140. löggjafarþing — 37. fundur,  15. des. 2011.

fjársýsluskattur.

193. mál
[20:11]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðu hans og þá yfirferð um það frumvarp sem hér liggur fyrir og tilvitnanir í þau nefndarálit sem efnahags- og viðskiptanefnd hefur sett saman um málið.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvort hann gæti tekið undir þau sjónarmið sem ég hef sett fram í umræðu um málið að þau nefndarálit þrjú sem liggja fyrir séu í megindráttum efnislega samhljóða. Maður sér á nefndaráliti meiri hlutans að verið er að gera tillögur um umtalsverðar breytingar á frumvarpinu sem kom frá ríkisstjórninni. Ég þóttist skynja það í gegnum þann texta sem settur er á blað í nefndaráliti meiri hluta nefndarinnar að vilji væri til þess að gera frekari breytingar en stjórnarmeirihlutinn í nefndinni treysti sér til að gera.

Mig langar að heyra sjónarmið hv. þingmanns varðandi það hvort hann gæti verið sammála mér í þeim efnum og þá sérstaklega þeim þáttum sem mér finnst standa eftir ef við horfum til tillagna meiri hlutans, hvaða þættir þar væru á ferðinni og hv. þingmaður gæti hugsað sér að knýja betur á um.

Ég hjó líka eftir því að hann hefur áhyggjur af þeirri fækkun starfa sem verður, sérstaklega í sparisjóðakerfinu, á grundvelli þeirra hugmynda sem þar koma fram. Og þar sem töluvert er um þær stofnanir í kjördæmi hv. þingmanns vil ég gjarnan heyra mat hans á áhrifum þess ef það gengi yfir óbrjálað, þ.e. tillögur (Forseti hringir.) sem fyrir liggja frá meiri hluta nefndarinnar.