140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður hefur farið yfir þetta skattamál, sem er eitt af tæplega 200 skattbreytingum sem á að gera, ef ég skil þetta rétt. Hv. þingmaður talaði töluvert í ræðu sinni um áhrifin á starfsmenn og á stéttina, þ.e. þá sem vinna hjá þessum fyrirtækjum, og nefndi það réttilega að stærsti hluti þeirra eru konur, þannig að ef gripið verður til þess að hagræða á móti þessu, t.d. með uppsögnum, mun það lenda á þeim hópi sérstaklega.

Þá vaknar sú spurning hvort hv. þingmaður hafi heyrt þau sömu rök og ég frá Samtökum fjármálafyrirtækja að uppsagnir, sem kunna að verða vegna hækkaðra skatta og minnkandi tekna þá um leið hjá fjármálafyrirtækjum, verði í rauninni í hlutfalli við þá starfsmenn sem þar eru. Þar af leiðandi munu jú fleiri konur missa vinnuna en karlar.

Annað hefur líka komið fram að í yfirstjórnum fjármálafyrirtækja hefur fækkað mjög mikið. Það eru stórar deildir sem eru í því má segja að fara í gegnum lánasamninga og það allt saman. Þær deildir munu smám saman fara út úr bönkunum, en ekki er komið að því að fyrirtækin fækki því fólki þar sem enn þá er svo mikið óuppgert af málum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort þeir punktar sem ég hef nefnt séu ekki í rauninni undirstrikun á því sem þingmaðurinn hélt fram í ræðu sinni, þ.e. að þeir sem þurfa að víkja úr fjármálastofnunum, ef þarf að beina þessari hagræðingu þangað, séu konur.