140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[18:12]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F) (andsvar):

Frú forseti. Við hv. þingmaður deilum miklum áhyggjum af því hvert þessi ríkisstjórn er að leiða okkur í þessu máli sem og fleirum og einkum þeim sem snúa að stöðu landsbyggðarinnar. Nú veit ég að hv. þingmaður er landsbyggðarþingmaður rétt eins og ég, og kemur úr litlu byggðarlagi vestur á fjörðum. Við vitum báðir hvert mikilvægi sparisjóðakerfisins hefur verið í gegnum tíðina. Sparisjóðakerfið hefur gegnt gríðarlega mikilvægu byggðalegu hlutverki og það er mjög alvarlegt þegar verið er að veikja ítrekað grunninn undir því og gera í raun að engu möguleikana til að halda kerfinu og byggja það upp á nýjan leik. Enda hefur ítrekað komið fram einbeittur vilji hjá núverandi ríkisstjórn í gjörðum hennar gagnvart sparisjóðakerfinu til að draga beinlínis úr vægi þess.

Við getum sett þetta í samhengi við þær tillögur sem við höfum glímt við og horft upp á síðastliðin tvö ár, til að mynda gjörbyltingu á stefnu í heilbrigðismálum og nú síðast hvernig ákvörðun var tekin um að sveitarfélög úti á landi, smærri sveitarfélög, mundu þurfa að bera stærri hluta en önnur af bankahruninu með þeirri ákvörðun að skerða aukaframlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það má líka nefna að bensínskattarnir og hækkun á olíugjaldinu koma gríðarlega illa við mörg dreifðari byggðarlög. Deilir hv. þingmaður ekki áhyggjum sveitarstjórna vítt og breitt um landið af því sem virðist vera æ skýrara og snertir dreifbýlið í heild sinni að ríkisstjórnin vinni á margan hátt beinlínis markvisst gegn uppbyggingu landsbyggðarinnar? Er þetta frumvarp ekki liður í því?