140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[17:41]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé staðreynd vegna þess að fram hefur komið hér og í umsögnum að þar sem meiri hluti þeirra sem starfa í fjármálastofnunum eru konur þá muni þetta bitna fyrst og fremst á þeim og þeim verði sagt upp. Það er einu sinni þannig að þegar menn setja álögur eins og þessar, þetta er launaskattur og launaskattur þýðir bara eitt, hann þýðir að störfum mun fækka. Um það er ekki mjög mikið deilt, held ég, nema hjá þeim hv. þingmönnum sem hafa þau trúarbrögð að eðlilegast sé að ríkið hirði nánast allar tekjur. Ég veit eiginlega ekki hvað hv. stjórnarliðar eru tilbúnir að ganga langt, margir hverjir. Ég held að hugmyndafræði þeirra nái jafnvel svo langt að þeir vilji bara taka tekjur allra landsmanna og skammta þeim síðan þá mola sem detta út af borðbrúninni.

Auðvitað segir það sig sjálft að þetta gerist með þeim hætti. Ég hef líka verulegar áhyggjur af öðrum atriðum, og það kom fram á fundi með forsvarsmönnum þessara stofnana eins og ég fór yfir í ræðu minni, en þau eru uppsagnir starfsfólks, hluti af starfsemi fjármálafyrirtækja er færður út í svokallaða verktakasamninga, aðrir eru látnir sjá um verk með verktakasamningum og þá þarf ekki að borga launaskatt af því. Það gæti þýtt, eins og kemur reyndar fram í nefndaráliti 1. minni hluta, að störf munu flytjast úr landi. Sleginn er varnagli við það.

Síðan gerist það að ef menn fara ekki aðra hvora leiðina, eða hugsanlega hluta af þeim báðum, þá þarf til viðbótar að auka vaxtamuninn á innlánum í viðkomandi fjármálastofnunum og inneignum í Seðlabankanum. Þá gefur augaleið að það eru náttúrlega fjölskyldurnar og lífeyrissjóðirnir (Forseti hringir.) í landinu sem munu borga reikninginn við þennan skatt.