140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum fjársýsluskattinn og þau þrjú nefndarálit sem koma hingað fyrir 2. umr. frá meiri hlutanum og 1. og 2. minni hluta.

Mig langar að byrja á að ræða aðeins það sem við hv. þingmaður áttum orðaskipti um hér á undan í sambandi við vönduð vinnubrögð og hvernig var staðið að þessu máli eftir að það kom inn í þingið. Það má ugglaust hafa á því margar skoðanir en það kemur hins vegar bersýnilega í ljós í nefndarálitum bæði 1. og 2. minni hluta að ekki hafði verið gert nóg í að vanda vinnubrögð og ganga úr skugga um hver áhrif samþykkt frumvarpsins kynnu að verða, sérstaklega á starfsumhverfi fjármálafyrirtækjanna.

Enn eina ferðina eru fingraförin á þeim skattbreytingum sem við fjöllum um kunnugleg. Breytingarnar eru eins og þær sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að gera þau ár sem hún hefur starfað. Hent er fram miklu hærri tölum með miklu alvarlegri afleiðingum fyrir bæði fjölskyldur og fyrirtæki en síðan er dregið í land og spunavélarnar fara í gang. Í raun og veru gengur þetta út á að telja fólki og fyrirtækjum trú um að breytingarnar séu þó með þeim hætti að verulega hafi verið dregið úr þeim og að menn geti nú andað léttar, þetta hefði getað orðið miklu verra. En auðvitað er þetta löngu hætt að virka ef það hefur einhvern tíma virkað.

Það sem er líka að þessu máli er trúin á það hvernig skattstofnarnir bregðast við auknum álögum. Það er ekkert samasemmerki milli þess að hækka skattprósentuna og þess að þá komi sjálfkrafa úr skattstofninum hærri tala. Það virkar ekki þannig heldur dragast skattstofnarnir saman og við ákveðin skilyrði, þegar skattar eru lækkaðir er niðurstaðan sú að meiri tekjur koma inn í ríkissjóð. Þetta vilja vinstri menn ekki skilja og ég er farinn að halda að það séu trúarbrögð hjá vinstri mönnum að skattahækkanir virki eins og þeir halda.

Fyrst þegar byrjað var að ræða allar þessar skattkerfisbreytingar, strax á árinu 2009 eftir að núverandi ríkisstjórn tók við, var ákveðinn hópur hv. þingmanna, sérstaklega í Samfylkingunni, sem hafði miklar efasemdir um að æskilegt væri að fara fram með þeim hætti sem hefur verið gert. Þá var sagt bæði í gríni og alvöru að þeir fáu sem efuðust væru einu kratarnir sem eftir væru í Samfylkingunni. Mér sýnist á þeirri vegferð sem við erum á að þeir séu búnir að gefast upp á verkefninu eða orðnir þreyttir á að reyna að koma vitinu fyrir hina. Sumir þeirra hv. þingmanna eru farnir að tala fyrir því að þetta sé gert svona.

Síðan er mjög merkilegt þegar menn ræða aðra skatta sem eru kynntir hér og skattahvata eins og í átaksverkefninu Allir vinna, sem er mjög gott verkefni, þá segja þeir að endurgreiðslan skili sér til baka og komi sér betur fyrir ríkissjóð. Menn halda því í raun og veru fram og trúa því þá væntanlega að það sé mismunandi eftir því hvernig skattstofninn er hvernig hann bregst við álögum. Það er mjög merkilegt.

Þegar hæstv. fjármálaráðherra hafði mælt fyrir þessu frumvarpi, um fjársýsluskattinn, og það kom inn í hv. efnahags- og skattanefnd reyndi meiri hluti nefndarinnar að tjasla eitthvað við það. Menn geta svo sem tekist á um hvort það teljist vönduð eða óvönduð vinnubrögð. Það má líka halda því fram að sú vinna og þær breytingar að draga að minnsta kosti úr skaðanum í meðförum nefndarinnar teljist vönduð vinnubrögð af hálfu þingsins og nefndarinnar, þ.e. eftir að framkvæmdarvaldið hefur sett málið í nefnd séu gerðar á því bragarbætur til að draga sem mest úr skaðanum sem af frumvarpinu hefði hlotist.

Meiri hlutinn lagði í fyrsta lagi til með þeim breytingartillögum sem fylgja meirihlutaálitinu að þessi skattur legðist ekki á lífeyrissjóðina. Ég tel það mjög jákvætt. Það er alveg með eindæmum hugmyndaflugið að leggja endalaust meiri álögur á lífeyrissjóðina, alveg sama í hverju þær felast, fjársýsluskatti eða sérstökum vaxtabótum sem reyndar stendur mikill styr um og gæti stefnt í að samningum yrði sagt upp ef fram heldur sem horfir og ekki verður frá gengið. Þetta er með ólíkindum, sérstaklega að ætla yfir höfuð að skattleggja lífeyrissjóðina en líka út af þeirri mismunun sem það þýðir gagnvart hinum almenna launagreiðanda eða þeim aðilum sem eru í opinberu sjóðunum. Skuldbindingar ríkisins gagnvart opinberu sjóðunum eru rúmir 400 milljarðar. Það þýðir að þegar ríkið skattleggur opinberu sjóðina eykur það skuldahalann í hinn endann. Ég tel eins og ég sagði í upphafi að breytingartillaga meiri hlutans um að taka lífeyrissjóðina út og leggja ekki þennan fjársýsluskatt á þá sé í raun og veru jákvæð breyting og vönduð vinnubrögð af hálfu meiri hluta nefndarinnar. Það sjá auðvitað allir.

Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir því að ekki hafa allir starfsmenn sem vinna hjá hinu opinbera aðgang að opinberu sjóðunum, það eru bara sumir sem hafa aðgang að þeim. Það er fullt af fólki sem vinnur hjá ASÍ sem borgar í almennu sjóðina þótt það starfi hjá ríkinu. Síðan fara menn að fikta í þessu því að af umsögnum má sjá um þetta mál að margir vara við afleiðingum þess verði frumvarpið að lögum. Þá er höfuðið bitið af skömminni og reynt að bæta úr og lagt til að hinn svokallaði fjársýsluskattur á laun, sem við fjölum hér um, lækki úr 10,5% niður í 5,45%. Hver skyldi hafa verið ástæðan fyrir því að meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar ákvað það? Ég tel hana vera augljósa. Þegar menn setja á launaskatt með þessum hætti ofan á mikla hækkun á tryggingagjaldi dregur það úr störfum, fækkar störfum. Það hlýtur að vera undirrótin hjá meiri hlutanum í nefndinni sem lækkar skatthlutfallið úr 10,5 í 5,45% að forðast það. En það þýðir að fyrirhugaður skattstofn skreppur saman um helming, sem átti að skila 4,5 milljörðum en er áætlað að skili eftir þetta um það bil 2,25 milljörðum.

Síðan er reynt að vega upp á móti því vegna þess að það er búið að samþykkja fjárlögin. Tekjuliðir eru samt enn í lausu lofti og það þarf svo sem ekki að eyða löngum tíma í að fara yfir það hversu fáránleg sú staða er sem komin er upp í þinginu út af tekjuhlið frumvarpsins. Samkvæmt þingsköpum á fjárlaganefnd að gefa efnahags- og viðskiptanefnd umsögn um tekjuhliðina en það var ekki gert vegna þess að það þykir fyrst og fremst fáránlegt en eigi að síður á það að vera þannig samkvæmt þingsköpum. Ég tel mjög mikilvægt, eins og ég sagði fyrir nokkrum dögum í umræðunni um fjárlögin, að þessu verði breytt þannig að menn vinni þetta eins og áður, að hv. efnahags- og viðskiptanefnd fari í gegnum tekjuhlutann og skili síðan tillögunum til hv. fjárlaganefndar sem hefur umsjón og eftirlit með framkvæmd fjárlaga, hvort heldur sem er tekjuhlið eða útgjaldahlið.

Til að vega upp á móti þessari helmingslækkun á skattinum er farin sú leið að setja 6% skatt á hagnað fjármálafyrirtækja umfram tiltekin mörk. Þá er miðað við hagnað sem er umfram 1 milljarð. Þar á að bæta upp það tekjutap sem ríkissjóður verður fyrir með því að lækka skatthlutfallið úr 10,5 niður í 5,45%.

Til að lina þjáningarnar af þessu er farin enn ein leiðin og lagt til að dregið verði úr föstum álögum á fjármálakerfið með lækkun gjalds í Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta á komandi missirum, þ.e. taka á til baka hluta af álögum á hagnað fjármálafyrirtækjanna umfram 1 milljarð. Þetta er nokkuð merkileg aðgerð og tel ég að með þessu séu menn enn eina ferðina að ýta vandanum á undan sér vegna þess að við vitum öll hver staða Tryggingarsjóðs innstæðueigenda er, hann er tómur. Það er verið að fresta vandanum. Við erum með pólitíska yfirlýsingu um að allar innstæður á Íslandi séu tryggðar þó að í raun og veru megi stórlega efast um það og væntanlega nánast fullyrða að ef bankakerfið færi aftur á hausinn þá mundi ríkissjóður ekki standa undir því að leggja aftur fé inn í bankana til að tryggja allar innstæður. Það er því spurning hvort ekki hefði verið nær fyrir hv. efnahags- og viðskiptanefnd og þá náttúrlega fjármálaráðherrann í upphafi að leggja frekar til eitthvert ábyrgðargjald fyrir þá yfirlýsingu að allar innstæður séu tryggðar þótt hún sé ekki bundin í lög og í raun og veru bara pólitísk yfirlýsing hæstv. fjármálaráðherra.

Mig langar aðeins að koma inn á hverjar afleiðingarnar geta hugsanlega orðið og fara aðeins yfir það hvað ég tel að geti gerst.

Eins og ég nefndi í upphafi máls míns breytast skattstofnarnir við auknar og minnkandi álögur. Það liggur alveg fyrir að fyrirtæki í fjármálastarfsemi eins og bankar og sparisjóðir muni í fyrsta lagi fækka launþegum, þ.e. segja upp fólki, til að sleppa við launaskatt og í öðru lagi gæti komið upp sú staða að menn færu að gera verktakasamninga, þ.e. færa ákveðna þætti úr starfsemi bankanna og fela einhverjum öðrum að gera þá, jafnvel fyrir utan landsteinana. Ákveðin umsýsla innan bankanna sem er ekki mjög einfalt að gera rafrænt yrði falin verktökum. Þá slyppu fjármálafyrirtækin við þennan skatt og flyttu jafnvel atvinnu úr landi. Síðan gefur augaleið að hefðbundin bankastarfsemi er nánast alls staðar rekin með mjög litlum hagnaði vegna þess að ekki eru mikil tækifæri fyrir bankakerfið til að lána út. Það er mikið um innlán, það eru mjög háar tölur, yfir 2 þús. milljarðar liggja inni í viðskiptabönkunum vegna stefnu hæstv. ríkisstjórnar sem leggur stein í götu allrar atvinnuuppbyggingar, sama hver hún er. Ef einhvers staðar skyldi vera von er strax hlaupið í það að finna stærsta steininn sem ríkisstjórnin getur lyft til að setja í veg fyrir þá atvinnuuppbyggingu sem væri eðlilegt að bankakerfið lánaði fyrir til að ávaxta peningana og geta þá greitt þeim sem eiga inneignirnar vexti.

Þessi vettvangur er þar af leiðandi ekki fyrir hendi fyrir bankastofnanirnar og innstæðurnar eru því lagðar inn í Seðlabankann. Þá gefur augaleið að vaxtamunur verður á því sem Seðlabankinn greiðir bönkunum af inneigninni og því sem bankarnir greiða innstæðueigandanum, þ.e. einstaklingnum, lífeyrissjóðunum eða hverjum sem á innstæðu í bankanum. Sá vaxtamunur er búinn til í bankakerfinu til að geta staðið undir því að borga vexti Seðlabankans, sem er nánast eins og ríkissjóður, og til verður eins konar gegnumstreymiskerfi sem endar þannig að ríkissjóður þarf að greiða inn í Seðlabankann til að hann geti greitt vaxtamuninn og þá verður ríkissjóður að fá tekjur og fara aftur þennan hring og skattleggja annaðhvort einstaklinga, fyrirtæki eða lífeyrissjóðina til að hægt sé að loka hringnum. Þetta er því mjög óbjörgulegt.

Það sem er líka alvarlegt í þessu máli beinist enn og aftur að því sem ég var að velta upp áðan í andsvari við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Flestir ef ekki allir hv. þingmenn sem styðja stjórnarmeirihlutann blása sig út yfir kynjaðri fjárlagagerð og kynjaðri hagstjórn. Það er hins vegar gengið í þveröfuga átt við það þegar skorið er niður í ríkisútgjöldunum. Þá er nánast öruggt og jafnvel gengið út frá því að konum verði sagt upp. Við þekkjum þetta af heilbrigðisstofnunum. Síðan er farið af stað með skattlagningu af þessu tagi sem mun þýða uppsagnir kvenna. Til að þetta gangi allt saman upp hjá hv. stjórnarliðum þegar búið er að hræra í málinu á aðalskrifstofum ráðuneytanna og eyða í það mörgum tugum milljarða að vinna einhverjar skýrslur með flokksgæðingum um kynjaða fjárlagagerð og búið að hrekja margar konur úr starfi velti ég fyrir mér þegar menn kynna stefnuna hvort þeir segi að störfunum muni fjölga, spunavélarnar fari í gang og hugmyndafræðin verði: Nú erum við farin að vinna eftir þessu nýja merkilega plaggi, kynjaðri hagfræðistjórn og kynjaðri fjárlagagerð, og hér sést árangurinn: Það er búið að fjölga störfum kvenna — en þær höfðu allar verið reknar áður úr vinnu.

Það er líka áhyggjuefni, eins og hefur komið fram hér, hvernig vegið hefur verið að minnstu fjármálastofnununum eins og sparisjóðunum í landinu sem hafa oft verið kallaðir hornsteinar í héraði. Sparisjóðir sem ég þekki til hafa margir hverjir lánað og eflt atvinnu í byggðarlögum þar sem þeir starfa. Það eru mörg dæmi um einstaklinga sem ætla að hefja atvinnurekstur og fara í stóru bankana til að fá lán en þar hafa menn ekki þá þekkingu sem liggur heima í héraði hjá þeim sem stýra sparisjóðakerfinu og er þeim umsvifalaust hafnað. Síðan geta þessir einstaklingar komið sér á lappirnar og stofnað fyrirtæki, skaffað fólki atvinnu því að þeir hafa fengið lán og fyrirgreiðslu frá sparisjóðunum sem hafa staðið undir því nafni að vera hornsteinn í héraði. Mörg fyrirtæki hafa einmitt orðið til á þann hátt og eru í raun og veru þau fyrirtæki sem bera uppi starfsemi viðkomandi byggðarlaga. Það er mjög mikilvægt.

Síðan er orðið mikið umhugsunarefni og ég held að hv. stjórnarliðar þurfi að hugsa það mjög vel hvað hægt er að lesta fjármálastofnanir mikið. Það er alltaf verið að klína meiru og meiru á þær hvort heldur sem það er Fjármálaeftirlitið, umboðsmaður skuldara, hækkun á tryggingagjaldinu eða sérstakar vaxtabætur. Þetta gerir það að verkum að fjármálafyrirtæki munu einfaldlega ekki geta hjálpað þeim einstaklingum sem eru í viðskiptum hjá þeim og gefið þeim afslætti af skuldum þeirra því að með þessu eru þeim takmörk sett. Það gefur augaleið og er mikil blekking ef menn trúa því að svo sé ekki.

Ég held að það sé líka sérstakt rannsóknarefni sú réttlæting sem maður heyrir í máli sumra hv. stjórnarþingmanna, að þetta stóra, ljóta, vonda bankakerfi hafi setti allt á annan endann. Menn verða að sjá að þær bankastofnanir starfa ekki lengur og nýjar eru teknar við. Eins og kemur fram í einu nefndarálitinu er í raun og veru verið að hengja bakara fyrir smið. Það væri vel athugandi og hugsandi að menn útfærðu þennan fjársýsluskatt á skilanefndirnar. Ef hv. stjórnarliðar hafa áhyggjur af þeim launakjörum sem bjóðast í bankakerfinu held ég að þeir ættu frekar að skoða, miðað við fréttir undanfarnar vikur, launakjörin í skilanefndunum. Þar eru tölurnar margfalt hærri.