginmistök sem áttu sér stað í Seðlabankanum og tengdust ástarbréfunum síðustu mánuðina fyrir hrun, en þá hlýtur maður að benda á að þar réði ríkjum fyrrverandi formaður sama stjórnmálaflokks og stýrði fjármálaráðuneytinu allar götur frá 1991–2008.