140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[16:31]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég heyri að hann deilir áhyggjum með mér hvað varðar þessa skattstefnu.

Ég hef líka verið að velta fyrir mér því sem menn nota til að réttlæta þetta. Ég held að það sé hárrétt sem hv. þingmaður benti á í ræðu sinni að nú eigi í raun og veru að refsa þeim bönkum sem eru starfandi í dag og voru reistir á rústum gömlu bankanna fyrir yfirsjónir gömlu bankana.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann um eitt af því að ég get ekki séð það í frumvarpinu og það mundi í rauninni ekki virka hvort sem er. Maður heyrir suma hv. stjórnarliða tala um að það sé jú farið að greiða mjög há laun aftur í bankakerfinu en eftir því sem maður hefur séð í fjölmiðlum virðast hæstu greiðslurnar vera til svokallaðra skilanefnda. Ég geri fastlega ráð fyrir að þessi skattur nái ekki yfir þær vegna þess að þetta eru verktakasamningar og gefnir út af fyrirtækjum. Er þá eðlilegt, ef menn ætla að leggja á skatta með þessum hætti, sem er reyndar ekki skynsamlegt að gera, að sleppa einmitt til að mynda skilanefndunum, því að þar er verið að greiða eftir því sem manni sýnist, a.m.k. í fjölmiðlum, hæstu launin í bankakerfinu í dag?

Síðan langar mig líka að spyrja hv. þingmann um hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að það sé búið að lesta þetta svo mikið. Þetta er endalaust. Það er Fjármálaeftirlitið, það er umboðsmaður skuldara, hækkun á tryggingagjaldi, sérstakar vaxtabætur og koll af kolli. Hv. stjórnarliðar virðast halda að þetta komi bara af himnum ofan og það sé bara gott að ná í þetta hjá þessum stóru vondu bönkum. En auðvitað kallar þetta á uppsagnir, þetta getur þýtt að menn fari að gera verktakasamninga og jafnvel út fyrir landsteinana, eins og bent er á í nefndaráliti. Og í þriðja lagi, eins og hv. þingmaður benti á, þá eykst vaxtamunurinn og í reyndina endar þetta að sjálfsögðu á almenningi. Er hv. þingmaður sammála mér um það?