140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[18:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega ofmælt hjá mér ef ég hef sagt að allar hættulegustu vígtennurnar hefðu verið dregnar úr þessu frumvarpi varðandi sparisjóðina. Reyndar held ég að ég hafi slegið varnagla í framhaldi af því sem ég sagði í þeim efnum. Að vísu er búið að milda áhrifin á sparisjóðina, það er kannski miklu réttara orðalag, og er auðvitað gert með lækkun skattprósentunnar og með því að breyta ákvæðunum varðandi skattlagninguna, sérstaklega fólk með undir 400 þús. kr. í laun. Við vitum að í mörgum tilvikum eru mjög margir af starfsmönnum þessara litlu stofnana ekki hálaunafólk.

Það breytir ekki því að hugsunin og hugmyndafræðin er söm, eins og kemur svo glögglega fram í greinargerð með frumvarpinu, hún er sú að halda aftur af launahækkunum og mögulegum vexti fjármálastofnananna. Með öðrum orðum þá er reynt að koma í veg fyrir atvinnusköpun á þessum sviðum.

Ég ítreka líka að það er gríðarlegt áhyggjuefni að fylgjast með þróuninni. Þjónustustöðvar sparisjóðanna voru 47 árið 2010, þær eru 23 í dag og kannski eru þær orðnar færri, ég hef ekki nýjustu tölur. Tveir sparisjóðir eru nú í sölumeðferð. Það er langlíklegast að stóru viðskiptabankarnir geti hrammsað þessa sparisjóði til sín og við vitum að bankarnir hafa augastað á fleirum.

Allt þetta hefur auðvitað í för með sér að smám saman er grafið undan kerfinu í heild. Sameiginlegi kostnaðurinn deilist á færri herðar og fer að íþyngja litlu sparisjóðunum. Þeir eiga smám saman í erfiðleikum með að útvega sér fjármagn o.s.frv. og allt hefur þetta sömu virkni. Þetta frumvarp mun ýta undir þá þróun, engin spurning. Þetta veikir þessar stofnanir, þær geta ekki ýtt af sér þessum kostnaði með hækkun á vaxtamun, þær geta ekki gert það nema þá hugsanlega með því að reyna að fækka fólki. Það mun draga úr þjónustuframboði og þá verða sparisjóðirnir ekki eins eftirsóknarverðir til viðskipta. Smám saman hefur skatturinn þessi áhrif og ég (Forseti hringir.) óttast að sú hafi einmitt verið hugsunin.