140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:01]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Í ræðu minni áðan um fjársýsluskatt ræddi ég töluvert stöðu sparisjóðanna og þær breytingar sem hafa orðið á því umhverfi. Skattar á lítil fjármálafyrirtæki geta haft meiri áhrif en skattar á þau stærri þó svo að eflaust finni allir fyrir nýjum sköttum.

Maður hlýtur líka að velta fyrir sér hverjar forsendurnar fyrir skattlagningunni eru. Er það vegna þess að fjármálakerfið brást, hið fyrra fjármálakerfi, og nú eigi þeir sem tóku við að borga brúsann? Að sumu leyti geta þau rök gengið, að þeir aðilar eigi að taka þátt í endurreisn landsins umfram þá skatta og skyldur sem þeir borga að öðru leyti.

Það verður hins vegar að útfæra þá skattheimtu á þann hátt að hún komi ekki niður á starfsfólki þessara stofnana og því verði sagt upp. Það á heldur ekki að mínu viti að koma niður á kjörum viðskiptavinanna því að þeir eru margir í þeirri stöðu að geta illa borgað mikinn kostnað af viðskiptum sínum við fjármálastofnanir, sem er þó ærinn í dag. Einnig hefur komið fram í umræðum hér að ef horft er til heildarskattahugmyndanna og þeirra breytinga sem verið er að vinna að, þá er víða komið við og fjársýsluskatturinn er eingöngu einn skattur af mörgum sem verið er að skoða.

Jákvætt er, eins og ég nefndi áðan eða fyrr í kvöld, að lagt er upp með málið með ögn mildari hætti varðandi litlu sparisjóðina en áður var og er það að sjálfsögðu mjög gott. Hins vegar stendur það eftir að við höfum ekki enn þá fengið neina vissu eða hugmyndir um það hvernig ríkið eða stjórnarflokkarnir hyggjast endurreisa sparisjóðakerfið, eins mikið og fjálglega og um það var talað.

Ein hugmynd hefur verið rædd og hún er um það hvernig staðið verði að innheimtu og í rauninni álagningu á innanlandsflug, þ.e. kolefnisgjald. Nú hafa hins vegar komið fram breytingar varðandi það, þ.e. að halda í horfinu, nota sömu krónutölu og sama viðmið og er á árinu sem er að líða fyrir næsta ár. Er það að sjálfsögðu mjög gott að sá skattur verði ekki hækkaður því að það mundi fara, eins og varað var við í fyrri umræðum, út í verð á flugmiðum og skaða væntanlega í framhaldinu ferðaþjónustu og annað því um líkt.

Sá skattur sem við ræðum nú, fjársýsluskatturinn, getur haft svipuð áhrif eins og hér hefur verið marglýst. Það sem er kannski mest hægt að deila á í þessu er að undirbúningurinn virðist vera eitthvað gloppóttur, í það minnsta hafa áhrifin mögulega ekki verið metin. Enda hefur það komið fram á fundum þingflokka, sumra hverra í það minnsta, með fulltrúum fjármálafyrirtækja að mjög óljóst er hvar fyrirtækin munu þurfa í rauninni taka þá fjármuni sem þau þyrftu að borga í þennan skatt. Hann er vissulega lagður á laun og virðist þar af leiðandi sjálfgefið að reynt verði að lækka launakostnað. Eins og hér hefur margoft verið bent á verður það líklega fólkið á gólfinu, konur, sem mun fara hvað verst út úr því.

Það er einhvern veginn þannig að þær hugmyndir sem hafa komið fram varðandi skattlagningar og niðurskurð bitna einna helst á kvennastéttum og þeim sem konur eru að sinna fyrir þjóðina, fyrir samfélagið, og það er mjög miður. Það hangir allt saman, þegar ég segi þetta, þessi staðreynd og þær ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi heilbrigðisstofnanir og ýmislegt annað. Á sama tíma er rætt um að hækka skatta á samgöngur, þ.e. bensín- og olíuskatta. Við verðum að sjá á næstu klukkutímum og sólarhringum hvort tekst að breyta því með einhverjum hætti.

Ég nefndi hér fyrr og hvatti ríkisstjórnina til þess að halda áfram með átakið Allir vinna, að endurgreiða hluta af þeim kostnaði sem hlýst af kringum það verkefni. Mér sýnist að stjórnarflokkarnir hafi áform uppi um að gera það og vil ég leyfa mér að nota tækifærið og fagna því verði það að veruleika.

Maður staldrar við þegar nýjar skattahugmyndir koma, þegar nýr skattur er lagður á. Reynslan sýnir vitanlega að erfiðara er að afnema skatta en að koma þeim á. Það er væntanlega þá verkefni þeirra sem munu taka við eftir 15 mánuði að endurskoða það prógramm eða þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur farið í með það að markmiði að reyna að gera samfélagið þannig að peningarnir sem eru þó að rúlla í því nýtist sem best.

Það má líka velta fyrir sér hvort þeir skattar sem verið er að leggja á núna séu einhvers konar úttekt á framtíðarsköttum, mögulegum, ef ekki er staðið rétt að málum. Þá á ég við að ef yfirlýsingar eða ef einhvers konar samkomulag er gert með þeim hætti að við stöndum frammi fyrir því að búið sé að lofa einhvers konar leiðréttingu eða þess háttar er vitanlega verið að grípa fram fyrir hendurnar á komandi stjórnvöldum.

Í nefndarálitum sem hafa verið skrifuð og sett fram varðandi fjársýsluskattinn hefur ýmislegt verið gagnrýnt. Á það er bent sem ég hef ekki nefnt áður eða ég hef ekki farið með tölur, réttara sagt, ég hef minnst á það áður varðandi uppsagnir, að talið er líklegt að fólki í fjármálafyrirtækjum muni fækka um allt að 10%, en nú þegar hafa 2 þús. manns misst vinnuna. Það er að sjálfsögðu mjög stór hluti ef af verður. Þetta er eiginlega neikvæður spírall sem ríkisstjórnin er að búa til. Með því að hrekja fólk út af vinnustöðum og á atvinnuleysisbætur eykst krafan um aukna fjármuni í atvinnuleysistryggingakerfið og hugsanlega skólakerfið. Þeir sem hafa tækifæri geta farið í nám en það þarf þá að vera hægt að taka við þeim inn í skólana. Á sama tíma státar ríkisstjórnin af því að vera að auka fjármuni til velferðarmála sem felast fyrst og fremst í auknum framlögum til atvinnuleysistrygginga vegna atvinnuleysis.

Það mun svo væntanlega verða að þegar atvinnuleysi minnkar og búið verður að leiðrétta eitthvað alla þessa skatta sem breytt hefur verið, þ.e. fólk fer af atvinnuleysisskrá og fer að vinna í fjármálafyrirtækjunum aftur eða einhvers staðar annars staðar, þá mun því örugglega vera haldið fram að verið væri að skera niður í velferðarmálum. Það er mikilvægt að mínu mati, frú forseti, að nefna þetta hér upp á framtíðina, upp á það sem ég er nærri því viss um að verður sagt í þessum sal innan fárra ára.

Fjársýsluskatturinn er nýr skattur sem mun leiða til enn meiri vandræða varðandi kvennastörf (Forseti hringir.) og því hljótum við að hafna.