140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:28]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Fyrst að fyrra atriðinu. Þetta er auðvitað alveg rétt. Ríkisstjórnin beitir þessari taktík og það er ekkert annað en taktík að varpa fram einhverju nógu ógnvænlegu til að geta síðan dregið aðeins úr því og sagt: „Sjáiði, við erum búin að laga þetta, þetta var þá ekki svo slæmt á endanum.“ Þetta er auðvitað vel þekkt pólitísk brella. Við skulum hafa í huga að þessi ríkisstjórn fékk í arf allar gömlu spunavélar Samfylkingarinnar og hefur verið að beita þeim mjög reglulega og mjög mikið. Þetta er klassískt spunabragð að senda út eitthvað sem lítur nógu illa út til þess að geta síðan státað sig af því að hafa lagað það. Hugsa sér það að setja út eitthvað nógu slæmt og segja svo: „Sjáiði, við löguðum þetta.“ Og hreykja sér af því. Þetta er samt aðferð sem fólk er farið að sjá í gegnum vegna þess hversu oft er búið að beita henni og vegna þess að menn sjá að lækkunin, þ.e. þegar menn draga aðeins í land, kemur bara til í næsta skrefi eins og með skattlagningu á eldsneyti svo ég nefni dæmi. Menn senda kannski út einhverjar meldingar um að það eigi að hækka eldsneyti verulega en hækka það svo aðeins minna. Það þýðir bara að eldsneyti er hækkað aftur nokkrum mánuðum seinna. Á endanum er engu bjargað með þessu.

Hvað varðar kynjuðu hagstjórnina þá er þetta náttúrlega alveg stórfurðulegt, eins og hv. þingmaður bendir á, að það séu ekki hvað síst kvennastörf, sérstaklega í heilbrigðisgeiranum og í fjármálafyrirtækjum, sem verða fyrir barðinu á þessari ríkisstjórn.

Ég var nú ekki búinn að velta fyrir mér þeirri kenningu sem hv. þingmaður teflir hér fram, að það sé hugsunin að segja upp sem flestum konum til að geta síðan í lokin ráðið fleiri konur, en það væri í (Forseti hringir.) samræmi við þær spunaaðferðir sem (Forseti hringir.) við höfum verið að velta fyrir okkur.